Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

437. fundur 05. júní 2008 kl. 11:00 - 12:40 í Ráðhúsinu
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Málefni heilbrigðisstofnana á Sauðárkróki og Blönduósi

Málsnúmer 0803073Vakta málsnúmer

Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki er kjölfesta í héraði og hafa Skagfirðingar búið við afar góða heilbrigðisþjónustu sem ber að þakka. Þá hefur stofnunin fengið viðurkenningu heilbrigðisráðuneytisins fyrir árangur í rekstri. Góð og öflug þjónusta ásamt fyrirmyndarrekstri er fyrst og fremst góðu starfsfólki að þakka. Byggðaráð leggur áherslu á að boðaðar breytingar á skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi vestra komi ekki niður á þeirri þjónustu og árangri sem náðst hefur hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki og að störfum og verkefnum fjölgi fremur en fækki. Sauðárkrókur er byggðakjarni Norðurlands vestra með fjölbreytta og öfluga þjónustu, því leggur byggðaráð áherslu á að tryggt verði að yfirstjórn heilbrigðisstofnunarinnar verði áfram á Sauðárkróki.

Með vísan til umræðna um samráð á fundi með nefnd heilbrigðisráðuneytisins um málið samþykkir byggðaráð að óska eftir fundi með heilbrigðisráðherra og nefndinni sem fyrst.

2.Umdæmisþing Kiwanis á Íslandi 2008

Málsnúmer 0804120Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 432. fundar byggðarráðs. Byggðarráð tók jákvætt í erindið og sveitarstjóra falið að að ræða við hlutaðeigandi.
Byggðarráð samþykkir að styrkja þinghaldara um ígildi húsaleigu fyrir þingið í Íþóttahúsinu á Sauðárkróki. Fjármagn tekið af fjárhagslið 21890.

3.Bygging aðstöðuhúss fyrir tjaldstæði á Sauðárkróki

Málsnúmer 0805092Vakta málsnúmer

Máli vísað frá sveitarstjórn 3. júní sl.
Byggðarráð staðfestir framlagða viljayfirlýsingu.

4.Árskóli - menningarhús

Málsnúmer 0804018Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi tillaga af fulltrúum Framsóknarflokks og Samfylkingar:
Skipuð verði bygginganefnd Árskóla og menningarhúss er hafi umsjón með undirbúningi, hönnun og framkvæmd verksins. Þá láti nefndin fara fram skoðun á leiðum til fjármögnunar verksins. Nefndina skipa Gunnar Bragi Sveinsson formaður byggðarráðs, Óskar G. Björnsson skólastjóri Árskóla og Unnar Ingvarsson forstöðumaður Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Með nefndinni starfi Guðmundur Guðlaugsson sveitarstjóri, Jón Örn Berndsen sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs og Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs.

Tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum.

Páll Dagbjartsson óskar bókað:
Sveitarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa þegar hafnað hugmynd meirihlutans að byggja menningarhús samtengt viðbyggingu Árskóla. Vísast þar til bókunar á sveitarstjórnarfundi 20. maí s.l. Þar af leiðandi höfnum við því að taka þátt í skipun bygginganefndarinnar svo og öðru því sem meirihlutinn hyggst gera til að vinna þessari hugmynd sinni framgang.
Við minnum á að í fullu gildi er samkomulag milli menntamálaráðuneytisins og sveitarstjórna beggja sveitarfélaganna í Skagafirði dags. 28. maí 2005. Þar segir m.a. "Það er yfirlýstur vilji sveitarfélaganna og menntamálaráðuneytisins að menningarhús í Skagafirði verði tvíþætt og felist í fyrsta lagi, í uppbyggingu og endurbótum á Miðgarði og í öðru lagi, í viðbyggingu og endurbótum á Safnahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki." Þetta samkomulag var samþykkt samhljóða í báðum sveitarstjórnunum m.a. af oddvitum núverandi meirihluta, sem þá voru í minnihluta.

Bjarni Jónsson óskar bókað:
Undirritaður ítrekar bókun um málið á sveitastjórnarfundi 20. maí s.l. þar sem lýst var andstöðu við áform meirihlutans að byggja menningarhús að upphæð yfir 1,5 milljarð yfir íþróttasvæðið á Sauðárkróki og eyðileggja þannig þá góðu aðtöðu sem þar er nú. Áformin eru óraunsæ og endurspegla ekki fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins eða að tillit sé tekið til fjárþarfar brýnni verkefna eins og viðbyggingar við Árskóla, leikskóla á Sauðárkróki, íþróttahús á Hofsósi og framkvæmdir við bætta sundaðstöðu á Sauðárkróki. Fleiri verkefni mætti nefna. Þá er skipan bygginganefndar ótímabær og óþörf í ljósi bókunar meirihlutans á sveitarstjórnarfundi 20. maí þar sem málið var til umfjöllunar. Þar hafnaði meirihlutinn tillögu VG um að skipaður verði starfshópur fulltrúa allra flokka sem fari yfir stöðu framkvæmda sem verið er að ráðast í eða eru til skoðunar í sveitarfélaginu, með svohljóðandi bókun: ?Sveitarfélagið hefur á að skipa byggðarráði sem fer með framkvæmda- og fjármálastjórn ásamt sveitarstjóra. Ekki er því þörf á því að skipa starfshóp eins og VG leggja til.?

5.Hvítabjörn í Skagafirði

Málsnúmer 0806022Vakta málsnúmer

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar þakkar lögreglu og öðrum yfirvöldum fyrir skjót viðbrögð vegna hvítabjarnarins er felldur var á Þverárfjalli. Telur byggðarráðið að viðbrögð hljóti ætíð að taka mið af því að vernda mannslíf. Byggðarráð fer jafnframt fram á að sveitarfélagið fái björninn til varðveislu er rannsóknum á honum og uppstoppun er lokið.

6.Fræðslustarf á vegum umhverfisráðuneytisins

Málsnúmer 0805096Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf umhverfisráðuneytisins varðandi fræðslustarf á vegum þess með útgáfu fræðslubæklinga s.s. Skref fyrir skref, Loftslagsbreytingar, Áherslur umhverfisráðherra og Varðliðar umhverfisins.

Fundi slitið - kl. 12:40.