Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

453. fundur 06. nóvember 2008 kl. 10:00 - 12:15 í Ráðhúsi, Skr.
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Framkvæmdir ársins - staða mála -

Málsnúmer 0809039Vakta málsnúmer

Jón Örn Berndsen, sviðsstjóri tækni- og umhverfissviðs, mætti á fund ráðsins, fór yfir framkvæmdir ársins og svaraði fyrirspurnum. Vék hann síðan af fundi.

2.Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra - Stækkun verknámshúss

Málsnúmer 0806090Vakta málsnúmer

Byggðarráð samþykkir eftirfarandi bókun:
Samningur hefur verið undirritaður af hálfu Menntamálaráðuneytis og fulltrúa sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um stækkun verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Fjármálaráðuneytið á enn eftir að staðfesta samninginn. Byggðarráð Skagafjarðar staðfestir fyrir sitt leyti samninginn eins og hann liggur fyrir og skal tekið tillit til kostnaðarþátttöku sveitarfélagsins í fjárhagsáætlun ársins 2009. Byggðarráð gerir þó þann fyrirvara við staðfestingu samningsins að komi fram misræmi við opnun tilboða í verkið þar sem niðurstaða útboðs leiðir í ljós hærri framkvæmdakostnað en fyrirliggjandi samningur gerir ráð fyrir sé rétt að aðilar setjist yfir samningsmál að nýju eða falli frá framkvæmdum ella. Er það enda skilningur byggðarráðs að um þessa málmeðferð hafi aðilar sammælst við undirritun samningsins. Að öðru leyti hvetur byggðarráð til þess að Fjármálaráðuneytið staðfesti samninginn hið fyrsta og að allri hönnun og undirbúningi útboðs verði hraðað sem kostur er svo hefja megi framkvæmdir sem allra fyrst á árinu 2009.?

3.Fjarskiptasjóður

Málsnúmer 0709005Vakta málsnúmer

Nýverið sagði Gagnaveita Skagafjarðar sig frá skilgreindu markaðssvæði fyrir háhraðanettengingar í Skagafirði. Byggðaráð óskar því eftir við Fjarskiptasjóð að endurskoðað verði áður skilgreint útboðssvæði sjóðsins í Skagafirði og þar tekið inn það svæði sem áður var skilgreint sem markaðssvæði.

4.Tillögur lagðar fyrir byggðarráð 6. nóv. 2008

Málsnúmer 0811006Vakta málsnúmer

Eftirfarandi tillögur Bjarna Jónssonar lagðar fram:
A) Í ljósi núverandi efnahagsþrenginga og erfiðrar fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar er lagt til að tekið verði fyrir sjálfvirkar launahækkanir fyrir sveitarstjórnar- og nefndarstörf hjá sveitarfélaginu við fjárhagsáætlanagerð ársins 2009.
Tillagan felld með öllum atkvæðum.
Gunnar Bragi Sveinsson og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óska bókað:
Fullyrðingar áheyrnarfulltrúa Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins eru ekki réttar þar sem fjárhagur Sveitarfélagsins Skagafjarðar er traustur. Laun sveitarstjórnar og nefnda taka mið af þingfararkaupi og taka ekki öðrum breytingum. Við teljum eðlilegt að laun sveitarstjórnar og nefnda verði endurskoðuð í samræmi við almenna launaþróun á næstunni.
Bjarni Jónsson óskar bókað:
Í ljósi erfiðrar skuldastöðu sveitarfélagsins og efnahagsástandsins þarf að gæta ítrasta aðhalds í rekstri. Þessi tillaga er í samræmi við ákvarðanir sem mörg sveitarfélög hafa verið að taka að undanförnu. Þessi niðurstaða kemur því á óvart.

B) Tekið verði saman yfirlit yfir þær gjaldskrár sem í gildi eru hjá Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir næsta fund byggðaráðs. Jafnframt verði farið heildstætt yfir gjaldskrármál sveitarélagsins með það að markmiði að létta undir og bregðast við áhrifum efnahagsþrenginga á fjárhag heimila og fyrirtækja í Skagafirði.
Tillagan felld með öllum atkvæðum.
Gunnar Bragi Sveinsson og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óska bókað:
Endurskoðun á gjaldskrám sveitarfélagins er eðlilegur hluti af vinnuferli við gerð fjárhagsáætlunar. Sú endurskoðun er nú þegar í vinnslu skv. vinnuplani um gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009. Vinnuplan þetta var samþykkt á byggðaráðsfundi 10. október síðast liðinn. Núgildandi gjaldskrár sveitarfélagsins má nálgast á heimasíðu þess. Þá hefur það verið rætt á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga að sveitarfélögin móti sameiginlega stefnu varðandi gjaldskrármál.
Bjarni Jónsson óskar bókað:
Mikilvægt er að byggðaráð fari heildstætt yfir gjaldskrár sveitarfélagsins áður en lengra er haldið fyrir fjárhagsáætlunargerð ársins 2009 en þær eru nú til umræðu hjá einstökum fagnefndum. Sveitarfélagið þarf nú þegar að móta sér aðgerðaáætlun vegna efnahagsástandsins og hvernig það hyggst létta undir með íbúum næstu misseri. Frysting hækkanna á ákveðnum þjónustugjöldum gæti verið mikilvægur liður í slíkum aðgerðum. Nefndir sveitarfélagsins ræða nú um hækkun á gjaldskrám án þess að umræða hafi farið fram um slíkt í byggðaráði eða sveitarstjórn. Ekki er seinna vænna að meirihluti byggðaráðs og sveitarstjórnar taki sig á og fari að bregðast við því ástandi sem íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir. Meðferð tillögunnar eru því vonbrigði.

5.Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2008

Málsnúmer 0810077Vakta málsnúmer

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2008 verður haldin dagana 13. og 14. nóvember nk.
Byggðarráð samþykkir að fulltrúar byggðarráðs ásamt áheyrnarfulltrúa, sveitarstjóri og fjármálastjóri sæki ráðstefnuna.

Fundi slitið - kl. 12:15.