Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

862. fundur 03. apríl 2019 kl. 11:30 - 13:30 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Gísli Sigurðsson varaform.
  • Sveinn Þ. Finster Úlfarsson varam. áheyrnarftr.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir 2. varam.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Samþykkt var með öllum atkvæðum að taka á dagskrá með afbrigðum mál númer 1904042.

1.Fyrirspurn varðandi land

Málsnúmer 1901154Vakta málsnúmer

Erindið síðast á dagskrá 860. fundar byggðarráðs þann 13. mars 2019. Á fund ráðsins komu fyrirspyrjendur og kynntu áform sín varðandi jörðina Hólavelli í Fljótum.
Byggðarráð samþykkir eftirfarandi bókun:
„Sveitarstjóra er falið ráðstafa jörðinni Hólavöllum (landnúmer 146817) með sölu, leigu eða eftir atvikum með leigusamningi með kauprétti, að undangenginni auglýsingu eða auglýsingum, þar sem m.a. verði höfð hliðsjón af þeim leiðbeiningum og skilmálum sem landbúnaðarnefnd setti fram á fundi sínum hinn 25. febrúar 2019. Þó skal þess gætt að í stað þess að gera ráð fyrir ráðstöfun til hæstbjóðanda þá megi, við mat á tilboðum, gefa sérstakt vægi sjónarmiðum sem styðja við að ungt fólk með börn eða á barneignaraldri sem jafnframt greiði útsvar sitt til sveitarfélagsins fái eignina leigða eða keypta. Við ráðstöfun og auglýsingar verði fyrirvari um endanlega staðfestingu sveitarstjórnar á ráðstöfuninni.“

2.Áætlun um tekjutap vegna áforma um frystingu framlags ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Málsnúmer 1903169Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað dagsett 18. mars 2019 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi áætlun um tekjutap vegna áforma um frystingu framlags ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga árin 2020 og 2021.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar átelur þau áform sem birtast í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020-2024 um frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2020 og 2021. Vinnubrögð stjórnvalda í málinu eru þeim til mikils vansa en fulltrúum sveitarfélaga var tilkynnt einhliða um þessa ákvörðun fyrir skemmstu og var þar með farið á svig við lög um opinber fjármál sem kveða á um að við mótun fjármálaáætlunar skuli ráðherra leita samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Áhrif frystingar framlaga Jöfnunarsjóðs hefur mest áhrif á fámennari og dreifbýlli sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins og gerir þeim mun erfiðara um vik að veita íbúum sínum sem besta þjónustu. Sem dæmi um þetta má nefna að ef tillagan nær fram að ganga mun áætluð tekjuskerðing Sveitarfélagsins Skagafjarðar nema um 117,9 mkr. á þessu 2ja ára tímabili auk 8,6 mkr. vegna málefna fatlaðs fólks.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar krefst þess að framangreind tillaga um frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs verði dregin til baka.

3.Viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2019

Málsnúmer 1904029Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að viðauka númer 1 við fjárhagsáætlun 2019. Viðaukinn gerir ráð fyrir að fjárfesting eignasjóðs hækki um 97,5 mkr. vegna framkvæmda við Aðalgötu 21. Fjárfestingunni verði mætt með aukinni lántöku að fjárhæð 47,5 mkr. og lækkun handbærs fjár um 50,0 mkr.
Byggðarráð samþykkir með tveimur atkvæðum að vísa viðauka 1 við fjárhagsáætlun 2019 til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir fulltrúi VG og óháðra óskar að bóka eftirfarandi:
VG og óháð standa ekki að samþykkt viðaukans í byggðaráði eða sveitarstjórn. Viljum við jafnframt vekja athygli á því að samkvæmt sveitastjórnarlögum eiga gögn funda að liggja fyrir 24 klst. fyrir fund sem því miður var ekki raunin með viðaukann.

Sveinn Finster Úlfarsson fulltrúi Byggðalistans óskar að bóka eftirfarandi:
Ég geri athugasemdir við gerð þessa viðauka, annarsvegar þar sem um er að ræða mikla framúrkeyrslu á verkefni sem Byggðalistinn styður ekki, og hinsvegar þar sem viðbótar kostnaði á að mæta með aukinni lántöku og lækkun á handbæru fé. Eðlilegt þætti að halda þeim línum sem settar voru við fjárhagsáætlanagerð til að sýna ábyrga fjármálastefnu í verki.

4.Beiðni um lækkun fasteignaskatts

Málsnúmer 1903244Vakta málsnúmer

Sjá trúnaðarbók.

5.Viðmiðunarupphæðir 2019 v. 25. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir vegna styrkja til náms, verkfæra- og tækjakaupa

Málsnúmer 1901159Vakta málsnúmer

Lögð fram samþykkt 264. fundar félags- og tómstundanefndar, þann 20. mars 2019, varðandi viðmiðunarupphæðir ársins 2019 vegna 25. grein laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir vegna styrkja til náms, verkfæra- og tækjakaupa.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi viðmiðunarupphæðir og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

6.Samstarf um átakverkefni gegn heimilisofbeldi

Málsnúmer 1903166Vakta málsnúmer

Lögð fram samþykkt 264. fundar félags- og tómstundanefndar, þann 20. mars 2019, varðandi samstarf um átaksverkefni gegn heimilisofbeldi. Mælt er með því við sveitarstjórn að sveitarfélagið gangi til samstarfs við Lögreglustjórann á Norðurlandi vestra um samvinnu í átaki gegn heimilisofbeldi. Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á heimilisofbeldismálum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu, vernda börn sem búa við heimilisofbeldi, vanda rannsókn lögreglu frá upphafi máls og nýta betur úrræði um brottvísun af heimili sem og nálgunarbann.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi samstarfsyfirlýsingu og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

7.Styrktarsjóður EBÍ 2019

Málsnúmer 1903261Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 25. mars 2019 frá Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands varðandi styrktarsjóð EBÍ 2019. Vakin er athygli á að aðildarsveitarfélögum EBÍ er heimilt að senda inn umsókn í sjóðinn sem er vegna sérstakra framfaraverkefna á vegum sveitarfélaganna en ekki vegna almennra rekstrarverkefna þeirra. Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2019.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að kynna málið fyrir sviðsstjórum.

8.Bikarkeppni HRFÍ 23. júní 2019 - Hjólreiðafélagið Drangey

Málsnúmer 1903296Vakta málsnúmer

Málinu vísað frá 64. fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar þann 1. apríl 2019. Lagt fram erindi frá Hjólreiðafélaginu Drangey dagsett 29.03. 2019 varðandi bikarkeppni HRFÍ sem haldin verður í Skagafirði 23. júní 2019. Óskað er eftir að sveitarfélagið greiði götu félagsins við mótshaldið með ýmsum hætti.
Byggðarráð tekur jákvætt í erindið og felur sveitarstjóra að bjóða fulltrúum félagsins á næsta fund ráðsins til viðræðu.

9.Umsagnarbeiðni frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni

Málsnúmer 1903251Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 25. mars 2019 frá nefndasviði Alþingis þar sem velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni (neyslurými), 711. mál.

10.Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Fjárfesting og eftirlit með framvindu 2019

Málsnúmer 1903190Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 18. mars 2019 frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Fram kemur í bréfinu að nefndin hefur ákveðið að taka til umfjöllunar með hvaða hætti sveitarfélög standa að eftirliti og framkvæmd fjárfestinga á árinu 2019.

11.Ársreikningur 2017 NNV

Málsnúmer 1903303Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Náttúrustofu Norðurlands vestra fyrir árið 2017.

12.Hitaveitu- og ljósleiðaraframkvæmdir í Sveitarfélaginu Skagafirði

Málsnúmer 1904042Vakta málsnúmer

Rætt um stöðu hitaveitu- og ljósleiðaraframkvæmda í Sveitarfélaginu Skagafirði.

13.Fundagerðir Náttúrustofu Norðurlands vestra

Málsnúmer 1803230Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Náttúrustofu Norðurlands vestra frá 18. október og 15. nóvember 2018.

14.Fundargerðir stjórnar Náttúrustofu Norðurlands vestra 2019

Málsnúmer 1901008Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Náttúrustofu Norðurlands vestra frá 20. mars 2019.

Fundi slitið - kl. 13:30.