Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

441. fundur 31. júlí 2008 kl. 10:00 - 11:29 í Ráðhúsinu
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Upplýsingar um rekstur og framkv. - jan.-júní 2008

Málsnúmer 0807055Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit um rekstur sveitarfélagsins og stofnana fyrir tímabilið janúar-júní 2008. Einnig upplýsingar um bókaðan framkvæmdakostnað fyrir sama tímabil.

2.Listaverk Jóhannesar Geirs - gjöf

Málsnúmer 0807052Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá Unnari Ingvarssyni þar sem fram kemur vilji ættingja Jóhannesar Geirs Jónssonar listmálara til gefa Listasafni Skagfirðinga málverk, skyssur, ljósmyndir og önnur gögn listamannsins, sem féll frá fyrir nokkrum árum.
Byggðarráð samþykkir að þiggja þessa höfðinglegu gjöf með þökkum. Varðveisla verður í samræmi við óskir gefenda. Menningarsögulega er þetta safn Jóhannesar einstakt. Jóhannes Geir er einn þekktasti listmálari, sem fæddur er og uppalinn í Skagafirði og tengsl hans við Skagafjörð voru mikil. Listasafn Skagfirðinga á nú þegar milli 20-30 myndverk eftir Jóhannes. Byggðarráð samþykkir að veita kr. 500.000 til móttöku og flutnings verkanna í Skagafjörð, af málaflokki 21890.

3.Hitalagnir í Austurgötu 5,7,9,11 og 26, Hofsósi

Málsnúmer 0807049Vakta málsnúmer

Borist hefur tilboð í hitalagnir í fasteignirnar Austurgötu 5,7,9,11 og 26 á Hofsósi frá KÞ-lögnum ehf að upphæð 6.120 þús.kr.
Byggðarráð samþykkir að taka tilboði KÞ-lagna ehf og fjárútlátunum mætt með lántöku.

4.Styrkbeiðni - Útvarp fyrir innflytjendur.

Málsnúmer 0807044Vakta málsnúmer

Lögð fram styrkbeiðni frá Alþjóðahúsinu ehf vegna verkefnis um útlendingaútvarps.
Byggðarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu.

5.Víðigrund 5 Húsfélag - umsókn um rekstrarstyrk

Málsnúmer 0806018Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn frá Húsfélaginu Víðigrund 5 um styrk til greiðslu álagðs fasteignaskatts 2008.
Byggðarráð samþykkir í ljósi fyrirliggjandi gagna og með vísan til reglna sveitarfélagsins að fella niður 70% af álögðum fasteignaskatti ársins 2008.

6.Þjóðlendukröfur

Málsnúmer 0801016Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar kröfur þeirra er telja til eignarréttinda á sama svæði og íslenska ríkið hefur gert þjóðlendukröfu til, þ.e.a.s. vestanvert Norðurland, syðri hluti.

7.Blöndulína 3 - Mat á umhverfisáhrifum

Málsnúmer 0807032Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Landsneti varðandi lagningu 220 kV háspennulínu frá Blöndustöð til Akureyrar (Blöndulína 3) - Mat á umhverfisáhrifum. Einnig lagt fram til kynningar bréf frá landeigendum og ábúendum jarða í Lýtingsstaðahreppi þar sem þeir hafna alfarið framkominni hugmynd um lagningu háspennulínunnar.
Bjarni Jónsson óskar bókað: Taka ber undir eindregin og almenn mótmæli landeigenda á svæðinu en á undirskriftalista þeirra þar sem hafnað er lagningu 220kV háspennulínu segir orðrétt, "Með vísan til meðfylgjandi bréfs er borist hefur undirrituðum eigendum og/eða ábúendum neðangreindra jarða í Skagafirði, er með bréfi þessu hafnað alfarið framkominni hugmynd um lagningu háspennulínu (Blöndulínu 3) á umræddu svæði.
Lagning 220 kV háspennulínu um land sem nýtt er til landbúnaðar, skotveiða og útivistar hefur að öllum líkindum neikvæð áhrif á heilsu manna og dýra. Einnig fylgja henni náttúruspjöll sem rýra landkosti og spilla útsýni. Þetta hefur óhjákvæmilega í för með sér verulega lækkun jarðaverðs.
Þá skal það áréttað að undirrituðum þykir mikill vafi leika á að um eiginlega byggðalínu geti verið að ræða, þar sem nú þegar liggur byggðalína um Skagafjörð.".
Í ljósi eindreginna mótmæla og athugasemda landeigenda er engan veginn við hæfi og óraunhæft af hálfu Landsnets að auglýsa drög að matsáætlun fyrir framkvæmdina eins og það hefur gert. Eðlilegt er að mótmæla þessum vinnubrögðum Landsnets. Þá hefur framkvæmdin ekki verið rædd eða tekin fyrir í sveitarstjórn sem fer með skipulagsvald.

8.Mat á breytingum á nýskipan lögreglu - Áfangaskýrsla til dóms- og kirkjumálaráðherra -

Málsnúmer 0807043Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar áfangaskýrsla um mat á breytingum á nýskipan lögreglu.
Byggðarráð leggur áherslu á að sýslumannsembættinu á Sauðárkróki verði tryggt nægilegt fjármagn til að standa undir nauðsynlegri þjónustu.

9.Rauði kross Íslands - Ársskýrsla 2007

Málsnúmer 0807047Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ársskýrsla Rauða kross Íslands fyrir starfsárið 2007.

Fundi slitið - kl. 11:29.