Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

378. fundur 06. febrúar 2007
Byggðarráð Skagafjarðar
Fundur  378 - 6. febrúar 2007
 
Ár 2007, þriðjudaginn 6. febrúar kl. 09:00, kom Byggðarráð Skagafjarðar saman til fundar í Ráðhúsinu á Sauðárkróki.
           
Fundinn sátu:      
Bjarni Egilsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Bjarni Jónsson áheyrnarfulltrúi.
Auk þess sátu fundinn Margeir Friðriksson og Guðmundur Guðlaugsson sveitarstjóri.
 
Fundarritari var Margeir Friðriksson
 
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna.
 
Erindi til afgreiðslu
 
1.
Skagafjarðarveitur ehf.
 
 
Mál nr. SV070067
 
Stjórnarmenn Skagafjarðarveitna ehf. mættu á fund ráðsins ásamt veitustjóra og kynntu fyrirhugaðar framkvæmdir á árnu 2007 og áætlun um framkvæmdir árin 2008-2010.  Einnig var rætt um starfsemi veitunnar almennt.  Viku þeir svo af fundi.
 
 
2.
Erindi frá menningar- og kynningarnefnd - ráðning starfsmanns
 
 
Mál nr. SV070079
 
Á fundi menningar- og kynningarnefndar þann 22. janúar s.l. var samþykkt ósk safnvarðar Byggðasafns Skagafjarðar um ráðningu starfsmanns til safnsins með fyrirvara um staðfestingu byggðaráðs, enda gert ráð fyrir kostnaði í samþykktri fjárhagsáætlun ársins.  Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs kom á fundinn til að upplýsa fundarmenn.  Vék hann svo af fundi.
Byggðarráð staðfestir heimild til ráðningar starfsmanns til Byggðasafns Skagfirðinga í hálft stöðugildi.
 
 
3.
Frá Umhverfis- og samgöngunefnd - Byggðarráð
 
 
Mál nr. SV070080
 
Umhverfis- og samgöngunefnd hefur yfirfarið samninga við Rarik um orkukaup og samþykkti þá fyrir sitt leyti á fundi sínum þann 29. jan. s.l. og vísaði til byggðaráðs.  Samningar lagðir fram og kynntir á fundinum.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að skoða þessi mál nánar.
 
 
4.
Íþróttavöllur - beiðni um kaup á stúku
 
 
Mál nr. SV070076
 
Borist hefur erindi frá knattspyrnudeild Tindastóls þar sem  þess er farið á leit að sveitarfélagið kaupi af deildinni áhorfendastúku þá er Ungmennafélagið Tindastóll óskaði eftir að fá að byggja á sínum tíma við Sauðárkróksvöll.
Byggðarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu.
 
 
5.
Stjórn fiskveiða - frumvarp til breytinga á lögum
 
 
Mál nr. SV070077
 
Lagt fram erindi frá Sjávarútvegsnefnd Alþingis þar sem óskað er eftir umsögn um frumvarp til breytinga á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Lýtur breytingin að því að kveða með skýrum hætti á um að í skilningi laga á sviði fiskveiðistjórnar teljist það vera veiðar í atvinnuskyni þegar eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim er veiðarnar stunda.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við frumvarpið.
 
 
6.
Stjórn fiskveiða - frumvarp til breytinga á lögum (2)
 
 
Mál nr. SV070078
 
Lagt fram erindi frá Sjávarútvegsnefnd Alþingis þar sem óskað er eftir umsögn um frumvarp til breytinga á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Um er að ræða frumvarp sjávarútvegsráðuneytis sem er ætlað að skýra reglur og framkvæmd við úthlutun byggðakvóta. Miða breytingar m.a að því að færa úthlutunarvald frá ráðuneytinu til sveitarfélaga og úrskurðarvald á kærustigi til sérstakrar úrskurðarnefndar.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við frumvarpið að öðru leyti en því að óskað er eftir að reglur sem ráðuneytið gefur út verði gerðar það skýrar að sveitarfélög verði ekki í vandræðum með að úthluta eftir þeim.
 
Lagt fram
 
7.
Ályktun um samgöngumál
 
 
Mál nr. SV070082
 
#GLNý samgönguáætlun er nú til umræðu. Áætlunin er m.a. tæki stjórnvalda til að hafa áhrif á byggðaþróun og almenna hagsæld íbúa ásamt því að auka öryggi vegfarenda. Byggðarráð sveitarfélagins Skagafjarðar bendir á nýútkomna skýrslu Byggðastofnunar þar sem fram kemur að hagsvöxtur á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum er neikvæður.  Því skorar byggðarráð á ríkisstjórn og alþingi að nota m.a. samgönguáætlun til að snúa þessari þróun við. Byggðaráð sveitarfélagsins Skagafjarðar leggur áherslu á:
 
·         Að lokið sé við Þverárfjallsveg á þessu ári.
·         Að vegur að skíðasvæði verði lagður slitlagi um leið og Þverárfjallsvegur enda hagkvæmni af því mikil og aukin tækifæri til eflingar ferðamennsku.
·         Að auknu fé verði varið til uppbyggingar safn og tengivega.  Lögð verði áhersla á að leggja bundið slitlag á tengivegi.
·         Að fé til nauðsynlegra hafnarbóta verði tryggt.
·         Að fé verði veitt til hagkvæmniathugunar á jarðgöngum milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar.
·         Að Alexandersflugvöllur verði skilgreindur og útbúinn sem vara- og millilandaflugvöllur.
·         Að almenningsflugsamgöngur til Skagafjarðar verði bættar og tryggðar. Flug-samgöngur eru mikilvægt byggðamál m.a. vegna tækfæra sem felast í eflingu opinberra starfa.
·         Að Skagastrandarvegur verði endurnýjaður.
·         Að Siglufjarðarvegur frá Stafá að Ketilási verði endurnýjaður.
 
Þá leggur byggðarráð áherslu á að þjóðvegur 1 liggi áfram um þéttbýlisstaði á Norðurlandi vestra þar sem byggðarleg sjónarmið vega þyngra en stytting vegarins. Þá mælir sveitarstjórnin með að gerð Sundabrautar og breikkun Vesturlandsvegar verði hafin hið fyrsta.
 
Byggðarráð hvetur til þess að kostir þess að Alexandersflugvöllur verði gerður að vara- og millilandaflugvelli fyrir Norðurland verði kannaðir til hlítar. Aðstæður til flugs eru óvíða betri og völlurinn vel búinn m.a. blindflugstækjum. Fjarlægðin til Akureyrar styttist með bættum vegasamgöngum og því ekkert til fyrirstöðu að Alexandersflugvöllur hafi þetta hlutverk. Öryggi, hagkvæmni og byggðaleg sjónarmið hljóta að vega þungt í ákvörðun sem þessari.#GL
 
Byggðarráð samþykkir ályktunina.
 
Lagt fram til kynningar
 
8.
Héraðsdalur II spilda - tilk. um sölu
 
 
Mál nr. SV070081
 
Lagt fram til kynningar bréf frá sýslumanninum á Sauðárkróki, dagsett 30. janúar 2007 þar sem tilkynnt er um sölu á landspildu úr jörðinni Héraðsdalur II, landnr. 210329/172590.  Seljandi er Quality á Íslandi ehf,  Kaupandi er B. Pálsson ehf.
 
Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt.
 
Fundi slitið kl. 10:40
Margeir Friðriksson, ritari fundargerðar