Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

467. fundur 19. febrúar 2009 kl. 10:00 - 12:22 í Ráðhúsi, Skr.
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Unglingalandsmót UMFÍ 2009 - umsókn

Málsnúmer 0902023Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Ungmennasambandi Skagafjarðar þar sem óskað er eftir stuðningi sveitarfélagsins við umsókn sambandsins um að halda Unglingalandsmót UMFÍ 2009 á Sauðárkróki. Einnig lögð fram bókun félags- og tómstundanefndar frá 137. fundi þar sem nefndin styður umsókn sambandsins.
Sveitarstjóri hefur þegar sent bréf fyrir hönd sveitarfélagsins til stuðnings umsókn UMSS til að halda unglingalandsmótið. Byggðarráð lýsir yfir ánægju með að stjórn UMFÍ hafi ákveðið að halda mótið á Sauðárkróki nú í sumar. Byggðarráð samþykkir að íþróttafulltrúi sveitarfélagsins Sævar Pétursson taki sæti í landsmótsnefnd fyrir hönd þess.

2.Bygging leikskóla við Árkíl 2 á Sauðárkróki

Málsnúmer 0808037Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samkomulagi við Kaupfélag Skagfirðinga um efniskaup í síðari áfanga leikskólabyggingar við Árkíl, með fyrirvara um fjármögnun verksins. Frestað erindi frá 466. fundi byggðarráðs.
Byggðarráð samþykkir samkomulagið með fyrirvara um fjármögnun verksins. Byggðarráð telur mikilvægt að sem víðtækast samstarf verði um byggingu hússins og felur sveitarstjóra að vinna að því og ræða við hlutaðeigandi aðila.
Sigríður Björnsdóttir óskar bókað að hún sitji hjá við afgreiðsluna.
Bjarni Jónsson leggur fram svohljóðandi bókun: "Ekki er komið að þeim tímapunkti að gera samkomulag sem þetta í ljósi þess að verkið hefur ekki enn verið fjármagnað og gengið úr skugga um fjárhagslega getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdinni. Það er jákvætt að beina viðskiptum eins mikið og kostur er í heimabyggð. Hins vegar er vandasamt að tryggja að ávallt verði hagkvæmustu kaup í boði. Ekki er ljóst að samkomulag þetta taki fyllilega á því."
Bókun meirihluta byggðaráðs:
"Samkomulaginu og ályktun byggðaráðs um mikilvægi þess að samstarf verði um bygginguna er ætlað að undirstrika vilja til að verja atvinnulíf í Skagafirði og gert með fyrirvara um fjármögnun verkefninsins. Það er því ekkert athugavert við málsmeðferðina enda vel þekkt að samþykktir sem þessar séu gerðar hjá ríki og öðrum opinberum aðilum."

3.Tillaga vegna byggingar leikskóla við Árkíl, Skr.

Málsnúmer 0902063Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga Bjarna Jónssonar, Vg vegna byggingar leikskóla við Árkíl, Sauðárkróki.
"Í Sveitarstjórnarlögum 65. gr. segir eftirfarandi ?Hyggist sveitarstjórn ráðast í fjárfestingu og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í henni nemur hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna yfirstandandi reikningsárs er skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlunina, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á fyrirhuguðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð, sé um hann að ræða. Jafnframt skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist þriggja ára áætlun sveitarfélagsins.? Þann 5. febrúar þegar þetta er ritað hefur ekki enn verið lögð fram eða óskað eftir slíkri umsögn fyrir sveitarfélagið vegna leikskólabyggingar við Árkíl. Lagt er til að það verði gert hið fyrsta svo slík greinargerð geti legið fyrir áður en ráðist verður í frekari skuldbindingar vegna verksins og til þess að vöntun á slíkri úttekt verði ekki til að tefja verkið að öðrum skilyrðum uppfylltum.
Bjarni Jónsson, VG"

Tillaga Bjarna er felld með tveimur atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Bókun lögð fram af meirihluta byggðarráðs: "Tillaga fulltrúa Vinstri grænna er ótímabær. Ljóst er að lánakjör þau sem sveitarfélagið væntanlega fær mun hafa afgerandi áhrif á heildarkostnað verksins og um leið á umsögn þá sem kveðið er á um í 65.gr. sveitarstjórnarlaga. Þau lánakjör liggja ekki fyrir og því mjög hæpið að leggja slíka umsögn fyrir á þessum tímapunkti. Fyrir liggur ákvörðun meirihlutans um að kalla eftir umsögn þegar fjármögnun, lánakjör og heildarkostnaður liggur fyrir. Þá er rétt að taka fram að slík umsögn er kostnaðarsöm og því ekki rétt að leggja í slíkan kostnað fyrr en fyrir liggur hvernig fjármögnun verður háttað.
Meirihluti byggðaráðs telur því ekki tímabært að gera slíka úttekt."
Bjarni Jónsson leggur fram svohljóðandi bókun: "Úttekt sem þessi þolir ekki frekari bið og er forsenda fyrir frekari undirbúningi framkvæmda. Þessi meðferð tillögunnar kemur því á óvart og getur jafnvel tafið fyrir verkinu. Að fenginni úttekt er hægt að meta og taka ákvarðanir um næstu skref. Meirihlutinn hefur ákveðið að láta vaða á súðum í þessu máli líkt og ýmsum öðrum."

4.Aðalgata 22b - húseign Leikfélags Sauðárkróks

Málsnúmer 0902054Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um að eignasjóður leiti eftir að kaupa fasteignina Aðalgötu 22b af Leikfélagi Sauðárkróks vegna skipulagsmála.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að vinna að málinu og umsamið kaupverð tekið af fjárfestingalið ársins 2008.

5.Beiðni um að fá Sólgarðaskóla leigðan 2009

Málsnúmer 0902028Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Maríu G. Guðfinnsdóttur og Erni Þórarinssyni þar sem óskað er eftir að fá Sólgarðaskóla leigðan undir ferðaþjónustu tímabilið 15. júní - 15. ágúst 2009. Einnig óskað eftir skólastjórahúsi á Sólgörðum til leigu í júlí og ágústmánuði 2009 vegna ferðaþjónustunnar.
Byggðarráð samþykkir að leigja og felur sveitarstjóra að ganga frá samningum á svipuðum nótum og undanfarin ár.

6.Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga v.2008

Málsnúmer 0902031Vakta málsnúmer

Lagt fram fundarboð vegna aðalfundar Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. 2009, sem haldinn verður 13. mars 2009 í Reykjavík.
Byggðarráð samþykkir að sveitarstjóri fari með atkvæðisrétt sveitarfélagsins.

7.Kjörstjórn Sauðárkróks - úrsögn

Málsnúmer 0902011Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Lovísu Símonardóttur þar sem hún segir sig frá störfum í kjörstjórn kjördeildar á Sauðárkróki.

8.Landssamtök landeigenda aðalf.boð 2009

Málsnúmer 0902014Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar aðalfundarboð Landssamtaka landeigenda á Íslandi. Fundurinn verður haldinn í Reykjavík þann 20. febrúar 2009.

9.Íþróttahús við sundlaug - Hofsbót

Málsnúmer 0805090Vakta málsnúmer

Á fundinn komu fulltrúar frá Hofsbót - styrktarsjóði, Bjarni Þórisson, Valgeir Þorvaldsson og Einar Þorvaldsson. Kynntu þeir hugmyndir um byggingu íþróttahúss sem ætlunin er tengja við sundlaugarbyggingu á Hofsósi. Einnig kom á fundinn Jón Örn Berndsen sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs. Véku þeir síðan af fundi.

10.Fjárhagsáætlun sveitarfélaga f. árið 2009

Málsnúmer 0811005Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Menningarráði Norðurlands vestra þar sem fram kemur hver framlög sveitarfélaganna verða á árinu 2009. Áætlað er að Sveitarfélagið Skagafjörður greiði kr. 5.509.219 sem er 55,13% af framlagi sveitarfélaganna.

Fundi slitið - kl. 12:22.