Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd

107. fundur 19. september 2006
Skipulags- og byggingarnefnd  Skagafjarðar
Fundur 107 -  19.09. 2006.
____________________________________________________________________________
                       
Ár 2006, þriðjudaginn 19. september kl.1315, kom Skipulags- og byggingarnefnd saman til fundar í Ráðhúsinu við Skagfirðingabraut á Sauðárkróki.
           
Mætt voru:      
Einar E. Einarsson, Páll Dagbjartsson, Svanhildur Guðmundsdóttir, Jón Örn Berndsen, skipulags- og byggingarfulltrúi og Páll Zóphóníasson.
 
Dagskrá:
 
       Aðalskipulag Skagafjarðar 2005 - 2017
       Önnur mál.
 
Einar Einarsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna sérstaklega Pál Zóphóníasson,             sem kominn er á fund nefndarinnar vegna vinnu við aðalskipulagstillöguna.
 
Afgreiðslur:
 
Aðalskipulag Skagafjarðar 2005 – 2017. Jón Örn fór yfir formlega stöðu málsins og gerði grein fyrir málahaldi síðustu mánuðina. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar 2. mars 2006 var samþykkt að óska eftir við Sveitarstjórn Skagafjarðar að taka tillögu að Aðalskipulagi Skagafjarðar 2005-2017 til fyrri umræðu. Einnig var lagt til við Sveitarstjórn að hún óskaði heimildar Skipulagsstofnunar til að auglýsa tillöguna. Á fundi Sveitarstjórnar þann 16. mars 2006  staðfestir Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkt Skipulags- og byggingarnefndar frá 2. mars 2006. Jafnframt samþykkti sveitarstjórn að óska eftir heimild Skipulagsstofnunar til að auglýsa framlagða 4. tillögu að Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2005 – 2017 samkvæmt 18. gr. Skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 með síðari breytingum.
Skipulagsstofnun svaraði erindi Sveitarstjórnar Skagafjarðar með bréfi dagsettu 5. júní 2006. Niðurstaða þess bréfs er að Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar er heimilt að auglýsa tillöguna samkvæmt skipulags- og byggingarlögum taki sveitarstjórn tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar í framangreindu svarbréfi. Að öðrum kosti beri sveitarstjórn að birta athugasemdir Skipulagsstofnunar með auglýsingunni á auglýsingartímanum. Að lokinni yfirferð Jóns Arnar fór Páll yfir skipulagstillöguna eins og hún liggur fyrir, gerði grein fyrir helstu þáttum hennar. Þá fór Páll einnig yfir svarbréf Skipulagsstofnunar frá 5. júní 2006, sem lagt var fram á fundinum. Að loknum umræðum um aðalskipulagstillöguna er eftirfarandi tillaga lögð fram af fulltrúum Framsóknarflokks og Samfylkingar í Skipulags- og byggingarnefnd og hún samþykkt með atkvæðum fulltrúa Framsóknarflokks og Samfylkingar :
 
“Skipulags og byggingarnefnd samþykkir að í aðalskipulagi verði gert ráð fyrir og sýnd möguleg svæði til virkjunar Héraðsvatna þ.e.a.s. við Skatastaði og Villinganes.
Jafnframt samþykkir Skipulags og byggingarnefnd:
Mjög ólíklegt er að virkjanir við Villinganes eða Skatastaði verði á dagskrá næstu árin þar sem ljóst er að iðjuver á Norðurlandi verður reist við Húsavík.  Skipulags- og byggingarnefnd  er samt ljós sú samfélagslega skylda að meta alla möguleika til eflingar atvinnu- og mannlífs í Skagafirði.  Virkjanir í Héraðsvötnum koma aðeins til greina að undangengnum víðtækum rannsóknum og almennri upplýstri umræðu um kosti og galla, þar sem m.a. verði leitað álits íbúa Skagafjarðar.  Skipulags- og byggingarnefnd ítrekar að mögulegir virkjunarréttir verði á höndum Skagfirðinga og einungis nýttir til eflingar atvinnu og mannlífs innan héraðs.”
 
 Páll Dagbjartsson óskar bókað: “Að svo stöddu get ég ekki stutt framangreinda tillögu, ég tel að sátt hafi verið um að leggja fram 4. tillögu að Aðalskipulagi Skagafjarðar óbreytta og að á síðari stigum sé hægt að endurskoða skipulagstillöguna verði þess talin þörf  og greiði ekki atkvæði.
 
Skipulagsráðgjöfum og skipulagsfulltrúa falið að breyta aðalskipulagstillögunni í samræmi við ofangreinda bókun og leggja fyrir skipulags- og byggingarnefnd aftur til samþykktar á sveitarfélagsuppdrætti í mælikvarða 1:150.000.
 
Skipulags- og byggingarnefnd vill árétta að hún er sammála þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið við skipulagsvinnuna varðandi þéttbýlisstaði, þ.e.a.s að einungis séu gerðar breytingar á staðfestum aðalskipulagsuppdráttum þéttbýlisstaðanna og að aðalskipulagsáætlanir þeirra gildi áfram. Ein af aðalskipulagstillögunum er sú stefna að í beinu framhaldi af samþykkt aðalskipulagstillögunnar verði farið í markvissa vinnu við gerð nýs aðalskipulags fyrir þéttbýlisstaðina Sauðárkrók, Hóla, Varmahlíð og Steinsstaði.
 
Önnur mál voru engin.
Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt.
Fundi slitið kl. 1651
 
Jón Örn Berndsen,
ritari fundargerðar.