Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd

80. fundur 29. ágúst 2005
Skipulags- og byggingarnefnd  Skagafjarðar
Fundur 80 – 29. ágúst  2005.
 
Ár 2005, mánudaginn 29. ágúst kl. 1615, kom  Skipulags- og byggingarnefnd saman til fundar í Ráðhúsinu við Skagfirðingabraut á Sauðárkróki.
 
Mætt voru:
Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Gísli Gunnarsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Jón Örn Berndsen skipulags – og byggingarfulltrúi, Sigurður H. Ingvarsson starfsmaður bygg­ingarfulltrúa og Óskar S. Óskarsson slökkviliðsstjóri.
 
Dagskrá:
 
1.      Laugatún 26 - 28 - byggingarleyfisumsókn – Búhöldar
2.      Laugatún 30 - 32 - byggingarleyfisumsókn – Búhöldar
3.      Rústaskálinn á Hofsafrétt – viðbygging
4.      Iðutún 16, Sauðárkróki – lóð skilað
5.      Hvammkot – garðhús
6.      Stóragerði – landskipti
7.      Önnur mál.
 
            Sigurbjörg Guðmundsdóttir setti fund og bauð velkomna fundarmenn.
 
Afgreiðslur:
 
  1. Laugatún 26 – 28 - byggingarleyfisumsókn – Ólafur Þorbergsson byggingarstjóri, fh. Búhölda hsf á Sauðárkróki, sækir um byggingarleyfi fyrir parhúsi á lóðunum nr. 26 - 28 við Laugatún á Sauðárkróki. Um er að ræða eitt parhús, tvær íbúðir. Framlagðir aðaluppdrættir eru gerðir af Almennu verkfræðistofunni, Suðurgötu 57 á Akranesi. Uppdrættir dagsettir 15. ágúst 2005.- Erindið samþykkt
 
  1. Laugatún 30 -32 - byggingarleyfisumsókn – Ólafur Þorbergsson byggingarstjóri, fh. Búhölda hsf á Sauðárkróki, sækir um byggingarleyfi fyrir parhúsi á lóðunum nr. 30 - 32 við Laugatún á Sauðárkróki. Um er að ræða eitt parhús, tvær íbúðir. Framlagðir aðaluppdrættir eru gerðir af Almennu verkfræðistofunni, Suðurgötu 57 á Akranesi. Uppdrættir dagsettir 15. ágúst 2005.- Erindið samþykkt
 
  1. Rústaskálinn á Hofsafrétt – viðbygging. Gísli Jóhannsson fjallskilastjóri, f.h upprekstrarfélags Hofsafréttar sækir um leyfi til að byggja við gangnamannaskála (“Rústaskálann”) á Hofsafrétt samkvæmt meðfylgjandi gögnum, dagsettum í ágúst 2005. Viðbyggingin er 2.2 x 7,5 m að grunnfleti og kemur við norðurhlið skálans.
      Erindið samþykkt.
 
  1. Iðutún 16, Sauðárkróki – Gísli Óskar Konráðsson og Þórey S. Karelsdóttir, Gilstúni 15 skila inn lóðinni Iðutún 16, sem þeim var úthlutað á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 9. júní sl. Erindið samþykkt.
 
  1. Hvammkot – smáhýsi – Grétar S. Guðbergsson, Hvammkoti sækir, með bréfi dagsettu 2. ágúst 2005, um leyfi til að reisa smáhýsi (12 m2) á lóðinni við íbúðarhúsið í Hvammkoti. - Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið og felur byggingar­fulltrúa að afla tilskilinna gagna hjá umsækjanda.
 
 
  1. Stóragerði – landskipti – Gunnar Þórðarson og Sigurmon Þórðarson, þinglýstir eigendur jarðarinnar Stóragerðis í Skagafirði, landnúmer 146590, sækja um leyfi til Skipulags- og byggingarnefndar og Sveitarstjórnar Skagafjarðar til að skipta út úr framangreindri jörð tveimur landspildum sem nánar eru tilgreindar og hnitsettar á meðfylgjandi afstöðuuppdrætti.
    Skipta á út landspildu við Kolbeinsdalsá, alls 34,5 ha, sem afmarkast af landamerkjum Neðra Áss og landi Sveitarfélagsins Skagafjarðar að vestan, landamerkjum Kross að norðan, landamerkjum Þúfna að austan og línu úr Þorgrímstóft um Brúarhól og þaðan í Kolbeinsdalsá að sunnan. Einnig landspilda í fjalli, alls 12,5 ha, afmarkast af landamerkjum Þúfna að norðan, fjallsgirðingu að austan, landamerkjum Hlíðarenda að sunnan og línu austan vélaskemmu í Stóragerði.
Gunnar Þórðarson verður eigandi lands Stóragerðis sem eftir er (34,5 ha) og Sigurmon Þórðarson eigandi landspildu við Kolbeinsdalsá. Hólf í fjalli verður sameign beggja.
Ógirt svæði ofan fjallsgirðingar verður áfram óbreytt og í eign Gunnars, Sigurmons og landeigenda Þúfna.
Meðfylgjandi eru eftirfarandi gögn:
Yfirlýsing eigenda aðliggjandi jarða. Hnitsett yfirlits/afstöðumynd unnin af Hjalta Þórðarsyni, landfræðingi á Hólum, dagsett í ágúst 2005.
Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir ofangreind landsskipti.
 
  1. Önnur mál.- Engin.
 
Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 1652
 
Jón Örn Berndsen, ritari fundargerðar.