Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd

52. fundur 10. maí 2004
Skipulags- og byggingarnefnd  Skagafjarðar
Fundur  52 – 10. maí 2004
 
Ár 2004, mánudaginn 10. maí kl. 1305 , kom  Skipulags- og byggingarnefnd saman til fundar í  Ráðhúsinu við Skagfirðingabraut á Sauðárkróki.
           
Mætt voru:      
Bjarni Maronsson, Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Örn Berndsen skipulags – og byggingarfulltrúi, Sigurður H. Ingvarsson starfsmaður byggingarfulltrúa og Árni Ragnarsson skipulagsarkitekt.
 
Dagskrá:
1.      Þverárfjallsvegur  – erindi Byggðarráðs frá 20. apríl sl.
2.      Jarðgöng – erindi Trausta Sveinssonar
3.      Erindi frá Landbúnaðarnefnd
4.      Landsvirkjun, umsókn um heimild til uppsetningar og reksturs mælimastra
5.      Aðalgata 7 – umsögn um vínveitingarleyfi
6.      Jaðar – byggingarleyfisumsókn
7.      Bréf Búhölda, dags. 4. maí
8.      Önnur mál.
 
Bjarni Maronsson setti fund og bauð velkomna fundarmenn.
 
Afgreiðslur:
 
1.           Þverárfjallsvegur. Á fundi Byggðarráðs 20. apríl s.l  beinir Byggðarráð því til Skipulags – og byggingarnefndar að hún endurskoði fyrri ákvörðun sína um veglínu Þverárfjallsvegar yfir Gönguskarðsá.
Með bréfi dagsettu 23. janúar 2003 óskuðu Kaupfélag Skagfirðinga, Fiskiðjan Skagfirðingur  hf. og Steinullarverksmiðjan hf., eftir að endurskoðuð verði fyrirhuguð lagning Þverárfjallsvegar austan Steinullarverksmiðju um brú á ós Gönguskarðsár. Á fund nefndarinnar 1. apríl 2003 mættu Einar Einarsson framkvæmdastj. Steinullar-verksmiðjunnar, Jón E. Friðriksson framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Skagfirðings, Ólafur Sigmarsson og Sveinn Sigfússon fulltrúar Kaupfélags Skagfirðinga til að ræða þetta mál. Þar fóru fulltrúar fyrirtækjanna yfir sjónarmið sín hvað varðar tengingu á Þverárfjallsvegi inn í bæinn, og gerðu grein fyrir þeim sjónarmiðum sínum að tenging á Þverárfjallsvegi yfir ós Gönguskarðsár skerði til muna nýtingarmöguleika fyrirtækja þeirra á svæðinu. Þá  var einnig farið yfir þau sjónarmið sem að baki lágu þegar Umhverfis- og tækninefnd tók ákvörðun um veglínuna yfir Gönguskarðsárósinn. Vegna erindis Byggðarráðs eru  hagsmunaaðilar aftur mættir til fundar við Skipulags- og byggingarnefnd.  Þeir sem á fund nefndarinnar komu voru Einar Einarsson frá Steinullarverksmiðjunni, Ólafur Sigmarsson frá KS, Magnús Svavarsson frá Vörumiðlun, Friðrik Pálmason frá Steypustöð Skagafjarðar og auk þeirra Gunnar H. Guðmundsson umdæmisstjóri vegagerðarinnar. Þá sat sveitarstjóri Ársæll Guðmundsson fundinn og tók þátt í umræðum. Í máli þeirra Einars, Magnúsar og Ólafs kom fram að afstaða þeirra er óbreytt frá því áður og telja þeir áfram að nyrðri leiðin hefti  vaxtarmöguleika fyrirtækjanna á svæðinu. Gunnar Guðmundsson gerði grein fyrir stöðu málsins, innan vegagerðarinnar, og gerði grein fyrir því hvernig fyrirhugað er að standa að framkvæmdum. Til verksins eru á fjárlögum áranna 2004 og 2005 um 110 milljónir króna. Friðrik Pálmason gerði grein fyrir afstöðu Steypustöðvarinnar. Að loknum umræðum viku af fundi Ólafur, Einar Magnús, Friðrik, Gunnar og Ársæll. Það er mat formanns að forsendur fyrir fyrri ákvörðun Skipulags- og byggingarnefndar hafi ekki breyst og leggur hann til að samþykkt nefndarinnar frá 1. apríl 2003 standi. Er það samþykkt. Sigurbjörg óskar bókað að hún sitji hjá við þessa afgreiðslu
 
2.           Jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar. Trausti Sveinsson á Bjarnargili í Fljótum fer, með bréfi dagsettu 7. apríl 2004, þess á leit við Skipulags- og byggingarnefnd að gert sé ráð fyrir jarðgöngum milli Fljóta og Siglufjarðar og einnig milli Fljóta og Ólafsfjarðar í Aðalskipulagi því fyrir Sveitarfélagið sem nú er verið að vinna. Nefndin leggur til að í tillögum að Aðalskipulagi Skagafjarðar verði gert ráð fyrir jarðgöngum milli Fljóta og Siglufjarðar.
 
3.           Erindi frá 21. fundi Landbúnaðarnefndar 19. apríl 2004. Þar óskar Landbúnaðarnefnd  eftir því við Skipulags- og byggingarnefnd að kveðið verði skýrt á um það í aðalskipulagi hvernig búfjárhaldi verði háttað í þéttbýlisstöðum í Skagafirði. Erindinu vísað til gerðar Aðalskipulags.
 
4.           Landsvirkjun, umsókn um heimild til uppsetningar og reksturs mælimastra. Með bréfi dagsettu 13. apríl, mótteknu 21. apríl 2004 sækir Landsvirkjun um heimild til uppsetningar tveggja mælingarmastra í Sveitarfélaginu, á annarsvegar Vatnshólabrúnum ofan Bjarnastaðahlíðar og hinsvegar á Hofsafrétti norðan Reyðarfells. Reiknað er með 5 ára rannsóknartíma hið minnsta og 30 ár hið mesta. Nefndin tekur jákvætt í erindið og felur skipulags – og byggingarfulltrúa að kynna Fjallskilastjórn Hofsafréttar og eiganda Bjarnastaðahlíðar málið.
           
5.           Aðalgata 7 – umsögn um vínveitingarleyfi. Óskað er umsagnar nefndarinnar um erindi  Guðmundar Tómassonar, kt. 260643-4529, um leyfi til vínveitinga fyrir skemmtistað að Aðalgötu 7, Sauðárkróki. Nefndin gerir ekki athugasemdir við erindið.
 
6.           Jaðar, land. Byggingarleyfisumsókn. Umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á landspildu úr landi Jaðars á Langholti frá Páli  Jónssyni. Áður á dagskrá 12. janúar og 21. apríl s.l. Byggingarleyfið samþykkt. Meðfylgjandi aðaluppdrættir eru gerðir af Benedikt Björnssyni arkitekt og eru dagsettir 27.11.2003.  
 
7.           Bréf Búhölda, dags. 4. maí 2004 lagt fram. Þar ítreka Búhöldar lóðarumsókn um lóðina Forsæti 12 á Sauðárkróki. Jafnframt er óskað eftir auknu byggingarrými við Hásæti og Forsæti eða eins og segir í bréfi Búhölda “óskað er eftir að fá að byggja á öllu því svæði sem nefndin telur mögulegt að nýta þar til bygginga”. Varðandi  lóð nr 12 við Forsæti þá er hún ekki til, Forsætið er, samkvæmt skipulagi, fullbyggt þegar byggt hefur verið á lóðunum nr. 8 og 10. Búhöldar hafa þær lóðir og hægt er að veita þeim byggingarleyfi þar þegar um verður sótt með tilheyrandi gögnum. Búhöldar hafa allar byggingarlóðir sem eru innan deiliskipulags á svæðinu.
 
8.           Önnur mál –
·        Hólmagrund 22. Bragi Skúlason Hólmagrund, 22 sækir um leyfi til að klæða utan hús sitt að Hólmagrund 22 með AluZink klæðningu. Einnig er sótt um leyfi til að breyta póstasetningu í þrem gluggum. Meðfylgjandi gögn unnin af Braga Skúlasyni sjálfum. Erindið samþykkt.
·        Fosshótel Áning - umsögn um vínveitingaleyfi. Óskað er umsagnar nefndarinnar um erindi  Vigfúsar Vigfússonar hótelstjóra, f.h. Fosshótel Áning, kt. 530396-2239, um leyfi til tímabundinna vínveitinga fyrir sumarhótel í heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Nefndin gerir ekki athugasemdir við erindið
 
 
 
Fleira ekki fyrir tekið,
fundargerð upplesin og samþykkt.
 
Fundi slitið kl. 1546
Jón Örn Berndsen
ritari fundargerðar.