Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

396. fundur 09. júlí 2007
Byggðarráð Skagafjarðar
                          Fundur  396 - 9. júlí 2007
 
Ár 2007, mánudaginn 9. júlí kl. 09:00, kom Byggðarráð Skagafjarðar saman til fundar í Ráðhúsinu á Sauðárkróki.
 
Fundinn sátu:
Gunnar Bragi Sveinsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Páll Dagbjartsson og Gísli Árnason áheyrnarfulltrúi.
Auk þess sat fundinn Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri
 
Fundarritari var Engilráð Margrét Sigurðardóttir
 
Erindi til afgreiðslu
 
1.
Byggðasaga Skagafjarðar - útgáfusamningur
 
 
Mál nr. SV070371
 
Samningur til styrktar útgáfu á Byggðasögu Skagafjarðar lagður fram til staðfestingar, en hann er gerður í framhaldi af stofnsamningi frá 1995, sem rann út í árslok 1998.
Að samningnum standa: Sveitarfél. Skagafj., Akrahreppur, Kaupfél. Skagf., Sögufél. Skagfj. og Leiðbeiningamiðstöðin ehf.
Byggðarráð samþykkir samninginn samhljóða.
 
2.
Til umsagnar - Gestir og gangandi rekstrarleyfi
 
 
Mál nr. SV070379
 
Lagt fram bréf frá Sýslumanninum á Sauðárkróki, dags. 05.07.07, þar sem óskað er umsagnar um endurnýjun rekstrarleyfis fyrir Gesti og gangandi ehf, kt. 701002-2370, v. veitingastaðarins Undir Byrðunni, Hólum, Hjaltadal.
Byggðarráð samþykkir erindið.
 
3.
Skerðing aflaheimilda
 
 
Mál nr. SV070381
 
Jón E. Friðriksson frá FISK Seafood kom á fundinn til viðræðna. Vék síðan af fundi.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða á fundinum.:   


„Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir þungum áhyggjum vegna fyrirsjáanlegra neikvæðra áhrifa niðurskurðar aflaheimilda í þorski á skagfirskt samfélag. Niðurskurður aflaheimilda í þorski nemur til að mynda hjá Fisk-Seafood um 2000 tonnum og ásamt öðrum niðurskurði er fjárhagslegur samdráttur nærri 750 milljónum króna. Þar af nemur lækkun launakostnaðar u.þ.b. 245 milljónum króna. Þá er ekki tekið tillit til 800 tonna af þorskkvóta sem leigður hefur verið til fyrirtækisins en búast má við að leiga á kvóta dragist saman eða verði kostnaðarsamari. Við þetta bætist tap smábátaútgerðar og annarra aðila í sjávarútvegi á svæðinu ásamt afleiddum áhrifum á samfélagið allt sem augljóst er að verða mikil.
Fjárhagslegt tap samfélagsins er því verulegt og áhrifa mun gæta langt umfram greinar sjávarútvegsins.  Neikvæð þróun hefur verið í hagvexti á Norðurlandi vestra undanfarin ár meðan jákvæður hagvöxtur hefur verið á landsvísu. Af þeim ástæðum og vegna niðurskurðar aflaheimilda verður að leita allra leiða til að styrkja grunnstoðir atvinnulífs í byggðum þar sem áhrif skerðingarinnar eru mikil eins og hér er raunin.

Byggðaráð leggur því áherslu á að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar nái til Skagafjarðar og leggur eftirfarandi tillögur fram sem mögulegan hluta aðgerða ríkisvaldsins:

Menntamál:
1.      Fjárhagur Háskólans á Hólum verði tryggður til framtíðar.
2.      Fjárveitingar til Versins-vísindagarða verði tryggðar þannig að unnt verði að byggja upp öflugt vísinda og menntasamfélag.
3.      Komið verði á almennu háskólanámi í Skagafirði, s.s. á sviði rekstrar-, laga, viðskipta- og hjúkrunarfræða og í því sambandi leitað eftir samstarfi við Háskólann að Hólum og aðra háskóla.
4.      Sérstöku átaki til eflingar verknáms við verknámsdeild Fjölbrautskólans verði hrundið af stað.
5.      Efld verði aðstaða fjarnema í framhalds- og háskólanámi í Skagafirði.
6.      Framlög til starfsþjálfunar, endur- og símenntunar verði aukin verulega.    


Nýsköpun:
7.      Gagnaveita Skagafjarðar verði styrkt sérstaklega til að háhraðanetvæða Skagafjörð.
8.      Fjárfestingastofu verði falið að finna kosti til nýsköpunar í atvinnulífi í Skagafirði.
9.      Starfsemi Hátækniseturs Íslands verði tryggð til framtíðar með auknu fjármagni, t.d. með samningum við einstök ráðuneyti.
10.  Byggð verði upp aðstaða til kvikmyndagerðar og eftirvinnslu kvikmynda.
11.  Gerð verði hagkvæmniathugun strax á möguleikum til starfrækslu netþjónabús í Skagafirði. Reynist hagkvæmniathugun jákvæð verði uppbygging ákveðin og henni hraðað.


Heilbrigðismál:
12.  Starfsemi og sérhæfing Heilbrigðisstofnunarinnar verði efld með fjáveitingum t.d. til endurhæfingar og heilsueflingar.


Byggðastofnun:
13.  Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að Byggðastofnun muni gegna lykilhlutverki í framkvæmd mótvægisaðgerða þeirra sem gripið verður til.  Byggðaráð Skagafjarðar væntir þess í þessu sambandi að nauðsynleg efling á starfsemi Byggðastofnunar leiði til fjölgunar starfa hjá stofnuninni á Sauðárkróki.  Bent er á mikilvægi þess að Byggðastofnun auki verulega stuðning við atvinnuþróun hverskonar á landsbyggðinni m.a. með áherslu á  atvinnumöguleika kvenna. Mikilvægt er að möguleiki Byggðastofnunar til lánveitinga á hagstæðum kjörum og veitingu þolinmóðs fjár til áhættufjárfestinga verði tryggður.


Opinber störf:
14.  Starfsemi Veiðimálstofnunar verði flutt til Skagafjarðar en Norðurlandsdeild stofnunarinnar er nú staðsett í Skagafirði.
15.  Opinberar stofnanir er tengjast starfsemi Versins flytji þangað starfsemi sína.
16.  Starfsemi Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki verði efld með fjölgun starfa.
17.  Höfuðstöðvar Vinnumálastofnunar verði fluttar til Sauðárkróks.
18.  Störf á vegum Tryggingastofnunar verði flutt til Sýslumannsembættisins í Skagafirði.
19.  Komið verði fót embætti landsráðunautar í Fiskeldi í Skagafirði.


Iðnaður:
20.  Fjárfestingastofu í samráði við Sveitarfélagið Skagafjörð verði falið að kanna kosti þess að framleiða Basalttrefjar í Skagafirði. Því verkefni verði sérstaklega hraðað
21.  Flýtt verði athugun á kostum þess að framleiða Koltrefjar.


Ferðaþjónusta:
22.  Ferðaþjónusta í Skagafirði verði efld með svæðisbundnum styrkjum.


Veiðigjald:
23.  Ígildi innheimts veiðigjalds fyrirtækja í Skagafirði frá því að innheimta hófst renni til sveitarfélagsins Skagafjarðar til eflingar atvinnulífs.


Samgöngumál:
24.  Flugsamgöngur til Sauðárkróks verði tryggðar með tilraunaverkefni þar sem ferðum er fjölgað og kannað hvort aukin tíðni leiði til aukinnar nýtingar og þar með hagkvæmni og sjálfbærni.
25.  Flýtt verði áformum samgönguáætlunar um úrbætur í vegamálum í Skagafirði, sérstaklega er lýtur að endurbótum á safn- og tengivegum.  Strax verði ráðist í sérstakt átak í uppbyggingu reiðvega.


Orkumál:
26.  Styrkir til niðurgreiðslna vegna nýrra hitaveitna verði nú þegar stórauknir.
Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar óskar jafnframt eftir því að byggðamálaráðherra og ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar og/eða aðrir ráðherrar eftir atvikum komi til fundar við Sveitarstjórn Skagafjarðar um ofangreindar tillögur hið allra fyrsta. Byggðaráð leggur ríka áherslu á nauðsyn þess að gripið verði til mótvægisaðgerða strax í ljósi alvarleika málsins.“

 
 
4.
Útboð á símaþjónustu - samanburður tilboða
 
 
Mál nr. SV070372
 
Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri Markaðs- og þróunarsviðs kom nú til fundar og skýrði framlagt minnisblað sitt um samanburð á tilboðum í símaþjónustu fyrir Sveitarfél. Skagafjörð. Vék hann svo af fundi.
Byggðarráð samþykkir að fara að tillögu um að taka tilboði Vodafone um alla símaþjónustu fyrir sveitarfélagið frá og með næstu áramótum.
 
 
5.
Hátæknisetur
 
 
Mál nr. SV070378
 
Skipa þarf fulltrúa í stjórn Hátækniseturs Íslands og einn til vara.
 
Á fundi Sveitarstjórnar Skagafj. 7. júní 2007 voru skipaðir tveir aðalfulltrúar og tveir varamenn í stjórn Hátækniseturs Íslands. Samkvæmt samþykktum Hátækniseturs skal sveitarstjórn skipa 3 fulltrúa og 3 til vara og því er Gunnar Bragi Sveinsson skipaður aðalmaður og Einar E. Einarsson til vara. Jafnframt er Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir skipuð varamaður Snorra Styrkárssonar.
 
Aðalfulltrúar sveitarfélagsins í stjórn Hátækniseturs Íslands ses eru því:                    
Snorri Styrkársson, Gunnar Bragi Sveinsson og Gísli Sigurðsson
Til vara Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Einar E. Einarsson og Gísli Árnason.
 
 
6.
Fundargerðir nefnda 25. júní - 6. júlí
 

 
Mál nr. SV070374
a)  Fundargerð Atvinnu- og ferðamálanefndar 2. júlí 2007, 5 dagskrárliðir.
b)  Fundargerð Menningar- og kynningarnefndar 20. júní 2007, 4 dagskrárliðir.
c)  Fundargerð Skipulags- og byggingarnefndar 5. júlí 2007, 19 dagskrárliðir.
Byggðarráð samþykkir þessar fundargerðir samhljóða.

 
Lagt fram til kynningar
 
7.
Námskeið fyrir sveitarfélög um samningsstjórnun
 

 
Mál nr. SV070373
Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarfélaga þar sem kynnt er námskeið fyrir sveitarfélög um samningsstjórnun 13.- 14. ágúst n.k.
 
8.
Mælingar á veðri við Hofsjökul
 

 
Mál nr. SV070375
Lagt fram bréf Haraldar Ólafssonar, prófessors í veðurfræði, dags. 29.06.07, þar sem hann kynnir áætlun um mælingar á veðri við Hofsjökul í sumar.
 
9.
Holtsmúli - tilk. um sölu
 

 
Mál nr. SV070376
Lögð fram tilkynning dagsett 28. júní 2007 frá Ágústi Guðmundssyni, lögg. fasteignasala um sölu á jörðinni Holtsmúla í Skagafirði, landnr. 145 981.  Seljendur eru Ragnar Árnason og Ingibjörg Sigurðardóttir. Kaupendur:  Eyþór Sigurðsson, Ingibjörg Jónsdóttir og Sigurður D. Skarphéðinsson.
 
10.
Fundargerðir 25. júní - 6. júlí - til kynningar
 

 
Mál nr. SV070377
a)  Fundargerð Stjórnar Menningarseturs Skagf. í Varmahlíð 15. júní 2007.
     Dagskrárliðir eru 3.
b)  Fundargerð Heilbrigðisnefndar Nl.v. 20.06.07, 2 dagskrárliðir.
c)  Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfél. dags. 22.06.07 í 25 liðum.

 
11.
Ársskýrsla Brunamálastofnunar 2006
 

 
Mál nr. SV070380
- Skýrslan liggur frammi á fundinum.

Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt.
 
Fundi slitið kl. 11:37.