Fara í efni

Menningar-, íþrótta- og æskulýðsnefnd

6. fundur 21. september 1998 kl. 17:00 Í Stjórnsýsluhúsi Sauðárkróks

Menningar-, íþrótta- og æskulýðsnefnd í sameinuðu sveitarfélagi í Skagafirði kom saman í fundarsal Stjórnsýsluhúss mánudaginn 21. september kl. 17.00.
Mætt voru: Ásdís Guðmundsdóttir, Hlín Bolladóttir,  Sigurbjörg Guðjónsdóttir, Helgi Thorarensen og Gísli Eymarsson. Auk þeirra var mættur ritari nefndarinnar, Páll Kolbeinsson.                       

Dagskrá:

  1. Fornleifaskráning í Skagafirði.
  2. Erindi frá Nemendafélaginu í Hofsósi.
  3. Bréf frá skíðadeild Tindastóls.
  4. Bréf frá M2000.
  5. Bréf frá Kristnihátíðarnefnd Skagafjarðarprófastsdæmis.
  6. Starfsmannamál.
  7. Tilnefningar í hússtjórnir félagsheimila.
  8. Önnur mál. 

Afgreiðslur:

  1. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu:
    Samkvæmt þjóðminjalögum frá 1989 er hverju sveitarfélagi skylt að láta skrá fornleifar á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi þess eða endurskoðun.
    Á grundvelli þeirrar vitneskju, sem þannig fæst, er hægt að taka ákvarðanir um rannsóknir og varðveislu þessara fornleifa, ennfremur tengist fornleifaskráningin Byggðasöguritun þeirri, sem nú fer fram.
    Nefndin leggur til að Sigríði Sigurðardóttur, safnstjóra Byggðarsafns Skagfirð­inga, verði veitt heimild til að ganga frá ráðningu starfsmanns.
    Nefndin samþykkir tillöguna.
  2. Lagt fram bréf frá Agli Erni Arnarsyni á Hofsósi f.h. nemendafélags grunnskólans á Hofsósi, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi vegna unglingadansleiks fyrir börn á Norðurl.-vestra.
    Nefndin samþykkir að veita styrk að upphæð kr. 170.000.-
  3. Lagt fram bréf frá skíðadeild Tindastóls, þar sem óskað er eftir að framkvæmda­nefnd um uppbyggingu nýs skíðasvæðis fái að kynna hugmyndir varðandi fram­kvæmdina.
    Nefndin samþykkir að verða við erindinu og felur starfsmanni að boða fulltrúa nefndarinnar á næsta fund Menningar-íþrótta og æskulýðsnefndar.
  4. Lagt fram bréf frá Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000, varðandi samvinnu M2000 við sveitarfélög. Nefndin tekur ekki afstöðu til málsins að svo stöddu.
  5. Lagt fram bréf frá Skagafjarðarprófastsdæmi vegna Kristnihátíðar í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi.
    Nefndin tekur jákvætt í erindið.
  6. a)   Nefndin leggur til að ráðið verði í tvö hlutastörf við Íþróttamiðstöðina í Varmahlíð og eitt hlutastarf við Árgarð. Þetta er tilkomið vegna nýrra reglugerða varðandi öryggi á sundstöðum og nýrrar vinnulöggjafar.
    b)   Sex umsóknir bárust í hlutastörf við félagsmiðstöð á Sauðárkróki.
    Nefndin felur starfsmanni að ganga frá ráðningu miðað við óbreytt starfshlutfall.
  7. Nefndin samþykkir að skipa Sigurjón Ingimarsson og Sigríði Halldórsdóttur í Hússtjórn félagsheimilisins Miðgarðs.
    Nefndin mun á næstu vikum skoða málefni félagsheimila.
  8. Önnur mál engin.