Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

443. fundur 21. ágúst 2008 kl. 10:00 - 11:48 í Ráðhúsinu
Fundargerð ritaði: Engilráð Margrét Sigurðardóttir, skjalastjóri
Dagskrá

1.Bygging leikskóla við Árkíl 2 á Sauðárkróki

Málsnúmer 0808037Vakta málsnúmer

Í byrjun júlí lá fyrir kostnaðaráætlun nýs leikskóla en hún hljóðar uppá tæpar 400 milljónir króna. Eftir yfirferð sveitarstjóra og starfsmanna umhverfis- og tæknisviðs á kostnaðaráætluninni ræddu sveitarstjóri og formaður byggðaráðs samningsmál við forsvarsmenn Samfélagsins ehf. í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar frá 7.júní 2007 um að Samfélagið ehf. byggði leikskóla fyrir sveitarfélagið. Eftir ítarlegar viðræður sveitarstjóra og formanns byggðarráðs við forsvarsmenn Samfélagsins ehf. eru báðir aðilar sammála um að í ljósi tafa á hönnun og mikillar hækkunar byggingakostnaðar sé rétt fella samkomulagið úr gildi. Afar brýnt er að hraða framvindu málsins án þess að það tefjist frekar eða takmarki fjárhagslega getu til annarra framkvæmda. Því samþykkir meirihluti byggðarráðs að framkvæmdin verði boðin út með þeim hætti að byggingaraðili byggi og leigi sveitarfélaginu skólann. Í útboðsgögnum verði þess m.a. krafist að sveitarfélagið geti á leigutíma keypt húsnæðið skv. fyrirfram ákveðnum reglum, reynist það hagkvæmt. Þá verði kostnaðaráætlun gefin upp í útboðsgögnum. Sveitarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs falið að ganga frá útboðsgögnum í samvinnu við hönnuði.

Bjarni Jónsson leggur fram bókun:
"Því er fagnað að meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar hefur bakkað og fallist á kröfu minnihlutans að bygging leikskóla verði boðin út og umdeilt einhliða samkomulag við félag í eigu KS fellt úr gildi.
Engin umræða hefur hinsvegar farið fram um fjármögnun og eignarhald á nýjum leikskóla. Þá hefur ekki verið gerður samanburður á fjármögnunarleiðum og hvaða leið varðandi eignarhald er hagstæðust fyrir íbúa sveitarfélagsins til lengri tíma litið. Þetta eru óábyrg vinnubrögð. Það er einnig talandi dæmi um þá stjórnsýslu sem meirihlutinn ástundar, að sú tillaga sem hér liggur fyrir og varðar miklar fjárskuldbindingar fyrir sveitarfélagið, skuli ekki kynnt fyrr en á þeim fundi sem hún er jafnframt tekin til afgreiðslu.
Sveitarstjórnarfulltrúum er ekki gefinn kostur á að fara yfir málið og mismunandi valkosti.
Undirritaður áskilur sér allan rétt til að fara betur yfir málið með hagsmuni íbúa Skagafjarðar að leiðarljósi."

Páll Dagbjartsson leggur fram bókun:
"Ég fagna því að meirihlutinn skuli hafa snúið við blaðinu og stefnt skuli að útboði á landsvísu á byggingu leikskólans á Sauðárkróki. Hins vegar liggja ekki fyrir gögn sem sýna hagkvæmni í þeirri leið að sveitarfélagið leigi leikskólann fullgerðan af byggingaraðilanum frekar en að fjármagna framkvæmdir með eigin lántökum. Ég styð þá ákvörðun að bygging leikskólans fari í almennt útboð en sit hjá. að svo komnu máli, við þá ákvörðun meirihlutans að velja fyrirfram þá leið að leigja af byggingaraðilanum. Frekari útreikningar þurfa að liggja fyrir fyrst."

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson leggja fram bókun:
"Í rúmt ár hefur legið fyrir ákvörðun sveitarstjórnar um að fara þá leið að byggja leikskólann í leiguformi. Eina breytingin er sú að um útboðsform verður að ræða en það var m.a. ein af kröfum minnihlutans. Því eru þessi viðbrögð óskiljanleg. Tilraunir minnihlutans til að tefja framkvæmdir sem meirihluti sveitarstjórnar hefur ákveðið að fara í og eru afar mikilvægar íbúum Skagafjarðar eru óásættanlegar. Það er löngu ljóst að minnihlutanum hugnast ekki áætlanir meirihlutans um eflingu Skagafjarðar og því er reynt að tefja fyrir. Nýr leiksskóli verður boðinn út í leiguformi m.a. til að takmarka ekki aðgang sveitarfélagsins að fjármögnun til nauðsynlegra framkvæmda í sveitarfélaginu. Önnur sveitarfélög hafa mörg hver farið þessa leið eða tekið þátt í rekstri fasteignafélags um ákveðnar eignir. Í útboðsskilmálum verður kveðið á um að sveitarfélagið geti á leigutíma keypt húsnæðið skv. fyrirfram ákveðnum reglum. Sveitarfélagið Skagfjörður þarf líkt og önnur sveitarfélög að nýta færar leiðir til framkvæmda. Ljóst er að framundan er niðursveifla í íslensku hagkerfi og því eru framkvæmdir opinberra aðila mikilvægar. Því mun sveitarfélagið leita leiða til að atvinnulíf í Skagafirði verði ekki fyrir áhrifum niðursveiflu, þáttur í því er hátt framkvæmda- og fjárfestingastig."

Bjarni Jónsson leggur fram bókun:
"Ítrekuð eru mótmæli vegna gerræðislegra vinnubragða meirihlutans, sem hunsar samráð og eðlilega stjórnsýsluhætti. Tafir á byggingu leikskólans eru á ábyrgð meirihlutans. Minnihlutinn hefur ítrekað lagt fram tillögur um að hraða undirbúningi að byggingu leikskóla á Sauðárkróki og að jafnframt verði valin hagkvæmasta leiðin að því markmiði. Tillögur um slíkt hafa hins vegar verið felldar af fulltrúum meirihlutans, m.a. við fjárhagsáætlunargerð."

Páll Dagbjartsson óskar bókað að hann vísi fullyrðingum meirihlutans á bug.

2.Blöndulína 3 - Mat á umhverfisáhrifum

Málsnúmer 0807032Vakta málsnúmer

Fulltrúar meirihluta byggðarráðs leggja fram eftirfarandi bókun vegna fyrirhugaðrar Blöndulínu 3:
?Afar mikilvægt er að íbúar og atvinnulíf landsins búi við örugga orkuflutninga. Hagsmunir Skagfirðinga eins og annarra eru þeir að elsti hluti byggðalínunnar verði endurnýjaður og byggður upp svo raforkuöryggi verði tryggt. Við undirrituð teljum að fyrsti kostur hljóti að vera að kanna möguleika á lagningu línunnar í jörðu. Íslenska ríkið á meirihluta í Landsneti hf. í gegnum Landsvirkjun og RARIK. Er því lögð áherslu á, við ríkisvaldið, að endurnýjuð byggðalína verði lögð sem mest í jörðu og sérstaklega þar sem hún fer í gegnum byggð og nytjaland í Skagafirði. Óskað er skriflegra svara Iðnaðarráðuneytis og Landsnets hf um viðhorf og möguleika þess að leggja línuna í jörð.?
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir
Gunnar Bragi Sveinsson

Fulltrúar minnihluta, Bjarni Jónsson og Páll Dagbjartsson, leggja fram svofellda bókun:
"Við höfnum þeim áformum Landsnets að leggja háspennulínu ( loftlínu ) með tilheyrandi burðarmöstrum þvert í gegn um Skagafjarðarhérað, einkum þó þá hugmynd að flytja línuna á nýtt línustæði. Við teljum þau viðhorf úrelt, sem hér eru uppi, að leggja slíkar línur þvert í gegn um blómleg byggðalög. Eina ásættanlega leiðin er að leggja línu þessa í jörðu. Sá aukni kostnaður, sem af því getur hlotist, er nokkuð sem orkuflutningsfyrirtæki verða að taka með í sína útreikninga þegar ráðast skal í framkvæmdir af þessum toga. Ekki má heldur gleyma að taka tillit til þess kostnaðar sem lagður er á þá sem verða fyrir skaða af framkvæmdinni ásamt því tjóni, sem kann að verða valdið á búsetuskilyrðum og ímynd héraðsins. Í þeim forsendum sem liggja að baki framkvæmdinni og kynntar eru í matsáætlun er ekkert sem rökstyður svo umfangsmikla framkvæmd sem lagningu 220 kV línu um Skagafjörð. Hægt er að ná tilsettum markmiðum um orkuflutninga og framkvæmdakostnað ásamt því að lágmarka neikvæð áhrif á náttúru og samfélag með því að miða við lægri spennu og leggja nýja byggðalínu í jörð."

Bjarni Jónsson leggur fram fyrirspurn til forseta sveitarstjórnar og formanns byggðaráðs:

"Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti áttu þeir fund með fulltrúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar þar sem fyrirhuguð lagning 220 kV háspennulínu í loftlínu um Skagafjörð var rædd. Ennfremur virðast þeir hafa litið svo á eftir þann fund að sveitarfélagið gerði ekki athugasemdir við tilhögun framkvæmdarinnar og hæfist þegar handa við að koma henni í þeirri mynd inn á skipulag. Hefur sá skilningur Landsnets komið fram í fjölmiðlum og í texta tillögu að matsáætlun en þar segir: ?Flutningsleið raforku hefur verið skilgreind í stórum dráttum og hlutaðeigandi sveitarfélögum verið kynnt þau áform. Unnið er að viðeigandi skipulagsbreytingum í sveitarfélögunum í samræmi við þessar tillögur.? Undirritaður sveitarstjórnarmaður frétti fyrst af þessum áætlunum í auglýsingu um tillögu að matsáætlun í dagblöðum. Hvergi er í fundargerðum nefnda eða sveitarstjórnar að finna umfjöllun eða vísun til þessa máls. Bæði fulltrúum Landsnets og meirihlutans verður að vera ljóst að ekki er hægt að afgreiða í einkasamtölum stór mál er varða sveitarfélagið. Mikilvægt er að þetta misræmi verði skýrt. Sveitarstjórnarfulltrúum gafst ekki tækifæri né svigrúm til að fjalla efnislega um framkvæmdina, fýsileika hennar og mögulegar útfærslur áður en ákveðnir valkostir voru settir í kynningarferli í tillögu að matsáætlun. Sveitarstjórn mun hinsvegar gefast kostur á frekari athugasemdum við framkvæmdina.

Eftirfarandi fyrirspurn vegna þessa misræmis og/eða málsmeðferðar á málinu er lögð fyrir næsta sveitarstjórnarfund.

Óskað er eftir svörum við eftirfarandi:

Hvenær var þessi fundur/fundir haldnir með fulltrúum sveitarfélagsins, hverjir sóttu þá fundi og hvað fór þar fram?
Hversvegna var ekki haft samráð við sveitarstjórnarfulltrúa minnihlutans um málið?
Hvernig útskýra fulltrúar meirihlutans þann skilning sem Landsnet leggur í niðurstöðu og vægi þess fundar/funda?"

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson leggja fram bókun:
"Málflutningur Bjarna Jónssonar er með ólíkindum þar sem hann veit hið sanna í málinu. Hann kýs að nýta sér erfiða stöðu landeigenda og annarra, er málið varðar, sér til framdráttar en slík vinnubrögð eru ekki ný af nálinni. Málið hefur enga formlega afgreiðslu fengið hjá nefndum sveitarfélagsins og því er dylgjum Bjarna vísað til föðurhúsanna."

Bjarni Jónsson óskar bókað:
"Hér er um að ræða aumleg og ómálefnaleg viðbrögð við eðlilegri fyrirspurn, í ljósi málavaxta."

3.Allsherjarþing Evrópusamtaka sveitarfélaga 2009

Málsnúmer 0808035Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Samb. ísl. sveitarfélaga, dags. 11.08.2008, þar sem greint er frá því að Allsherjarþing Evrópusamtaka sveitarfélaga, sem haldið er 3ja hvert ár, verði að þessu sinni í Málmey, Svíþjóð dagana 22.- 24. apríl 2009.

4.Reglur um ráðstöfun aukaframlags til Jöfnunarsjóðs

Málsnúmer 0808003Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 29.07.08. Efni: Reglur um ráðstöfun 1.400 millj. kr. aukaframlags til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Úthlutanir framlaga.

5.SSNV - Ársskýrsla 2007

Málsnúmer 0808034Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar Ársskýrsla 2007 frá Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

6.Gangstígur og órækt norðan Túnahverfis

Málsnúmer 0808039Vakta málsnúmer

Lagður fram undirskriftalisti frá 174 íbúum í Túnahverfi, þar sem þess er farið á leit að varanlega verði gengið frá gönguleið, sem liggur norðan Túnahverfis að steyptri gangstétt á Skagfirðingabraut.
Byggðarráð tekur undir athugasemdir íbúanna og leggur til við umhverfis- og samgöngunefnd að gera ráð fyrir auknum fjármunum til umhverfismála, m.a. stígagerðar, við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

Fundi slitið - kl. 11:48.