Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

517. fundur 20. maí 2010 kl. 10:00 - 11:29 í Ráðhúsi, Skr.
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Víðigrund 24 1h Breyting á baðherbergi

Málsnúmer 1005055Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá umhverfis- og tæknisviði þar sem óskað er eftir hækkun fjárheimildar um allt að 800 þús.kr., til innanhússbreytinga í fasteign í félagslega íbúðakerfinu.

Byggðarráð samþykkir fyrir sitt leyti að heimila þessa framkvæmd og felur embættismönnum að finna leið til fjármagna hana innan fjárhagsáætlunar ársins. Byggðarráð telur rétt að gerð verði áætlun um sambærilegar endurbætur á félagslegu húsnæði sveitarfélagsins þar sem það á við.

2.Húsnæðismál - þjónustumiðstöð og geymsluhúsnæði

Málsnúmer 1003107Vakta málsnúmer

Lagður fram húsaleigusamingur á milli sveitarfélagsins og Kaupfélags Skagfirðinga um atvinnuhúsnæði að Borgarflöt 27, Sauðárkróki.

Meirihluti byggðarráðs samþykkir framlagðan samning.

Gísli Árnason og Gísli Sigurðsson óska bókað:

"Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsti eftir atvinnuhúsnæði þann 18. mars síðastliðinn, sem sveitarstjóri kynnti fulltrúum byggðaráðs sama dag, vegna fyrirspurnar um málið.

Fyrir þessum fundi liggur samningur undirritaður með fyrirvara, milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Kaupfélags Skagfirðinga, dags. 17. maí síðastliðinn, til rúmlega þriggja ára að verðgildi 18 milljónir króna án vsk. Samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins fer byggðarráð með fjármálaumsýslu sveitarfélagsins. Frá birtingu auglýsingarinnar hefur byggðarráð ekkert verið upplýst hvort og þá hverjir buðu fram húsnæði, með hvaða kjörum og yfirleitt enga aðkomu haft af þessu máli. Byggðarráð hefur engar upplýsingar um hvaða kostir eru í boði. Rétt og skylt er einnig að bera slíkan samning undir byggðaráð áður en hann er undirritaður af hálfu sveitarfélagsins. Þetta eru ótæk vinnubrögð meirihlutans og með öllu ólíðandi."

Þórdís Friðbjörnsdóttir og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óska bókað:

"Það er ljóst miðað við bókun minnihlutans að það líður að sveitarstjórnarkosningum og skjálfti í mönnum. Sveitarfélagið hefur lengi leitað að hentugu leiguhúsnæði fyrir ýmsa starfsemi. Með tilkomu á leigu húsnæðisins að Borgarflöt 27, fæst húsnæði sem hentar starfsemi sveitarfélagsins afar vel og gefur tækifæri til hagræðingar og endurskipulagningar húsnæðismála til framtíðar litið. Starfsmenn hafa unnið af heilindum að þarfagreiningu og horft til hagsmuna sveitarfélagsins. Fyrir fundinum liggur greinargerð með nægjanlegum upplýsingum og rökstuðningi sem sýnir að sú stefnumörkun sem allir flokkar hafa verið sammála um fram að þessu hafi náðst. Húsnæðið uppfyllir þær kröfur sem leitað var eftir. Annað húsnæði sem boðið er hentar ekki eins vel, miðað við þær forsendur og þarfagreiningu sem lagt hefur verið upp með og því óþarft að bíða með frekari ákvörðun í málinu."

3.Takmörkun veiða með dragnót - óskað umsagnar

Málsnúmer 1005007Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þar sem óskað er umsagnar um tillögur að takmörkunum á veiðum með dragnót á nokkrum svæðum fyrir Norðurlandi þ.m.t. á Skagafirði, innan línu sem dregin er yfir fjörðinn úr Ásnefi (65°58´05 N.brd og 19°53´0 V.lgd) að vestan, utan við Drangey í norðurenda Þórðarhöfða (65°58´22 N.brd og 19°29´7 V.lgd). Innan þessarar línu verði veiðar með dragnót óheimilar allt árið.

Byggðarráð ítrekar fyrri bókanir varðandi dragnótaveiðar á Skagafirði sem styðja framangreinda tillögu um takmörkun þeirra.

4.Kostnaðaráhrif nýrra laga frá 2008 um leikskóla og grunnskóla

Málsnúmer 1005180Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um kostnaðaráhrif nýrra laga frá 2008 um leikskóla og grunnskóla og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra.

5.VSK-umhverfi sveitarfélaganna

Málsnúmer 1005181Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar greinargerð frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um VSK-umhverfi sveitarfélaganna.

Fundi slitið - kl. 11:29.