Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

903. fundur 26. febrúar 2020 kl. 11:30 - 13:19 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Gísli Sigurðsson varaform.
  • Bjarni Jónsson aðalm.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Laufey Kristín Skúladóttir
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Eigin eldvarnaeftirlit

Málsnúmer 2002188Vakta málsnúmer

Lögð fram sameiginleg greinargerð og árangusrsmat Eldvarnabandalagsins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar um auknar eldvarnir.
Það er niðurstaða slökkviliðsstjóra að verkefnið hafi gengið vel fyrir sig og skilað tilætluðum árangri, hvort sem litið er til eldvarna á vinnustöðum eða heimilum. Slökkviliðsstjóri fann fyrir auknum áhuga á eldvörnum og aukinni sölu á eldvarnabúnaði. Hann segist hafa fundið fyrir miklum meðbyr með verkefninu og telur að það muni hjálpa mjög til við eldvarnaeftirlit í mannvirkjum sveitarfélagsins.
Það er sameiginleg niðurstaða að samstarf Brunavarna Skagafjarðar og Eldvarnabandalagsins hafi gengið vel og samskipti samstarfsaðilanna hafi verið með ágætum. Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri kom á fundinn og fór yfir og kynnti niðurstöðu verkefnisins.

2.Fyrirspurn vegna Bifrastar

Málsnúmer 2002149Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Róberti Smára Gunnarssyni, dagsett 14. febrúar 2020 þar sem hann leggur fram nokkrar fyrirspurnir vegna Félagsheimilisins Bifrastar við Skagfirðingabraut á Sauðárkróki. Fyrirspurnirnar snúast um ástand hússins, aðgengi og framtíðarnot.
Svör:
Frá árinu 2005 hefur verið varið um 23 milljónum króna í viðhald félagsheimilisins. Ríflega helmingi þess fjármagns var varið í viðgerð á þaki árin 2015 og 2016. Inni í þessari tölu eru ekki kaup á búnaði sem talsverðar fjárhæðir hafa farið í.
Til að uppfylla kröfur nútímans um aðgengi að húsnæðinu þarf að ráðast í mjög kostnaðarsamar aðgerðir. Nokkrar útfærslur eru til á bættu aðgengi að Bifröst en húsnæðið er á nokkuð mörgum pöllum og því enn erfiðara en ella að uppfylla kröfur um aðgengi. Framkvæmdir vegna bætts aðgengis að Félagsheimilinu Bifröst eru ekki á fjárhagsáætlun þessa árs.
Ekki hefur farið út heildarúttekt á húsnæðinu en búið er að fara í fjölda ástandsskoðana og er ástand hússins vel þekkt. Ljóst er að þörf er á algjörri endurnýjun á húsnæðinu ef það á að nýtast áfram sem samkomuhús sem uppfyllir kröfur nútímans varðandi aðgengi, brunavarnir og almennt notagildi.
Unnið er að undirbúningi vegna byggingar menningarhúss á Sauðárkróki. Í kjölfar hönnunar þar er ljóst að sett verður í gang vinna við að meta hvernig félagsheimilið Bifröst getur sem best þjónað samfélaginu.

3.Verkefnastjórn um uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð

Málsnúmer 2002189Vakta málsnúmer

Lögð fram sameigileg viljayfirlýsing frá 7. nóvember 2019, milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps um uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð.
Byggðarráð leggur til við sveitarstjórnirnar að í verkefnastjórn sitji skólastjóri Leikskólans Birkilundar, skólastjóri Varmahlíðarskóla, skólastjóri Tónlistarskóla Skagafjarðar, fræðslustjóri, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs og framkvæmdastjórar sveitarfélaganna.

4.Lóð númer 70 við Sauðárhlíð

Málsnúmer 2002229Vakta málsnúmer

Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að auglýsa til sölu fasteignina Lóð númer 70 við Sauðárhlíð, F2132646, landnr. 144009. Um er að ræða hlöðu sem byggð var árið 1959, u.þ.b. 80 m2 og stendur á 2400 m2 lóð. Sveitarstjóra sömuleiðis falið að undirbúa viðauka við fjárhagsáætlun 2020.

5.Öldungaráð - samþykktir

Málsnúmer 2001183Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samþykktum fyrir öldungaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem settar eru skv. samþykktum um stjórn og fundarsköp fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð nr. 961/2013, 2. mgr. 38. gr. laga nr. 40/1991 (lög um félagsþjónustu sveitarfélaga) og 8. gr. laga nr. 125/1999 (lög um málefni aldraðra). Vísað til byggðarráðs frá 275. fundi félags- og tómstundanefndar þann 19. febrúar 2020.
Byggðarráð samþykkir framlögð drög og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

6.Samráð; Frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga

Málsnúmer 2002094Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 12. febrúar 2020 þar sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 29/2020, "Frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga". Umsagnarfrestur er til og með 27.02. 2020.
Meirihluti byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar og áheyrnarfulltrúi ByggðaListans eru fylgjandi þeim áherslum í frumvarpinu sem stuðla að hvötum til frjálsra sameininga sveitarfélaga. Má þar sérstaklega nefna þá áherslu að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði gert mögulegt að veita aðstoð vegna sameininga í sjö ár í stað fimm. Einnig að heimildir sveitarfélaga til að halda fjarfundi verði víkkaðar frá því sem nú er. Þá er ákvæði um stefnu um þjónustustig jákvætt skref.
Byggðarráð leggur jafnframt áherslu á að árleg framlög til Jöfnunarsjóðs verði aukin svo bráðabirgðaákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem hefur þann tilgang að veita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimild til að halda eftir einum milljarði árlega og safna í sjóð til að styðja við sameiningu sveitarfélaga, leiði ekki til skertra almennra framlaga úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga.
Bjarni Jónsson (Vg og óháð) tekur ekki þátt í ofangreindri bókun og óskar bókað:
Margt er jákvætt að finna í tillögunni, ekki síst er snýr að útfærslum er lúta að því að styrkja lýðræðislega aðkomu íbúa í víðlendum sveitarfélögum að ákvarðanatöku, sömuleiðis á starfsskilyrðum kjörinna fulltrúa og þá er hægt að taka undir markmið um styrkingu innviða, tekjustofna sveitarfélaga og aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga á margvíslegum sviðum. Víða er nokkuð augljóst að ef vel er á málum haldið getur frekari sameining sveitarfélaga styrkt þau, bætt þjónustu við íbúa og gefið sveitarfélögunum aukinn slagkraft. Á sumum svæðum er þetta hins vegar ekki jafn augljóst, svo sem vegna landfræðilegrar staðsetningar eða samsetningar byggðar.
Eins og málin standa nú eru hinsvegar bara sum sveitarfélög sem munu samkvæmt frumvarpinu borga fyrir sameiningarátak ráðherra með skertum framlögum úr jöfnunarsjóði sem ætluð eru til lögbundinna verkefna eins og að halda uppi skólastarfi á meðan mörg þeirra stærri sleppa. Eitt þeirra Reykjavíkurborg hefur að auki gert 6 milljarða kröfu á Jöfnunarsjóðinn vegna þess hlutverks hans að jafna möguleika sveitarfélaga til að halda uppi lögbundinni þjónustu eins og skólastarfi. Að óbreyttu gæti þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir mörg sveitarfélög á landsbyggðinni. Á þessu vakti ég athygli á alþingi 28. janúar sl. Í ljósi þessarar stöðu og þess að efasemdir eru uppi um réttmæti lögþvingaðra sameininga sveitarfélaga, er vart hægt að styðja tillöguna að óbreyttu.

7.Samráð; Reglugerð um rekstur héraðsskjalasafns

Málsnúmer 2002112Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 13. febrúar 2020 þar sem mennta- og menningarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 32/2020, "Reglugerð um rekstur héraðsskjalasafns". Umsagnarfrestur er til og með 27.02. 2020.
Byggðarráð tekur undir bókun atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar frá 19. febrúar 2020.

8.Samráð; Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (tengdir aðilar)

Málsnúmer 2002123Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 14. febrúar 2020 þar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 41/2020, "Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (tengdir aðilar)". Umsagnarfrestur er til og með 24.02. 2020.

9.Samráð; Reglugerð um vernd landbúnaðarlands

Málsnúmer 2002124Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 14. febrúar 2020 þar sem atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 39/2020, "Reglugerð um vernd landbúnaðarlands". Umsagnarfrestur er til og með 28.02. 2020.

10.Samráð; Drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Málsnúmer 2002125Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 14. febrúar 2020 þar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 40/2020, "Drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu (lög á sviði sjávarútvegs, fiskeldis og lax- og silungs.)". Umsagnarfrestur er til og með 28.02.2020.

11.Samráð; Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 1402012, með síðari breytingum (réttarstaða þriðja aðila o.fl.)

Málsnúmer 2002210Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 21. febrúar 2020 þar sem forsætisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 46/2020, „Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum (réttarstaða þriðja aðila o.fl.)“. Umsagnarfrestur er til og með 05.03.2020.

Fundi slitið - kl. 13:19.