Fara í efni

Menningar-, íþrótta- og æskulýðsnefnd

32. fundur 15. september 1999

Ár 1999, miðvikudag 15.09.1999.
Mættir :  Ásdís Guðmundsdóttir, Helgi Thorarensen, Gísli Eymarsson, Jón Garðarsson, Sigurbjörg Guðjónsdóttir, Snorri Björn Sigurðsson, Margeir Friðriksson og Ómar Bragi Stefánsson.

DAGSKRÁ:

Fundarstjóri bauð Ómar B. Stefánsson velkominn til starfa.

  1. Sigríður Jóhannsdóttir - Félagsmiðstöð.
  2. Fjárhagsáætlun.
  3. Tillaga sem var vísað til nefndarinnar varðandi skíðasvæðið.
  4. Erindi frá Tindastóli.
  5. Önnur mál.

AFGREIÐSLUR:

  1. Sigríður Jóhannsdóttir kynnti starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Friðar m.a. samstarf við kirkjuna.  Einnig að nú verður nemendum FNV yngri hóp hleypt inn ákveðinn dag.  Hún lagði fram tillögu að starfslýsingu starfsmanna og kostnað við starfsemina.  Þeir sem sóttu um voru:  Einar Björgvin Eiðsson, Tinna Haraldsdóttir, Brynjar Elefsen, Herdís Káradóttir, Styrmir Gíslason og Davíð Þór Rúnarsson.  Eftirtaldir ráðnir:  Herdís Káradóttir, Styrmir Gíslason, Davíð Þór Rúnarsson og Tinna Haraldsdóttir.
  2. Snorri Björn og Margeir fóru yfir fjárhagsáætlun með fundarmönnum. 
    Snorri Björn og Margeir viku af fundi.
  3. Menningar- íþrótta- og æskulýðsnefnd leggur til að tillögu sem vísað var til nefndarinnar frá sveitarstjórn um frestun á samningaviðræðum um uppbyggingu skíðasvæðis verði vísað frá.  Nefndin leggur til að samningaviðræðum verði haldið áfram við stjórn Tindastóls um uppbyggingu skíðasvæðis.  Ennfremur leggur nefndin áherslu á að samningurinn komi til efnislegrar umfjöllunar hjá nefndinni.  Samþykkt.
    Helgi Thorarensen leggur fram eftirfarandi bókun:
    “Lagt hefur verið fyrir MÍÆ nefnd uppkast að samningi milli sveitarfélagsins og UMF Tindastóls vegna uppbyggingar skíðasvæðis.  Í samningsuppkastinu er gert ráð fyrir því að sveitarfélagið muni greiða mestan hluta kostnaðar vegna uppbyggingar skíðasvæðisins og drjúgan hluta rekstrar þess í framtíðinni.  Í þessu samningsuppkasti og á undirbúningi málsins eru nokkrir alvarlegir gallar og má þar nefna eftirfarandi: 
    Hvergi er í samningsuppkastinu kveðið á um það hver hafi umráðarétt yfir skíðasvæðinu eða eignarhald á mannvirkjum og þeim búnaði sem keyptur verður eða byggður. Ekki er gert ráð fyrir því að sveitarfélagið stýri framkvæmdum við skíðasvæðið og/eða hafi bein áhrif á rekstur þess og uppbyggingu.  Kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna er ófullnægjandi og óskýr.  Óljóst er hvort eða hvernig UMF Tindastóll er í stakk búinn til að axla þá ábyrgð sem gert er ráð fyrir í samningsuppkastinu. Því er lagt til eftirfarandi:
    a)      Kveðið verði á um það í samningnum að sveitarfélagið stýri framkvæmdum og hafi fullan umráðarétt yfir svæðinu þegar það er fullgert.  Semja má sérstaklega um rekstur og uppbyggingu skíðasvæðisins við UMF Tindastól, hliðstætt og samið hefur verið um rekstur og uppbyggingu annarra íþróttamannvirkja.
    b)      Nauðsynlegt er að nákvæmari greining verði gerð á kostnaðaráætlun við framkvæmdina áður en farið er í jafn stóra og dýra framkvæmd og byggingu skíðasvæðis.
    c)      Meta verður kostnað af rekstri skíðasvæðisins og hvort UMF Tindastóll hafi fjárhagslegt bolmagn til þess að axla ábyrgð vegna uppbyggingar og rekstrar skíðasvæðisins.
    d)     Hefja verður viðræður við nágrannasveitarfélögin um þátttöku þeirra í rekstri og uppbyggingu skíðasvæðisins í framtíðinni.
    e)      Af fjárhagslegum ástæðum og m.t.t. stöðu annarra aðkallandi verkefna á sviði íþróttamála í sveitarfélaginu verður að fara hægar í uppbyggingu skíðasvæðisins”.
    Helgi Thorarensen
    Bókunin borin undir atkvæði.  Helgi greiðir henni atkvæði, aðrir sitja hjá.
  4. Tekin fyrir tvö erindi frá Tindastóli.  Erindunum var frestað og óskað eftir fundi með Páli Ragnarssyni.
  5. Sigurbjörg Guðjónsdóttir óskaði eftir upplýsingum um hugmynd að hér verði Landsmót UMFÍ 2004.

 Jón Garðarsson sagði að móta yrði framtíðarstefnu í uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu.