Fara í efni

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar

14. fundur 31. janúar 2007
Fræðslunefnd Skagafjarðar
Fundur 14 - 31.01. 2007
 
Ár 2007, miðvikudaginn 31. janúar kom Fræðslunefnd saman til fundar í Ráðhúsinu kl. 16:30. Mættir: Sigurður Árnason, Helgi Thorarensen og Sigríður Svavarsdóttir. Fundinn sátu einnig áheyrnarfulltrúar grunnskólanna  Sigrún Benediktsdóttir og Konráð Gíslason fyrir hönd kennara og Jóhann Bjarnason fyrir hönd skólastjóra. Einnig sátu fundinn Jón Hilmarsson skólastjóri á Hofsósi, Jónína Bragadóttir, Sólveig Pétursdóttir og Arnþrúður Heimisdóttir fulltrúi foreldra. Rúnar Vífilsson fræðslu- og íþróttafulltrúi sat einnig fundinn og ritar fundargerð.
 
Dagskrá:
Grunnskólamál
1.      Sameining skólanna út að austan
 
Afgreiðslur:
1.      Lögð fram tillaga frá Sigurði Árnasyni og Helga Thorarensen um skipan grunnskólamála Út að austan.
 
Grunnskólarnir að Hólum og á Hofsósi sameinast undir eina stjórn og starfsemi þeirra samþætt. Fyrirkomulag kennslu taki mið af aðstæðum á hverjum tíma þannig að ætíð verði leitað hámarks hagkvæmni í rekstri án þess að slakað sé á kröfum um gæði skólastarfs. Miðað við núverandi nemendafjölda verður 1.-10. bekk kennt á Hofsósi, 1.-6. bekk kennt á Hólum og 1.-7. bekk í Sólgörðum. Skólastjóri hefur svigrúm til þess að breyta þessu fyrirkomulagi eftir þörfum til þess að hagræða í rekstri skólans, mæta sveiflum í nemendafjölda og/eða vegna annarra faglegra sjónarmiða. Við allar breytingar á kennslufyrirkomulagi skal hafa samráð við foreldraráð, nemendaráð og fræðslunefnd.
 

Greinargerð:

Í samræmi við yfirlýsta stefnu meirihluta sveitarstjórnar hefur Fræðslunefnd  haft samráð við skólastjórnendur, kennara og foreldra. Í desember voru hugmyndir kynntar á opnum fundum á Hólum, í Sólgörðum og á Hofsósi. Í janúar voru síðan haldnir fundir með skólastjórnendum, fulltrúum kennara og foreldraráðum þar sem farið var yfir athugasemdir við framkomnar tillögur og skoðaðar aðrir möguleikar. Höfð var hliðsjón af niðurstöðum þessara funda og tillögum foreldra við gerð lokatillögu fræðslunefndar.
 
Nú er kennt á grunnskólastigi á þremur stöðum austan Vatna í Skagafirði: á Hólum, á Hofsósi og í Sólgörðum. Skólastjórar eru á Hólum og á Hofsósi, en Sólgarðaskóli er deild í Grunnskólanum á Hofsósi. Á Hofsósi er kennt börnum í fyrsta til tíunda bekk (35 börn). Á Sólgörðum er kennt fyrsta til sjöunda bekk (12 börn), en nemendur í áttunda til tíunda bekk fara í Grunnskólann á Hofsósi. Á Hólum er kennt fyrsta til áttunda bekk (33 börn), en eldri nemendur fara í Hofsós. Alls eru um 80 nemendur í skólunum austan Vatna. Kostnaður vegna rekstrar skólanna er hár, m.a. vegna smæðar þeirra.
 
Á undanförnum árum hefur nemendum fækkað í Sólgörðum og á Hofsósi, þó virðist sem nemendafjöldi muni ekki breytast mikið næstu árin. Hins vegar hefur börnum á leikskóla- og grunnskólaaldri fjölgað á Hólum samfara auknum nemendafjölda og umsvifum í Hólaskóla. Síðast liðið haust lá nærri að ekki yrði nægilegt pláss fyrir leikskólabörn á Hólum og um tíma leit út fyrir að grunnskólabörn yrðu 44, fleiri en hægt er að koma fyrir með góðu móti. Líklegt er að nemendafjöldi mun aukast enn frekar á Hólum og mikilvægt er að mæta þeim vexti með rými í leikskóla og í grunnskóla. Einnig er nauðsynlegt að mæta sveiflum í nemendafjölda, því að fjöldi barna á grunnskólaaldri á Hólum er mjög breytilegur og endanlegur fjöldi nemenda kemur ekki ljós fyrr en skömmu áður en skólastarf hefst á haustin.
 
Með aukinni samþættingu og samvinnu milli skólasetranna má styrkja faglega starfsemi skólans og rekstrargrundvöll. Möguleikar skapast á hagræðingu í starfsmannahaldi og betri nýtingu á starfskröftum, sem lækkar kostnað af rekstri skólanna. Sameining skólanna gefur einnig svigrúm til þess að bregðast við fjölgun nemenda og breytilegri stærð árganga.
 
Einnig tekin fyrir tillaga Sjálfstæðisflokksins um sama mál sem vísað var til Fræðslunefndar frá Sveitarstjórn 11. janúar 2007.
 
Þar sem tillaga Sigurðar og Helga gengur lengra er hún tekin fyrr til afgreiðslu. Var hún samþykkt með atkvæðum Sigurðar og Helga. Sigríður Svavarsdóttir óskar eftir því að bókað verði að hún sitji hjá við þessa atkvæðagreiðslu.
 
Upplesið og staðfest rétt bókað. Fleira ekki gert, formlegum fundi slitið kl. 17.05.