Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

189. fundur 04. september 2002
Byggðarráð  Skagafjarðar
Fundur 189 - 04.09. 2002

 
Ár 2002, miðvikudaginn 4. september, kom byggðarráð saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagins í Ráðhúsinu kl. 1000.
Mættir voru: Gísli Gunnarsson, Bjarni Jónsson og Gunnar Bragi Sveinsson auk sveitarstjóra Ársæls Guðmundssonar.
 
DAGSKRÁ:
                 
1.            Yfirlit yfir rekstur málaflokka miðað við fjárhagsáætlun
                 
2.            Beiðni um niðurgreiðslu vegna “au pair”
                 
3.            Farskólinn – frágangur kennslurýmis
                 
4.            Erindi varðandi Reykjarhólsskóg
                 
5.            Erindi vegna hækkunar á raforkuverði
                 
6.            Tillaga um sölu á hlut Sveitarfélagsins Skagafjarðar í Norðlenskri orku
 
AFGREIÐSLUR: 
1.      Margeir Friðriksson fjármálastjóri kynnti yfirlit yfir stöðu málaflokka í samanburði við fjárhagsáætlun pr. 31.07. 2002.
Samþykkt að fjármálastjóri hafi samband við forsvarsmenn málaflokka og óski eftir upplýsingum um málaflokkinn og áætlaða stöðu í árslok 2002. 
2.      Lagt fram bréf frá Sveini Brynjari Pálmasyni og Kristínu Friðjónsdóttur, dagsett 29. ágúst 2002, þar sem þau óska eftir niðurgreiðslu á launum “au pair” starfsmanns, sem ráðinn verður til barnagæslu á heimili þeirra.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til menningar- og fræðslunefndar. 
3.      Sveitarstjóri kynnti framkvæmdir í Faxatorgi 1 vegna kennslurýmis fyrir Farskóla Noðurlands vestra. 
4.      Lagt fram bréf frá Helga Gunnarssyni og Magnúsi Ingvarssyni, dagsett 16. ágúst 2002, þar sem óskað er eftir viðræðum við fulltrúa sveitarfélagsins um framkvæmd og skipulag í og við Reykjarhólsskóg.
Byggðarráð samþykkir að óska eftir fundi með bréfriturum um málið. 
5.      Lagt fram bréf frá Hring hf – Atvinnuþróunarfélagi Skagafjarðar, dagsett 27. ágúst 2002, varðandi raforkuhækkun til Sauðárkróksbakarís eftir sölu Rafveitu Sauðárkróks.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til atvinnu- og ferðamálanefndar og felur  nefndinni að gera almennan samanburð á raforkukostnaði fyrirtækja fyrir og eftir sölu Rafveitu Sauðárkróks. 
6.      Lögð fram eftirfarandi tillaga:
 “Byggðarráð felur sveitarstjóra að undirbúa sölu á hlut Sveitarfélagsins Skagafjarðar í Norðlenskri orku ehf. 
Greinargerð:
Árið 1998 gerðist Rafveita Sauðárkróks aðili að Norðlenskri orku ehf. með samþykki sveitarstjórnar.  Tilgangur félagsins er að vinna að virkjunarmálum á Norðurlandi vestra, og talið var eðlilegt að Rafveita Sauðárkróks kæmi að slíku félagi.  Um síðustu áramót seldi þáverandi meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar Rafveitu Sauðárkróks til Rafmagnsveitna ríkisins, og  þar með hefur RARIK yfirtekið rafmagnsdreifingu í öllu sveitarfélaginu.
Með sölu á Rafveitu Sauðárkróks breyttust forsendur fyrir aðkomu Sveitarfélagsins Skagafjarðar að Norðlenskri orku.  Ljóst er að það er ekki í verkahring sveitarstjórnar að byggja virkjanir og sveitarsjóður getur engan veginn staðið undir þeim fjárhagsskuldbindingum sem slíkum framkvæmdum fylgja.  Í skýrslu sem verkfræðistofan AFL vann fyrir sveitarfélagið árið 1999 um hagkvæmni þess að sameina veitustofnanir sveitarfélagsins, er bent á, að vinnsla raforku verði samkeppnisgrein í framtíðinni.  Tekið er sérstaklega fram að mun meiri áhætta sé í þeirri starfsemi en í dreifingu raforku og spurning hvort nokkur ástæða sé fyrir sveitarfélög að standa í slíkri starfsemi.  Ekki verður séð að Sveitarfélagið Skagafjörður eða íbúar þess hagnist á því að sveitarfélagið verði beinn aðili að virkjunarframkvæmdum, - síður en svo.  Iðnaðaruppbygging í Skagafirði er ekki háð því að sveitarfélagið standi í virkjunarframkvæmdum sem mundu skuldbinda sveitarsjóð um hundruð milljóna króna.
Í ljósi þessa er tillagan lögð fram. 
                                          Gísli Gunnarsson, forseti sveitarstjórnar
                                         
Ársæll Guðmundsson, sveitarstjóri” 

 “Undirritaður leggur fram svo hljóðandi breytingartillögu: 
“Byggðaráð felur sveitarstjóra að undirbúa sölu á hlut Sveitarfélagsins Skagafjarðar í Norðlenskri orku ehf, til Skagafjarðarveitna”. 
Greinargerð:
Í Skagafirði er rekið öflugt orkufyritæki sem er Skagafjarðarveitur. Möguleikar Skagafjarðarveitna til eflast og styrkjast sem orkuframleiðandi og dreifandi eru gríðarlegir. Þeir möguleikar felast fyrst og fremst í virkjun fallvatna Skagafjarðar og frekari vinnslu jarðhita. Þátttaka Skagafjarðarveitna í Norðlenskri orku efh. tryggir Skagfirðingum áhrif á nýtingu orkunnar og samrýmist á allan hátt markmiðum og hlutverki fyrirtækisins, að framleiða og dreifa orku á til notenda. Sýnt hefur verið framá hagkvæmni virkjunarinnar og því má telja að fjárfestingin skili eigendum sínum góðum arði. Þá samrýmist tillaga þessi að öllu leiti hugmyndum Sjálfstæðisflokks um að til verði eitt stórt orkufyrirtæki í Skagafirði sem framleiða og dreifa myndi vatns og raforku. 
Gunnar Bragi Sveinsson.” 
Breytingartillaga Gunnars Braga var borin upp til atkvæða og var hún felld með tveimur atkvæðum gegn einu.  Nú var borin upp tillaga Gísla Gunnarssonar og Ársæls Guðmundssonar og hún samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu. 
Gunnar Bragi Sveinsson óskar bókað:
“Undirritaður fulltrúi Framsóknarflokksins í Byggðaráði greiðir atkvæði gegn
tillögu meirihluta Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs og Sjálfstæðisflokks um sölu á hlut Sveitarfélagsins Skagafjarðar í Norðlenskri orku ehf. 

Greinargerð:
Sala á Rafveitu Sauðárkróks breytir engu um aðkomu Sveitarfélagsins að Norðlenskri orku ehf.  Skagafjarðarveitur eru öflugt orkufyrirtæki sem efla má ennfrekar með því t.d. að færa eignarhlut Sveitarsjóðs í Norðlenskri orku ehf yfir í það fyrirtæki. Þá eru það ekki góð skilaboð sem meirihlutinn sendir Rafmagnsveitum Ríkisins (RARIK) með þessari tillögu. En Skagafjörður er orðinn stærsta viðskiptasvæði RARIK. Með sölu á hlutnum má líta svo á að meirihlutinn sé að hafna frekara samstarfi við fyrirtækið sem þó hefur lýst vilja til að efla starfsemi sína í Skagafirði m.a. með fjölgun starfa. 
Sveitarfélagið Skagafjörður á alla möguleika á að byggjast áfram upp sem ákjósanlegur staður til búsetu. Sveitarstjórnarmenn í Skagafirði vita að margir félagar þeirra í öðrum sveitarstjórnum horfa öfundaraugum á þá staðreynd að heimamenn, Skagfirðingar sjálfir, hafa möguleika á að hafa áhrif á hvernig orka virkjunarinnar verður nýtt. Því verður það að teljast með ólíkindum að menn ætli að henda frá sér því tækifæri sem felst í þátttöku í Norðlenskri orku. Með eignarhlut sínum í Héraðsvötum hf., í gegnum Norðlenska orku, hefur sveitarfélagið tækifæri til að hafa áhrif á 5 milljarða framkvæmd sem gjörbreytt gæti atvinnulífi og mannlífi í Skagafirði. Hvað ætlar meirihlutinn að bjóða Skagfirðingum í stað þessarar miklu framkvæmdar? 
Eytt hefur verið milljónum króna í að kanna möguleika Skagfirðinga á nýtingu orku virkjunar við Villinganes. Á aðalfundi Atvinnuþróunarfélagsins Hrings kom fram að útúr þeirri könnun hafa komið 40 iðnferlar (kostir) sem nýta frá 1.5 MW. af orku og veita fáum atvinnu til stærri iðnaðarkosta samanber Steinullarverksmiðjuna sem veita mörgum atvinnu. Þessar kannanir byggðust á kosti þess að nýta orku Villinganesvirkjunar og þeirrar hagkvæmni sem felst í nálægð við hana. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur staðið heils hugar að þessari vinnu fram að þessu. Vilji Skagfirðingar hafa einhver áhrif á hvernig orkan verður nýtt og hvort hún verður nýtt í Skagafirði þá er þátttaka í virkjunarferlinu lykilþáttur. Þessu einstaka tækifæri má ekki hafna.  
Erfitt er að skilja hvernig meirihluti Byggðaráðs ætlar sér að selja hlutinn, hafandi það í huga að sveitarstjóri hefur ítrekað lýst því yfir að meirihlutinn muni berjast gegn virkjun. Hvernig á að verðleggja hlut í virkjun sem síðan á að vinna gegn að verði byggð? 
Þá er afar athyglivert það tangarhald sem Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur á samstarfi meirihlutans, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur kúvent í afstöðu sinni til Villinganesvirkjunar.  Framsóknarflokkurinn vann að heilindum með Sjálfstæðisflokki og Skagafjarðarlista að verkefninu um virkjun við Villingarnes þar sem hagsmunir Skagfirðinga voru hafðir að leiðarljósi. Afstaða Framsóknarflokksins hefur ekkert  breyst varðandi mat á þeim hagsmunum og því greiði ég atkvæði gegn tillögunni. 
Gunnar Bragi Sveinsson.” 
Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið kl.1150