Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar - 91

Málsnúmer 2404035F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 26. fundur - 10.04.2024

Fundargerð 91. fundar byggðarráðs frá 4. apríl 2024 lögð fram til afgreiðslu á 26. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 91 Undir þessum dagskrárlið kom Kristján Jónasson endurskoðandi frá KPMG til fundarins. Öllum kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum sem ekki sitja í byggðarráði, var boðið að vera viðstödd kynningu hans. Sveinn Úlfarsson sat fundinn undir þessum dagskrárlið auk Hrefnu Jóhannesdóttur, Guðlaugs Skúlasonar, Sigurlaugar Vordísar Eysteinsdóttur, Hrundar Pétursdóttur, Margeirs Friðrikssonar og Ástu Ólafar Jónsdóttur sem tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.
    Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2023 námu 8.950 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A- og B-hluta, þar af námu rekstrartekjur A-hluta 7.462 millj. kr. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 123 millj. kr. en neikvæð í A-hluta um 128 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 4.333 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A-hluta nam 2.262 millj. kr.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að vísa ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn.
    Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Ársreikningur 2023, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 91 Lagt fram erindi, dags. 20. mars 2024, frá Íbúasamtökunum í Varmahlíð, þar sem óskað er samstarfs við sveitarfélagið um uppsetningu frisbígolfvallar á Reykjarhólssvæðinu í Varmahlíð í sumar. Hafa samtökin haft samband við grafískan hönnuð sem hefur séð um hönnun og uppsetningu á slíkum völlum víða um land og er hans mat að 12 körfu völlur með hönnun kosti um 1,2 m.kr.
    Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga um verkefnið og í framhaldinu að fá fulltrúa frá íbúasamtökunum og ungmennafélaginu Smára á fund ráðsins.
    Bókun fundar Afgreiðsla 91. fundar byggðarráðs staðfest á 26. fundi sveitarstjórnar 10. april 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 91 Lagður fram tölvupóstur, dags. 25. mars 2024, frá rekstraraðila tjaldstæðisins í Varmahlíð. Vatnstjón varð á svæðinu í vetur sem olli skemmdum á tveimur aðstöðuhúsum á svæðinu. Tryggingabætur duga ekki til að lagfæra bæði húsin og hefur salernishús forgang í endurbótum af þeim bótum. Hitt húsið hefur verið nýtt sem inniaðstaða/eldhús fyrir tjaldgesti undanfarin ár og hefur hún verið vel nýtt. Rekstraraðili leitar samstarfs um lagfæringu á inniaðstöðuhúsinu og er reiðubúinn að koma með mótframlag til þess.
    Byggðarráð samþykkir með tveimur atkvæðum að leggja kr. 500 þúsund í framkvæmdina sem tekin er af viðhaldspotti ársins 2024, gegn því að ráðist verði í endurbætur á húsnæðinu á árinu og skal verkið tekið út af starfsmanni eignasjóðs að framkvæmdum loknum. Álfhildur Leifsdóttir vék af fundi undir þessum dagskrárlið.
    Bókun fundar Afgreiðsla 91. fundar byggðarráðs staðfest á 26. fundi sveitarstjórnar 10. april 2024 með sjö atkvæðum. Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir óska bókað að þær véku af fundi
    undir afgreiðslu málsins.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 91 Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 90/2024, "Kosningar- meðferð utankjörfundaratkvæða". Umsagnarfrestur er til og með 08.04.2024. Bókun fundar Afgreiðsla 91. fundar byggðarráðs staðfest á 26. fundi sveitarstjórnar 10. april 2024 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 91 Lögð fram til kynningar niðurstöður útboða á annars vegar raflögnum og hins vegar pípulögnum vegna stækkunar Sundlaugar Sauðárkróks, sem byggðarráð samþykkti að ráðast í á 87. fundi ráðsins og staðfest var á 25. fundi sveitarstjórnar.
    Eitt tilboð barst í raflagnir frá Tengli ehf. og var það upp á 80,5% af kostnaðaráætlun. Þrjú tilboð bárust í pípulagnir og var lægstbjóðandi KÞ lagnir ehf. með tilboð upp á 90,2% af kostnaðaráætlun.
    Bókun fundar Afgreiðsla 91. fundar byggðarráðs staðfest á 26. fundi sveitarstjórnar 10. april 2024 með níu atkvæðum.