Fara í efni

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar

153. fundur 28. desember 2004
 
Sveitarstjórn Skagafjarðar
Fundur 153 - 28.12.2004

 
 
Ár 2004, þriðjudaginn 28. desember, kom Sveitarstjórn Skagafjarðar saman til fundar í Dómsalnum, Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 21, kl. 1600
            Mætt voru: Gunnar Bragi Sveinsson, Þórdís Friðbjörnsdóttir, Einar Einarsson, Gísli Gunnarsson, Ásdís Guðmundsdóttir, Bjarni Maronsson, Gréta Sjöfn Guðmunds­dóttir,  Bjarni Jónsson og Ársæll Guðmundsson, sveitarstjóri.
 
Forseti setti fund og leitaði samþykkis fundarmanna um að taka með afbrigðum á dagskrá fundargerð Byggðarráðs í dag, 28. des. Samþykkt.
 Einnig var leitað samþykkis um fundargerð Atvinnu- og ferðamálanefndar 28. des. Synjað með 4 atkvæðum.
 
Vegna þessarar synjunar leggur Bjarni Jónsson fram svofellda bókun:
 “Atvinnu- og ferðamálanefnd var áður boðuð til fundar með sömu dagskrá þann 22. des. sl. Þar sem fulltrúi Framsóknarflokks í nefndinni forfallaðist og ekki náðist að kalla til varamann hans, var fundi frestað til 28. desember og var fundur þá haldinn með óbreyttri dagskrá, svo allir nefndarmenn gætu tekið þátt í afgreiðslu mála.”
                                                                        Bjarni Jónsson
 
Þá leggur Gunnar Bragi Sveinsson fram bókun af sama tilefni:
“Ekkert í fundargerðinni krefst þess að hún sé tekin á dagskrá með afbrigðum. Þá skal þess geta að fyrirhugaður fundur 22. des. var ekki boðaður skv. samþykktum sveitarfélagsins og því ekki við Framsóknarmenn að sakast.”
                                                                        Gunnar Bragi Sveinsson
                                                                        Þórdís Friðbjörnsdóttir
                                                                        Einar E. Einarsson
 
Forseti lýsti nú dagskrá með áorðinni breytingu:
 
 
DAGSKRÁ:
1.  Fundargerðir:
a)      Byggðarráð 21. og 28. des.
b)      Félags- og tómstundanefnd 17. des.
c)      Fræðslu- og menningarnefnd 17. des.
d)      Landbúnaðarnefnd 17. des.
e)      Skipulags- og bygginganefnd 16. des.
f)        Umhverfisnefnd 15. des.
 
2.   Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess
fyrir árið 2005 – Síðari umræða –
 
3.   Bréf og kynntar fundargerðir:
a)      Heilbrigðisnefnd Norðurl.vestra 20. des.
b)      Skagafjarðarveitur 16. des.
 
 
AFGREIÐSLUR:
 
1.  Fundargerðir
a)   Byggðarráð 21. des.
Dagskrá:
1.      Brunavarnir Skagafjarðar – vinnuferlar.  Óskar S. Óskarsson slökkviliðsstjóri kemur til fundar
2.      Kaupsamningur v/eigna Skógræktar ríkisins í landi Reykjarhóls
3.      Úthlutun kvóta til Hofsóss
4.      Umsókn um niðurfellingu gjalda
5.      Starfsmat
6.      Fjárhagsáætlun 2005
7.      Eignasjóður
a)      Íbúðakaup
8.      Bréf og kynntar fundargerðir:
a)      Bréf frá Samtökum dragnótamanna
b)      Tilkynningar skv. 10. gr. jarðalaga nr. 81/2004
                                                         i.      Aðilaskipti á jörðinni Steintúni, landnr. 146234
                                                       ii.      Aðilaskipti á jörðinni Stóru-Brekku, landnr. 146903
Gísli Gunnarsson kynnti fundargerðina.  Til máls tóku Þórdís Friðbjörnsdóttir, Bjarni Maronsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ársæll Guðmundsson, fleiri ekki.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
      Byggðarráð 28. des.
Dagskrá:
1.      Úthlutun kvóta til Hofsóss.  Áður á dagskrá 21. des. 2004
2.                  Erindi Gunnars Braga Sveinssonar varðandi úttekt KPMG
3.                  Menntasjóður sviðsstjóra
4.                  Erindi frá Yfirfasteignamatsnefnd – beiðni um umsögn vegna kæru
5.                  Umsókn um lengdan opnunartíma veitingastaðarins Bar-inn
6.                  Umsókn um lengdan opnunartíma veitingastaðarins Kaffi Krókur
7.                  Umsókn um lengdan opnunartíma veitingastaðarins Ólafshúss
8.                  Fjárhagsáætlun 2006-2008
9.                  Samningur um verkefnastjóra vegna skráningarmála
10.              Gjaldskrárbreytingar
11.              Bréf og kynntar fundargerðir:
a)      Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
b)      Tilkynningar skv. 10. gr. jarðalaga nr. 81/2004
                                                                     i.      Aðilaskipti á hluta af landi Steintúns, landnr. 199117
Gísli Gunnarsson kynnir þessa fundargerð einnig. Til máls tóku Gunnar Bragi Sveinsson, Einar E. Einarsson, Þórdís Friðbjörnsdóttir, fleiri ekki.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Einar E. Einarsson óskar bókað að hann taki ekki þátt í afgreiðslu 9. liðar.
b)   Félags- og tómstundanefnd 17. des.
Dagskrá:
1.      Gjaldskrár vegna íþróttamannvirkja
2.      Lagt fram bréf Léttfeta, dags. 24.11.2004
3.      Lagt fram bréf til Byggðarráðs, dags. 24.11.2004, m.a. vegna Geymslunnar
4.      Húsnæðismál Geymslunnar
5.      Gjaldskrár og viðmiðunarmörk vegna félagsmála
6.      Ferðaþjónustu fatlaðra
7.      Staða fjárhagsáætlunar
8.      Trúnaðarmál
9.      Húsnæðismál
10.  Önnur mál
Ásdís Guðmundsdóttir kynnti fundargerðina. Til máls tóku Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, fleiri ekki.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
c)   Fræðslu- og menningarnefnd 17. des.
      Dagskrá:
Skólamál - Grunnskóli:
1.      Fjárhagsáætlun 2005.
2.   Önnur mál.
Leikskóli:
3.      Fjárhagsáætlun 2005.
4.      Erindi frá leikskólastjórum, dags. 8. desember 2004. Sumarlokanir leikskóla.
5.      Önnur mál.
Tónlistarskóli:
6.      Fjárhagsáætlun 2005.
7.      Önnur mál.
Menningarmál:
8.      Fjárhagsáætlun 2005.
9.      Önnur mál.
Gísli Gunnarsson kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
     d)   Landbúnaðarnefnd 17. des.
Dagskrá:
1.      Fjárhagsáætlun 2005
2.      Réttarbygging í Deildardal 2005
3.      Bréf.
Einar E. Einarsson kynnir fundargerð. Gísli Gunnarsson tekur til máls og vísar 1. og 2. lið til gerðar fjárhagsáætlunar. Þá tala Einar E. Einarsson, Bjarni Maronsson, fleiri ekki. Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
 
     e)   Skipulags- og byggingarnefnd 16. des.
Dagskrá:
1.      Fjárhagsáætlun 2005,
2.      Landamót, Hofsósi – geymsluskúr lagfæringar, Einar Einarsson.
3.      Aðalgata 20b -aðaluppdrættir.
4.      Ástún – nafnleyfi – Páll Jónsson.
5.      Hafragil – landskipti.
6.      Önnur mál.
Bjarni Maronsson skýrir fundargerðina. Enginn kvaddi sér hljóðs.
1. lið fundargerðar vísað til Fjárhagsáætlunar. Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.
 
 
     f)   Umhverfisnefnd 15. des.
Dagskrá:
1.      Fjárhagsáætlun 2005
2.      Hunda- og kattahald í sveitarfélaginu
3.      Önnur mál
Gísli Gunnarsson kynnir fundargerðina og vísar 1. lið til 2. liðar í þessari fundarg. Sveitarstjórnar. Þórdís Friðbjörnsdóttir kvaddi sér hljóðs, fleiri ekki.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
Fundarhlé gert kl. 17:15. – Fundi síðan framhaldið kl. 17:20.
 
 
2.   Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess
fyrir árið 2005 – Síðari umræða –
 
Til máls tók Ársæll Guðmundsson sveitarstjóri. Gerði hann grein fyrir þeirri fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess fyrir árið 2005 sem hér er lögð fram til síðari umræðu og skýrði þær breytingar sem orðið hafa á áætluninni milli umræðna.
 
“Niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar fyrir aðalsjóð eru rekstrartekjur 1.642.029 þús. kr. og rekstrargjöld 1.723.266 þús.kr., fjármagnsliðir jákvæðir um 51.695 þús.kr.  Aðrir sjóðir í A-hluta; Eignasjóður og þjónustumiðstöð, rekstrartekjur 270.980 þús.kr., rekstrargjöld 185.749 þús.kr., fjármagnsliðir neikvæðir um 136.391 þús.kr.  Fjárfesting ársins er 52.600 þús.kr.
B-hluta stofnanir og fyrirtæki, Hafnarsjóður Skagafjarðar, Fráveita Skagafjarðar, Félagsíbúðir Skagafjarðar og Skagafjarðarveitur ehf., rekstrartekjur 240.950 þús.kr., rekstrargjöld 204.532 þús.kr., fjármagnsliðir neikvæðir um 73.458 þús.kr.  Fjárfesting ársins 61.450 þús.kr. og áætlað söluverð eigna 80.000 þús.kr.
Áætluð rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins og fyrirtækja á árinu 2005 er því halli að upphæð 99.742 þús.kr.”
 
Til máls taka Gunnar Bragi Sveinsson, Einar E. Einarsson, Ársæll Guðmundsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Gísli Gunnarsson, Ársæll Guðmundsson, Bjarni Maronsson, Ásdís Guðmundsdóttir, þá Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir sem leggur fram eftirfarandi bókun:
 
“Fjárhagsáætlun ársins 2005 er unnin á ábyrgð meirihluta sveitarstjórnar án þátttöku fulltrúa Skagafjarðarlistans eða minnihluta sveitarstjórnar.  Vinnubrögð við gerð fjárhags­áætlunarinnar eru mjög tvístruð og ómarkviss.  Ljóst er að hið margnefnda aðhald í rekstri sveitarfélagsins af hálfu meirihlutans og lagt er til grundvallar fjárhagsáætlun ársins 2004, mun ekki standast.  Niðurstaða ársins 2004 verður ekki í samræmi við fjárhagsáætlun ársins 2004.  Fjárhagsáætlun ársins 2004 er hinsvegar notuð hér sem meginútgangspunktur fyrir fjárhagsáætlun ársins 2005.
Í 3ja ára áætlun meirihlutans fyrir árið 2005 var gert ráð fyrir halla á rekstri að upphæð um 36 milljónir, hér er lagt til að hann verði tæpar 100 milljónir með ítrustu bókhaldsaðgerðum.  Skuldir í árslok eru áætlaðar í þessari fjárhagsáætlun um 2.770 milljónir króna er voru áætlaðar í 3ja ára áætluninni 2.550 milljónir króna.   Að sama skapi er ljóst að skuldir í árslok 2004 verða þó nokkru hærri en áætlunin gerði ráð fyrir.  Skuldir í árslok 2005 munu því ekki verða lægri í lok ársins en í byrjun þess hvað sem líður fullyrðingu sveitarstjóra þar um í fjárhagsáætluninni.  Þar mun muna verulegum upphæðum.
 
Fulltrúi Skagafjarðarlistans flytur ekki breytingartillögu við þessa fjárhagsáætlun, staðan er vissulega þröng í rekstri sveitarfélaga, en vinnubrögð sveitarstjóra og meirihlutans við gerð fjárhagsáætlunarinnar eru óviðunandi. 
Undirritaður fulltrúi Skagafjarðarlistans mun því sitja hjá við afgreiðslu fjárhags­áætlunarinnar.”
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir
 
Einar E. Einarsson tók því næst til máls, síðan Gunnar Bragi Sveinsson og lagði fram eftirfarandi:
 
Fulltrúar Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar gera eftir­farandi bókun og tillögu:
“Íbúum sveitarfélagsins fækkaði verulega á yfirstandandi ári. Því er ljóst að endurvekja þarf traust almennings á Skagafirði sem búsetukosti. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar sveitarstjóra og meirihlutafulltrúa um góðan rekstur, hagræðingu og árangur í fjármálastjórn er ljóst, skv. Ársreikningum sveitarfélagins fyrir árið 2003 og fjárhagsáætlun 2004 og framlagðri áætlun fyrir árið 2005, að eigið fé samstæðu sveitarfélagins rýrnar árlega að meðaltali þessara ára um rúmlega 100 milljónir, sem þýðir að sveitarsjóður verður kominn í þrot innan örfárra ára með óbreyttri stefnu. Ljóst er að nú þegar verður að bregðast við með róttækum aðgerðum.
Enn og aftur benda fulltrúar Framsóknarflokksins á að eina raunhæfa leið sveitarfélagsins til að snúa þessari óheillaþróun við er að auka tekjur sveitarsjóðs. Þær verða ekki auknar nema með uppbyggingu atvinnulífs í héraðinu. Því er lagt til að fjárveiting til atvinnumála verði aukin um 50 milljónir króna til uppbyggingar atvinnulífs sem fyrsta skref í þeirri viðleitni að snúa við rekstri sveitarfélagsins og íbúaþróun héraðsins.
Fulltrúar flokksins geta ekki samþykkt framlagða  fjárhagsáætlun sem leiðir til þrots sveitarsjóðs innan örfárra ára, því greiðum við atkvæði gegn fjárhagsáætluninni.”
                                                                        Gunnar Bragi Sveinsson
                                                                        Þórdís Friðbjörnsdóttir
                                                                        Einar E. Einarsson.
 
Gísli Gunnarsson tók til máls og lagði fram bókun:
“Samkvæmt fjárhagsáætlun 2005 munu langtímaskuldir sveitarfélagsins lækka. Því ber að fagna, svo og aðhaldi í rekstri sveitarfélagsins. Vegna bókunar fulltrúa S-lista er rétt að taka það fram að S-listinn hefur áheyrnarfulltrúa í byggðarráði með málfrelsi og tillögurétt og getur þannig komið að gerð fjárhagsáætlunar ef áhugi væri fyrir hendi.”
                                                                        Gísli Gunnarsson.
 
Tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins borin undir atkvæði og felld með 5 atkv., 4 á móti.
 
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess fyrir árið 2005 er nú borin undir atkvæði og samþykkt með fimm atkvæðum. Þrjú atkv. eru greidd á móti.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir hefur í bókun sinni lýst því að hún sitji hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2005.
 
 
3.  Bréf og kynntar fundargerðir:
a)      Heilbrigðisnefnd Norðurl.vestra 20. des.
b)      Skagafjarðarveitur 16. des.
 
Bjarni Maronsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram svofellda bókun v. liðar 5 í fundargerð Skagafjarðarveitna frá 16.12.2004:
“Undirritaður lýsir áhyggjum sínum vegna seinagangs verktaka við borun eftir heitu vatni við Kýrholt í Viðvíkursveit. Rannsóknir benda eindregið til að þarna sé heitt vatn í jörðu og brýnt að heitavatnsleit og borunum á svæðinu verði fram haldið hið fyrsta.
Áríðandi er að stjórn Skagafjarðarveitna og Sveitarstjórn Skagafjarðar vinni ötullega að framgangi þessa máls á næstu mánuðum.”
                                                                                    Bjarni Maronsson
 
  Aðrir kvöddu sér ekki hljóðs undir þessum lið.  Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:12.
                                                            Engilráð M. Sigurðardóttir, ritari