Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd

101. fundur 09. júní 2006
Skipulags- og byggingarnefnd  Skagafjarðar
Fundur 101  – 9. júní 2006.
 
Ár 2006, föstudaginn 9. júní kl.1615  kom  Skipulags- og byggingarnefnd saman til fundar í  í Ráðhúsinu við Skagfirðingabraut á Sauðárkróki.
           
Mætt voru:      
Bjarni Maronsson, Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Einar E. Einarsson, Jón Örn Berndsen skipulags – og byggingarfulltrúi, Sigurður H. Ingvarsson starfsmaður skipulags- og byggingarfulltrúa og Óskar S. Óskarsson slökkviliðsstjóri
 
Dagskrá:
1.         Garðakot í Hjaltadal – fjósbygging
2.         Narfastaðir í Viðvíkursveit – landskipti
3.         Syðra-Skörðugil – deiliskipulag
4.         Marbæli á Langholti – Landskipti
5.         Reykjarhóll í Varmahlíð – frístundabyggð
6.         Freyjugata 44, Sauðárkróki -
7.         Flæðagerði – lóðarfyrirspurn
8.         Hólar í Hjaltadal – hesthúsbygging
9.         Hólalax hf. Ákvörðun um matsskyldu – bréf Skipulagsstofnunar
10.     Varmilækur – landskipti
11.     Eskihlíð 2, Sauðárkróki
12.     Barmahlíð 1, Sauðárkróki
13.     Reynimelur í Varmahlíð
14.     Brennihlíð 9, Sauðárkróki
15.     Skagfirðingabraut 47, Sauðárkróki
16.     Iðutún 12, Sauðárkróki
17.     Iðutún 5-7, Sauðárkróki
18.     Vogar á Höfðaströnd
19.     Korná
20.     Hlíð í Hjaltadal
21.     Gýgjarhóll - útlitsbreyting  
22.     Önnur mál.
 
                        Bjarni Maronsson  setti fund og bauð velkomna fundarmenn.
 
Afgreiðslur:
 
1.         Garðakot í Hjaltadal – fjósbygging. Pálmi Ragnarsson, Garðakoti sækir um byggingarleyfi  fyrir legubásafjósi í Garðakoti. Meðfylgjandi aðaluppdrættir eru gerðir af Stoð ehf. Braga Þór Haraldssyni og eru þeir dagsettir 5. júní 2006. Erindið samþykkt
 
2.            Narfastaðir í Viðvíkursveit – landskipti. Bergur Gunnarsson og Rósa María Vésteinsdóttir, þinglýstir eigendur lögbýlisins Narfastaða í Skagafirði, landnúmer. 146419, sækja um með vísan til IV. kafla Jarðalaga nr. 81 frá 9. júní 2004 heimild Skipulags- og byggingarnefndar og Sveitarstjórnar Skagafjarðar til að skipta 4.250 m2  landspildu út úr framangreindri jörð. Um er að ræða lóð undir hesthús og fyrirhugaða stækkun þess.
Lóðin sem um ræðir í umsókn þessari er nánar skilgreind og hnitasett á meðfylgjandi yfirlits- og afstöðuuppdrætti sem unnin  eru af STOÐ ehf. verkfræðistofu á Sauðárkróki og gefin út  19. maí 2006. Erindið samþykkt.
 
3.            Syðra-Skörðugil – deiliskipulag. Einar E. Einarsson, Syðra Skörðugili óskar, með bréfi    dagsettu 1. júní 2006, eftir að deiliskipulag dagsett í júní 2006 verði tekið fyrir og heimiluð auglýsing á skipulaginu. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að taka deiliskipulagið til meðferðar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Einar Einarsson vék af af fundi undir afgreiðslu þessa liðar.
 
4.            Marbæli á Langholti – Landskipti. Ragnheiður Guðmundsdóttir, fh. Marbælis ehf. sem er þinglýstur eigandi lögbýlisins Marbælis í Skagafirði, landnúmer 146058, sækir um með vísan til IV. kafla Jarðalaga nr. 81 frá 9. júní 2004 heimild Skipulags- og byggingarnefndar og Sveitarstjórnar Skagafjarðar  til að skipta 41000 m2  landspildu út úr framangreindri jörð. Lóðin sem um ræðir í umsókn þessari er nánar skilgreind og hnitsett á meðfylgjandi yfirlits- og afstöðuuppdrætti sem unnin eru af STOÐ ehf. verkfræðistofu á Sauðárkróki og gefin út  15. febrúar 2006. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir landskiptin.
 
5.            Reykjarhóll í Varmahlíð – frístundabyggð. Sigurður Sigfússon, kt. 021147-2739, fyrir hönd Ingva og Sigurðar Sigfússona, sækir um byggingarleyfi samkvæmt framlögðum uppdráttum gerðum af Teiknistofu Hauks Viktorssonar, Reykjavík, fyrir fjögur sumarhús á  lóðunum  nr 2, 4 og 14 við Reykjarhólsveg í Varmahlíð. Einnig er sótt um leyfi til að koma fyrir setlaugum við húsin. Skipulags- og byggingarnefnd veitir byggingarleyfið. Vegna setlauga á lóðum vill skipulags- og byggingarnefnd sérstaklega bóka. Setlaugar á lóðum skulu búnar læsanlegu loki til að hylja þær, meðan þær eru ekki í notkun, eða öðrum búnaði til varnar slysum. Umhverfis setlaugarnar þarf að vera handrið þannig útbúið að ekki sé hætta á að börn geti dottið í setlaugina. Hitastýrð blöndunartæki eða búnaður þarf að vera svo að vatnshiti fari ekki yfir 43°C við töppunarstað.
 
6.            Freyjugata 44, Sauðárkróki – Kristinn Alexandersson, Freyjugötu 44 sækir um leyfi til að reisa 9 m2 garðhús á lóðinni og gera sólpall og skjólveggi samkvæmt meðfylgjandi gögnum. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið enda liggi fyrir samþykki nágranna.
 
7.            Flæðagerði – lóðarfyrirspurn. Stefán Friðriksson dýralæknir óskar, með bréfi dagsettu 24. maí 2006, eftir lóð undir starfsemi dýraspítala í Flæðagerði samkvæmt meðfylgjandi gögnum. Skipulags- og byggingarnefnd tekur jákvætt í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að vinna málið áfram með hlutaðeigandi aðilum.
 
8.            Hólar í Hjaltadal – hesthúsbygging. Ólafur Sigmarsson stjórnarformaður, fh. Hesthóla ehf, óskar eftir leyfi til að hefja framkvæmdir við byggingu hesthúss á lóð Hesthóla á Hólum samkvæmt meðfylgjandi gögnum. Skipulags- og byggingarnefnd heimilar að grafið verði fyrir byggingunni.
 
9.            Hólalax hf. Ákvörðun um matsskyldu – bréf Skipulagsstofnunar dagsett 27. apríl 2006  lagt fram og kynnt.
 
10.        Varmilækur – Umsókn um landsskipti og stofnun lóða. Björn Sveinsson, þinglýstur eigandi lögbýlisins Varmalækjar,  landnr. 146245, í Skagafirði, sækir um með vísan til IV. kafla Jarðalaga nr. 81 frá 9. júní 2004, heimild Skipulags- og byggingarnefndar og Sveitarstjórnar Skagafjarðar  til að :
a) skipta 5.724 m2  landspildu út úr framangreindri jörð. Spildan hefur fengið landnúmerið 207440. Um er að ræða lóð undir fasteignir Lovísu Sveinsdóttur, kt. 231250-7869.
b) Skipta 227,9 m2  landspildu út úr framangreindri jörð. Spildan hefur fengið landnúmerið 207441. Um er að ræða lóð undir fyrrverandi verslunarhús á Varmalæk, sem þar stendur.
         c) Skipta 14876 m2  landspildu út úr framangreindri jörð. Spildan hefur fengið landnúmerið 207459. Um er að ræða lóð undir núverandi íbúðarhús Björns Sveinssonar.
Lóðir þær sem um ræðir í umsókn þessari eru nánar skilgreindar og hnitasettar á meðfylgjandi þremur lóðarblöðum sem unnin  eru af STOÐ ehf. verkfræðistofu á Sauðárkróki og gefin út  17. maí 2006.
Lögbýlarétturinn mun áfram fylgja Varmalæk, landnr. 146245,  þ.a.s landi því sem eftir stendur. – Erindið samþykkt eins og það er fyrir lagt.

 
11.     Eskihlíð 2, Sauðárkróki. Sigurður Kárason, Eskihlíð 2, Sauðárkróki sækir um leyfi til að byggja 5 m2 garðhús á lóðinni samkvæmt meðfylgjandi gögnum. Erindið samþykkt
 
12.     Barmahlíð 1, Sauðárkróki. Sæmundur Hafsteinsson, Barmahlíð 1 á Sauðárkróki sækir um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu á lóðinni samkvæmt meðfylgjandi uppdráttum dagsettum 2. júní 2006, gerðum af Guðmundi Þór Guðmundssyni, byggingarfræðing. Erindið samþykkt.
 
13.     Reynimelur - Varmahlíð. Hafsteinn Harðarson og Amalía Árnadóttir, Reynimel sækja, með bréfi dagsettu 7. júní 2006, um leyfi til að klæða utan íbúðarhús sitt Reynimel með álklæðningu, breyta vindskeiðum og gera við húsið sólpalla. Erindið samþykkt eins og það er fyrir lagt.
 
14.     Brennihlíð 9, Sauðárkróki. Hörður Þórarinsson og Hafdís H. Steinarsdóttir óska eftir leyfi til að stækka sólpall og gera skjólveggi á lóð sinni Brennihlíð 9, Sauðárkróki samkvæmt meðfylgjandi gögnum. Erindið samþykkt.
 
15.     Skagfirðingabraut 47, Sauðárkróki. Ólafur E. Friðriksson húsasmíðameistari sækir, fh. Árna Kristinssonar og Margrétar Sæmundsdóttur, Skagfirðingabraut 47 um leyfi til að breyta póstasetningu glugga á austur- og suðurhlið íbúðarhússins við Skagfirðingabraut 47, samkvæmt meðfylgjandi gögnum. Erindið samþykkt.
 
16.     Iðutún 12, Sauðárkróki. Sigríður Rósa Valgeirsdóttir, Barmahlíð 1, Sauðárkróki skilar inn lóðinni nr. 12 við Iðutún, sem henni var úthlutað af skipulags- og byggingarnefnd þann 7. desember 2005. Erindið samþykkt.
 
17.     Iðutún, Sauðárkróki. Sæmundur Þór Hafsteinsson Barmahlíð 1, Sauðárkróki sækir, fh. Valgeirs Þórs Sæmundssonar og Þorvalds Inga Björnssonar um parhúsalóð við Iðutún. Sótt er um lóðirnar nr. 5-7 eða 9-11. Samþykkt að úthluta umsækjendum lóðinni nr. 5-7 við Iðutún.
 
18.     Vogar á Höfðaströnd. Birgir Þorleifsson, eigandi jarðarinnar Voga á Höfðaströnd, Skagafirði sækir um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsnæði sem byggt verður  samkvæmt meðfylgjandi uppdráttum gerðum af Þorsteini Jóhannessyni, Verkfræðistofu Siglufjarðar. Uppdrættir eru dagsettir í mars 2006. Samþykkt að óska eftir meðmælum Skipulagsstofnunar með veitingu leyfis sbr. 3. tl. Bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga. Skipulags- og byggingarfulltrúa heimilað að árita aðaluppdrætti að fenginni jákvæðri afgreiðslu skipulagsstofnunar.
 
19.     Korná. Högni Elvar Gylfason og Monika Björk Hjálmarsdóttir, Korná sækja um leyfi til að byggja vélageymslu að Korná samkvæmt aðaluppdráttum gerðum af Byggingarþjónustu bændasamtakanna, Magnúsi Sigsteinssyni og eru þeir dagsettir 29. maí 2006. Samþykkt að óska eftir meðmælum Skipulagsstofnunar með veitingu leyfis sbr. 3. tl. Bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga.
 
20.     Hlíð í Hjaltadal. Kristján E. Björnsson, Geitagerði 5a, Hólum sækir um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóð sinn úr Hlíðarlandi í Hjaltadal. Meðfylgjandi aðaluppdrættir eru gerðir af Klöpp-arkitektum í Reykjavík- Sæmundi Eiríkssyni og eru þeir dagsettir 19. maí 2006. Erindið samþykkt.
 
21.  Gýgjarhóll – Ingvar Gýgjar Jónsson, fyrrum skipulags- og byggingarfulltrúi, Kvistahlíð 7 á Sauðárkróki sækir, með bréfi dagsettu 19. maí 2006 um leyfi til að breyta útliti á íbúðarhúsi hans að Gýgjarhóli. Ingvar sjálfur teiknaði húsið á sínum tíma og reisti með eigin höndum. Nú hefur hann ánafnað barnabarni sínu, Bjarna Páli Ingvarssyni, eitt af herbergjum hússins og  þarf því að gera á húsinu smávægilegar breytingar –
Erindi Ingvars er eftirfarandi :
 
Auðmjúkur ég um það spyr
og æski svars í skýru máli.
Má breyta glugga í glæstar dyr
á geymslunni hjá Bjarna Páli?
 
Bókun skipulags- og byggingarnefndar vegna erindis Ingvars Gýgjars er eftirfarandi :
Góð eru hús á Gýgjarhól
glampar á rúðum morgunsól.
Hátt upp á burstum haninn gól
heyrðist allt út í Tindastól.
 
Bóndinn vaskur og brattur var
bæjarprýði allsstaðar.
Bjástraði mjög við byggingar
sem búkarlar reistu hér og þar.
 
Mestanpart þarna var myndarbú
margt þó að glatast hafi nú.
Út á Sauðárkrók þvældist þú
þaðan burtu – með ektafrú.
 
Útlitsbreytingu ef þú vilt,
er okkur að sjálfsögðu málið skylt.
Samþykkt við gerum. Svo útfyllt
síðan allt verður rétt og gilt.
 
Ekki er vonlaus umsóknin.
Ágæt fylgir með teikningin !
Virðum augljósan vilja þinn.
Veitum leyfi í þetta sinn.
 
22.     Önnur mál. – engin.
 
Bjarni Maronsson sleit fundi með þakkarorðum til starfsmanna og meðnefndarfólks.
Starfsmenn gerðu slíkt hið sama, og þökkuðu nefndarmönnum gott samstarf. 
 
Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl 17,40.
 
Jón Örn Berndsen, ritari fundargerðar.