Fara í efni

Tilnefning í starfshóp um aukna samvinnu háskóla (Hólar, Bifröst, Hvanneyri)

Málsnúmer 1502088

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 687. fundur - 12.02.2015

Lagt fram bréf frá mennta- og menningarráðuneytinu dagsett 3. febrúar 2015 vegna stefnumótunar um málefnasviðið "háskólar og vísindastarfsemi". Líklegt er að á grundvelli hennar verði m.a. mótaðar tillögur um breytingu á háskólakerfinu á Íslandi með áherslu á öfluga, framsækna og samþætta háskólastarfsemi, aukin gæði og bætta nýtingu fjármuna. Hyggst ráðuneytið stofna hóp sem hefur það verkefni að afla upplýsinga og gagna um fjárhagslegan og faglegan ávinning af aukinni samvinnu og/eða samrekstri Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Háskólans á Bifröst. Óskar ráðuneytið eftir tilnefningu í hópinn frá sveitarfélaginu. Aðrir í hópnum verða tilnefndir af framangreindum háskólum, Bændasamtökum Íslands og Borgarbyggð. Einnig verða Haraldur Benediktsson og Ásmundur Einar Daðason alþingismenn og Hellen Gunnarsdóttir og Þórarinn Sólmundarson fulltrúar ráðuneytisins í hópnum.
Byggðarráð samþykkir að tilnefna Ástu Pálmadóttur, sveitarstjóra í starfshópinn.

Bjarni Jónsson leggur fram svohljóðandi bókun:
Menntamálaráðuneytið ásamt stjórnarmeirihlutanum undirbýr nú nýja atlögu að háskólastarfi á landsbyggðinni og landbúnaðarháskólunum á Hólum og Hvanneyri.
Nú stendur til að leggja niður Hólaskóla, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Bifröst og skera niður fjárveitingar til háskólastarfs á landsbyggðinni. Splæsa á skólunum saman í eina sjálfseignarstofnun sem greiðir fyrir því sem nú er til umræðu að taka upp skólagjöld á Hólum og Hvanneyri til að mæta fyrirhuguðum niðurskurði til þeirra, eins og fram hefur komið á Alþingi.
Fyrirhugaðar breytingar munu vega að háskólastarfi á þessum stöðum og vinna gegn tækifærum ungs fólks til að sækja sér menntun til starfa í landbúnaði og tengdum greinum.

Skipan starfshóps nú til að fara yfir kosti þess að sameina skólana og leiðir til að skera niður fjárveitingar til þeirra er einungis ein varðan í réttlætingarferli fyrir þessari vegferð og fyrirfram gefna niðurstöðu.

Vart verður séð að Bændasamtök Íslands eða þau sveitarfélög og landshlutar sem í hlut eiga geti ljáð samþykki fyrir þeim áformum sem hafa verið kynnt um framtíð Háskólans á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands, í ljósi fyrirsjáanlegra neikvæðra áhrifa á viðkomandi byggðarlög og háskólamenntun á landsbyggðinni.

Bjarni Jónsson
V- lista

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 324. fundur - 25.02.2015

Afgreiðsla 687. fundar byggðaráðs staðfest á 324. fundi sveitarstjórnar 25. febrúar 2015 með níu atkvæðum.