Fara í efni

Samgöngunefnd

16. fundur 28. apríl 2004 kl. 08:15 Ráðhúsið á Sauðárkróki

Miðvikudaginn 28. apríl 2004 (kl. 08,15) var Samgöngunefnd saman komin til fundar í Ráðhúsinu.

Mætt voru: Brynjar Pálsson, Örn Þórarinsson, Valgerður Kjartansdóttir, Hallgrímur Ingólfsson og Ársæll Guðmundsson, sveitarstjóri.


Dagskrá:

1.  Erindi til nefndarinnar frá íbúum í Dalsplássi

2.  Þverárfjallsvegur v. Sauðárkrók – erindi frá Byggðarráði

3.  Dögun ehf – umsókn um lóð undir frystigeymslur

4.  Flugsamgöngur við Sauðárkrók

5.  Önnur mál

 

Afgreiðslur:

1. Erindinu vísað til Vegagerðarinnar og kemur til afgeiðslu við umræður um samgönguáætlun á næstunni.

2. Nefndin fór á staðina þar sem mögulegar innkomuleiðir Þverárfjallsvegar í Sauðárkróksbæ eru. Annarsvegar Ósaleið og hinsvegar vestari leið samkvæmt tillögum Vegagerðarinnar. Nefndin sammála um að leggja til við Byggðarráð að Þverárfjallsvegur norðan Sauðárkróks liggi um ósa Gönguskarðsár. Vísast til greinargerðar nefndarinnar þar um, sem bókuð er í lok fundargerðarinnar.

3. Erindi tekið fyrir. Niðurstaða varð að fá Ágúst Guðmundsson, framkvæmdastjóra Dögunar til fundar við nefndina til að ræða umsóknina.

4. Formaður kynnti fréttatilkynningu frá Íslandsflugi, þar sem tilkynnt er að fyrirtækið muni fljúga fimm ferðir á viku til Sauðárkróks. Hætt var við að fella flug alveg niður vegna mikilla viðbragða hér fyrir norðan um það.

5. Önnur mál. Erindi frá Árna Bjarkasyni á Hofsósi varðandi þekju á hafnarsvæðinu. Hallgrími falið að skoða málið.


Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 1030

 

Niðurstaða fundar Samgöngunefndar 28. apríl 2004

Varðar málefnið Þverárfjallsvegur við Sauðárkrók

Tilefni: Vegna bókunar á fundi byggðarráðs 20. apríl sl. varðandi málefni Þverárfjallsvegar.  Þessu málefni er beint til Samgöngunefndar og Bygginga- og skipulagsnefndar.

Samgöngunefnd hefur ekki komið að þessu máli fyrr. Það sem við höfum um málefnið að segja er eftirfarandi: Tvær tillögur að leiðarvali yfir Gönguskarðsá hafa verið skoðaðar. Önnur liggur í beinu framhaldi af Eyrarvegi til norðurs yfir ós Gönguskarðsár og utan í melnum norðan árinnar upp á flatann sunnan núverandi sorphauga. Hin tillagan gerir ráð fyrir tengingu Þverárfjallsvegar inn á Eyrarveg nánast á núverandi stað gegnt sláturhúsinu og inn með byggingarvörudeildarporti og yfir Gönguskarðsá rétt ofan athafnasvæðis Steypustöðvarinnar. Leiðin yfir ós Gönguskarðsár er hér nefnd “ósaleið” en hin tillagan ofan Steypustöðvar kallast hér “vestarileið”.

Vegagerðin hefur nánast lokið við hönnun á báðum veglínum og eru fjárveitingar til verksins 30 mkr. árið 2004 og 79 mkr. árið 2005. Ekki eru aðrar fjárveitingar fyrirsjáanlegar á yfirstandandi tímabili vegaáætlunar sem gildir út árið 2006. Til samanburðar á kostnaði við þessar tvær tillögur hefur kostnaður vegna tengingar frá Eyrarvegi að kafla neðan Veðramóts verið reiknaður fyrir báðar veglínur. Samtals kostnaður vegna ósaleiðar nemur 168 mkr. en vegna vestarileiðar er kostnaður 205 mkr. og telst sú leið því 37 mkr. dýrari kostur, jafnvel þó hún verði hugsanlega 600 m styttri.

Af ofangreindum kostnaðartölum má sjá, að ekki verður lokið við frágang á hvorugum kaflanum að fullu, en áætlanir hafa miðast við að tengja frá Eyrarvegi að fyrstu mögulegu tengingu við núverandi veg í báðum tilfellum.

Helsti ókostur við að bráðabirgðatengja vestari leiðina er stór skering sem þarf að taka í brekkunni sunnan byggingavörudeildar, en efnið úr þeirri skeringu á að nýtast í fyllingar norðan árinnar og verður efnið því ekki flutt fyrr en brúarsmíði er lokið. Einnig er ljóst að fyrir þá fjármuni, sem nú eru til verksins, mun ekki verða lokið við skeringuna að fullu og því verður leiðin upp á Gránumóa að færast til suðurs og standa á brekkubrúninni þar til fullnaðarfrágangi verður lokið. Efnið í þessari skeringu er mjög leirkennt og því ófyrirséð hvernig henni verður haldið í skefjum þar til fullnaðarfrágangi verður lokið innan óráðins árafjölda.

Við framkvæmd ósaleiðar verður á hinn bóginn hægt að ráðast í vegskeringuna norðan árinnar á sama tíma og brúarsmíðin stendur yfir og reyndar er í þeirri skeringu umtalsvert betra fyllingarefni en í skeringu sunnan byggingavörudeildar. Fyrir þá fjármuni, sem liggja fyrir í verkið, væri því hægt að vinna þá skeringu að mestu ásamt brúarsmíðinni og tengja kaflann sómasamlega við veginn út á Reykjaströndina.

Af ofanskráðu er ljóst að vegtæknilega er erfiðara að framkvæma vestari leiðina og umtalsvert erfiðara er að skilja við bráðabirgðafrágang á þeirri leið en ef farin verður ósaleiðin. Önnur röksemdafærsla, sem mælir ótvírætt með ósaleiðinni, er framtíðar aðkoman að Króknum og þá sérstaklega hvað varðar aðkomuna að höfninni. Þegar komið er suður yfir ósinn er komið inn á rúmgott hringtorg sem mun beina umferðinni inn á Eyrarveg og einnig inn á Sauðárkrókshöfn eftir götu, sem liggur austan sláturhúss og Fiskiðju, en það er greiðasta framtíðartengingin inn á hafnarsvæðið. Vart þarf að lýsa þeirri aðkomu sem myndaðist inn á hafnarsvæðið ef valin yrði vestarileið með tveimur vinkilbeygjum inn á hafnarsvæðið auk aukningar umferðar um athafnasvæði Fiskiðjunnar á vestanverðum hafnargarðinum.

Ósaleiðin býður einnig upp á þá möguleika að tengja hugsanlegt framtíðar iðnaðarsvæði, sem er norðan Gönguskarðsár, við hafnarsvæðið, enda vandfundinn sá staður sem er betur fallinn fyrir hafnsækna starfsemi í framtíðinni. Fagurfræðilega er ósaleiðin ótvírætt betri kostur þar sem aðkoman að bænum úr norðri gefur kost á útsýni yfir fjörðinn og eyjarnar ásamt víðari yfirsýn til suðurs og yfir bæinn.

Vonandi tekst byggðarráðsmönnum að taka metnaðarfulla ákvörðun um framtíðartenginu við Krókinn um ósinn úr norðri, tengingu sem verður aðkomunni að bænum til sóma og ótvíræður betri kostur fyrir atvinnulífið til lengri tíma litið.