Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

828. fundur 17. maí 2018 kl. 08:30 - 10:00 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Sigríður Svavarsdóttir varaform.
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir aðalm.
  • Bjarni Jónsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Kauptilboð Austurgata 5

Málsnúmer 1805091Vakta málsnúmer

Lagt fram kauptilboð í fasteignina Austurgata 5, Hofsósi, fastanr. 214-3592, frá Kristínu Einarsdóttur og Alfreð Símonarsyni.
Byggðarráð samþykkir að gera gagntilboð til tilboðsgjafa.

2.Afskriftarbeiðni

Málsnúmer 1805046Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra dagsettur 7. maí 2018 varðandi afskrift á fyrndum þing- og sveitarsjóðsgjöldum að höfuðstólsfjárhæð 634.303 kr. Samtals með dráttarvöxtum 1.116.387 kr.
Byggðarráð samþykkir að afskrifa framangreind gjöld.

3.Aðalfundur Landskerfis bókasafna 2018

Málsnúmer 1805087Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Landskerfi bókasafna, dagsett 9. maí 2018, þar sem boðað er til aðalfundar Landskerfis bókasafna hf. þann 30. maí 2018 í Reykjavík.
Byggðarráð samþykkir að Þórdís Friðbjörnsdóttir, héraðsbókavörður verði fulltrúi Sveitarfélagsins Skagafjarðar á fundinum.

4.Beiðni um umsögn vegna meintrar ólögmætrar stjórnsýslu sveitarfélagsins varðandi samninga við Sýndarveruleika ehf

Málsnúmer 1804017Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti dagsett 8.maí 2018 vegna kvörtunar Sigurjóns Þórðarsonar 23.mars 2018.
Bréfið er svohljóðandi:
Ráðuneytið vísar til bréfs síns frá 27.mars sl. varðandi kvörtun Sigurjóns Þórðarsonar frá 23. s.m. vegna meintrar ólögmætrar stjórnsýslu Sveitarfélagsins Skagafjarðar í tengslum við samninga þess við einkahlutafélagið Sýndarveruleika o.fl. Þá vísar ráðuneytið einnig til umsagnar sem Arnór Halldórsson hdl. sendi f.h. sveitarfélagsins, dags. 20.spríl sl.
Af umsögn lögmannsins má ráða að umrætt mál sé enn í vinnslu í stjórnsýslu sveitarfélagsins og að engar endanlegar ákvarðanir hafi verið teknar um aðkomu þess að starfssemi einkahlutafélagsins Sýndarveruleika eða nýtingu fasteigna að Aðalgötu 21 a og b á Sauðárkróki. Liggur því ekki endanlega fyrir hvernig staðið verður af hálfu sveitarfélagsins að undirbúningi og efni þeirra ákvarðana sem kunna að verða teknar í málinu.
Vegna framkominnar kvörtunar og þeirra opinberu umræðu og umfjöllunar sem mál þetta hefur hlotið vill ráðuneytið þó hvetja til þess að við meðferð þess og afgreiðslu sé tryggt að gætt sé ákvæða sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, um rétt sveitarstjórnarmanna til aðgangs að gögnum og upplýsingum um mál sem til meðferðar eru í stjórnsýslu sveitarfélags. Þá verði jafnframt lagt mat á hvort tilefni sé til sérstakrar upplýsingagjafar til íbúa sveitarfélagsins um málið, sbr. ákvæði X.kafla sveitarstjórnarlaga. Þá bendir ráðuneytið á að fjárhagslegar ákvarðanir sem kunna að verða teknar í málinu skulu samræmast ákvæðum VII.kafla sveitarstjórnarlaga um fjármál sveitarfélaga, m.a. um bindandi áhrif fjárhagsáætlunar(63.gr.) ábyrga meðferð fjármuna (65.gr.), fjárfestingar (66.gr.) og ábyrgðir (69.gr.).
Loks óskar ráðuneytið eftir því að með vísan til 113.gr. sveitarstjórnarlaga að það verði upplýst um niðurstöðu málsins þegar hún liggur fyrir og því jafnframt send öll gögn þess. Mun ráðuneytið í kjölfar þess leggja mat á hvort málið gefi tilefni til formlegrar umfjöllunar um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112.gr. sveitarstjórnarlaga.

Meirihluti byggðarráðs óskar bókað:
Bréfið er í tilefni af kvörtun Sigurjóns Þórðarsonar frá 23.03. 2018 um meinta ólögmæta stjórnsýslu Sveitarfélagsins Skagafjarðar í tengslum við samninga þess við Sýndarveruleika ehf. ofl. Meiri hluti Byggðarráðs deilir skoðunum með ráðuneytinu um mikilvægi þess að þau mál sem um ræðir verði afgreidd í samræmi við sveitarstjórnarlög og leggur áherslu á að áfram verði unnið í viðkomandi samningum með það að markmiði að ljúka þeim svo fljótt sem aðstæður leyfa. Meiri hluti Byggðarráðs telur að skilja beri efni framangreinds bréfs ráðuneytisins frá 08.05. 2018 með þeim hætti að á meðan viðkomandi mál séu enn í vinnslu telji ráðuneytið að ekki séu forsendur fyrir því að það fjalli um þau með þeim hætti sem kvartandi krafðist í bréfi sínu frá 23.03. 2018.
Stefán Vagn Stefánsson B-lista
Sigríður Svavarsdóttir D-lista

Í bréfinu felst alvarleg ádrepa á meirihluta sveitarstjórnar vegna þeirrar leyndarhyggju sem hefur verið um eðli og innihald samninga vegna uppbyggingar sýndarveruleikasýningar, Sýndarveruleika ehf. og varnaðarorð um framhaldið. Ráðuneytið muni fylgjast áfram með því hvernig sveitarstjórn heldur á málinu. Ennfremur tilmæli um að sveitarstjórn tryggi aðgang að gögnum, og upplýsingagjöf til almennings. Þar sem undirritaður hefur ekki séð hvernig meirihlutinn réttlætti leyndina og málsmeðferðina gagnvart ráðuneytinu er settur fyrirvari við innihaldið og eins dregið í efa að nægjanlega hafi verið gerð grein fyrir því að nú þegar sé farið að vinna eftir samningunum að einhverju leiti.
Bjarni Jónsson lista Vg og óháð.

Nú eru átta dagar til sveitarstjórnarkosninga og mörg mál sem eru þess eðlis að þau komi til umræðu í þeirri kosningarbaráttu sem nú stendur yfir. Undirrituð er ekki í framboði og K-listinn er ekki að bjóða fram, því hef ég tekið þá ákvörðun að taka ekki afstöðu með þeim málum sem umdeild eru og sit því hjá við afgreiðslu málsins.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir K - lista

5.Fyrirspurn um framkvæmdir við Aðalgötu 21a

Málsnúmer 1804169Vakta málsnúmer

Fram lögð fyrirspurn til formanns byggðarráðs:
Hvað nema þeir reikningar hárri upphæð sem Sveitarfélaginu Skagafirði hafa borist á árinu vegna byggingarstjórnar, verkstýringar og framkvæmda við Aðalgötu 21a (fastanr. 213-1147) og Aðalgötu 21b, (fastanr. 213-1148) á Sauðárkróki og hvað hefur verið greitt fyrir þessi verk til þessa?
Bjarni Jónsson, VG og óháðum
Sigurjón Þórðarson K- lista

Samkvæmt bókhaldi sveitarfélagsins er búið að bóka eftirfarandi kostnað á verkið á árinu 2018:
18.484 mkr. vegna framkvæmda og 3.062 mkr vegna verkfræði- og arkitektaþjónustu.

6.Staða frárennslismála í þéttbýlinu heima á Hólum í Hjaltadal, aðgerðir og tímaáætlun fyrir úrbætur

Málsnúmer 1805108Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Bjarna Jónssyni Vg-og óháðra.

Á byggðarráðsfundi þann 15.mars sl. var eftirfarandi bókað:
"Lagt fram bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu dagsett 9. mars 2018, þar sem óskað er eftir að sveitarfélagið tilnefni fulltrúa í starfshóp um fráveitumál á Hólum í Hjaltadal.
Byggðarráð samþykkir að tilnefna Indriða Þór Einarsson sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs og Ingvar Pál Ingvarsson verkefnastjóra á veitu- og framkvæmdasvið í starfshópinn."

Byggðarráð leggur áherslu á að hraða þessu máli eins og kostur er.

7.Samstarfssamningur um uppbyggingu sýndarveruleikasýningar á Sauðárkróki

Málsnúmer 1805107Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðu málsins.

8.Landsþing SÍS 2018 á Akureyri

Málsnúmer 1805036Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett 4.maí 2018, þar sem boðað er til landsþings sambandsins. Þingið verður haldið á Akureyri dagana 26.-28. september 2018.

9.Ársreikningur 2017 Eyvindarstaðaheiði ehf

Málsnúmer 1805101Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar ársreikningur Eyvindastaðarheiðar ehf fyrir árið 2017.

Fundi slitið - kl. 10:00.