Fara í efni

Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar

42. fundur 19. júlí 1999 kl. 21:00 Melsgil

Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar

Fundur 42 – 19.07.1999

 

            Ár 1999, mánudaginn 19. júlí, kom landbúnaðarnefnd saman til fundar í Melsgili kl. 2100

            Mættir voru:  Bjarni Egilsson, Skapti Steinbjörnsson, Símon Traustason, Þórarinn Leifsson, Smári Borgarsson og Sigurður Haraldsson starfsmaður.

 

Til fundarins voru boðaðir fjallskilastjórar á svæði Staðarafréttar, mættir voru Arnór Gunnarsson, Lilja Ólafsdóttir, Úlfar Sveinsson, Guðmundur Sveinsson og Bjarni Jónsson. Þá var boðaður til fundarins Bjarni Maronsson, starfsmaður Landgræðsl­unnar.

 

DAGSKRÁ:

  1. Fundarsetning.
  2. Bréf fjallskilanefndar Rípurhrepps.

 

Afgreiðslur:

1. Bjarni setti fund, bauð viðstadda velkomna og kynnti dagskrá.

2. Bjarni kynnti bréf, er borist hafði landbúnaðarnefnd frá fjallskilanefnd Rípur­hrepps, dags. 04.07.99, sem er eftirfarandi:

"Fjallskilanefnd Rípurhrepps vill benda Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar á það ófremdarástand, sem orðið er í Kálfárdal vegna of mikils beitarálags. Kunnugir sjá að ástandið fer versnandi og er einkum um að kenna miklum fjölda hrossa, sem eru í dalnum sumarlangt. Þetta ástand er með öllu óviðun­andi og biður fjallskilanefnd Rípurhrepps um að á því verði ráðin bót nú þegar, þ.e.a.s. áður en hrossaupprekstur verður leyfður nú í sumar."

Lilja Ólafsdóttir (sign)

Birgir Þórðarson (sign)

Jóhann Már Jóhannsson (sign)

Afrit af bréfinu var sent til Bjarna Maronssonar. Er Bjarni hafði kynnt efni bréfsins hófust umræður um efni þess, svo og mál, sem tengjast upprekstri hrossa á afréttarsvæðið.

Bjarni Maronsson tók til máls og sagði frá skoðun á svæðinu 1997. Taldi hann hluta lands í Kálfárdal í hættu og ekki í nógu góðu ástandi. Þá benti hann á að ástand sé víða viðkvæmt í Staðarafrétt og eigi hrossin þar sinn stóra hlut í því ástandi. Benti Bjarni á nauðsyn þess að hafa skipulag á upprekstri og menn komi hrossum og öðrum fénaði nógu langt inn í afréttinn en ekki sleppa  fénaði niðri við girðingar. Nauðsyn að endurskoða hrossafjölda sem rekinn er.

Fundarmenn ræddu upprekstrar- og afréttarmálin frá ýmsum hliðum og veltu upp fjölmörgum hugmyndum sem gætu orðið til úrbóta, m.a. með girðingum, þá var rætt um nýja Þverár­fjallsveginn og áhrif hans á afréttinn. Samþ. var að reka hross, ef þurfa þykir, úr Kálfárdal í sumar og Guðmundi Sveinssyni falið að sjá um það og fylgjast með þeim málum og ráða rekstrarmenn til verksins. Allir sammála að láta fylgjast vel með gróðurfari á afréttinum vor og haust.

Rætt var um nauðsyn þess að vinna að því að gera heildarkóta fyrir allt svæðið og Reykjastrandarhrossin tekin með í dæmið.

Talið var óhætt að leyfa hrossaupprekstur í afrétt um næstu helgi (24. júlí).

 

Fleira ekki gert, fundi slitið.

Smári Borgarsson                              

Sigurður Haraldsson

Bjarni Egilsson

Skapti Steinbjörnsson                        

Símon E. Traustason              

Þórarinn Leifsson.