Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

141. fundur 06. júlí 2001

Byggðarráð Skagafjarðar
Fundur  141 – 06.07. 2001.

Ár 2001, miðvikudaginn 6. júlí  kom byggðarráð saman til fundar á skrifstofu Skagafjarðar kl. 1000.
            Mætt voru:  Herdís Á. Sæmundardóttir, Elinborg Hilmarsdóttir, Gísli Gunnarsson, Árni Egilsson og Snorri Styrkársson auk sveitarstjóra Snorra Björns Sigurðssonar.
DAGSKRÁ:
            1.      Tillaga um frestun funda sveitarstjórnar.
            2.      Erindi frá Trausta Sveinssyni.
            3.      Afrit af stjórnsýslukæru Trausta Sveinssonar.
            4.      Bréf frá Bjarna Maronssyni.
            5.      Niðurstaða vinnuhóps varðandi sameiningu Rafveitu Sauðárkróks,
                  Hita- og vatnsveitu Skagafjarðar.
            6.      Þriggja ára áætlun 2002-2004.
AFGREIÐSLUR:
1.      Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að byggðarráð fái heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í sumarleyfi sveitarstjórnar, skv. 5. mgr. 54. gr. samþykkta sveitarfélagsins.
2.      Lagt fram bréf frá Trausta Sveinssyni, dagsett 2. júlí 2001, þar sem hann krefst endurupptöku erindis síns sem afgreitt var af byggðarráði 27. júní sl.  Einnig biður hann um að erindi sitt til samgönguráðherra dagsett 4. apríl sl. verði lagt fram til skoðunar og afgreiðslu.
Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu þessa liðar.
3.      Lagt fram til kynningar afrit af stjórnsýslukæru Trausta Sveinssonar.
4.      Lagt fram bréf frá Bjarna Maronssyni dagsett 3. júlí 2001, um viðræðufund um staðsetningu sorpurðunarsvæðis í Ásgarði/Kolkuósi.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að finna hentugan tíma til fundarins.
5.      Lögð fram niðurstaða vinnuhóps varðandi varðandi sameiningu Rafveitu Sauðárkróks, Hita- og Vatnsveitu Skagafjarðar sem vísað var til byggðarráð frá veitustjórn 3. júlí sl.
Eftirfarandi tillaga lögð fram af Herdísi Á. Sæmundardóttur og Elinborgu Hilmarsdóttur:
“Tillaga:  Byggðarráð samþykkir að ákvörðun um sameiningu Hitaveitu Skagafjarðar, Vatnsveitu Skagafjarðar og Rafveitu Sauðárkróks verði frestað til 1. nóvember n.k. og möguleikar á sölu á Rafveitu Sauðárkróks verði skoðaðir til hlítar.
Greinargerð:  Í ljósi fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og þeirra verkefna, sem fyrir liggja á komandi misserum, er nauðsynlegt að leita allra leiða til að lækka skuldir sveitarfélagsins.  Verði ekki gripið til róttækra aðgerða til lækkunar skulda er ljóst að svigrúm til að mæta nýjum verkefnum og óskum íbúanna er hverfandi og skuldir munu enn aukast.  Jafnframt er ljóst að aukin verðbólga og gengisbreytingar hafa veruleg áhrif til hækkunar skulda, t.d. hafa skuldir sveitarsjóðs af þessum sökum hækkað um u.þ.b. 83 milljónir króna á tímabilinu janúar til júníloka.  Þá eru ótaldar hækkanir af þessum sökum í félagslega íbúðakerfinu og veitufyrirtækjum.  Einn af möguleikum til lækkunar skulda er sala á Rafveitu Sauðárkróks.
Sú tillaga, sem fyrir liggur og kveður á um sameiningu veitufyrirtækjanna þriggja, kveður jafnframt á um niðurfærslu eiginfjár og yfirfærslu fjármuna til sveitarsjóðs.  Þessi aðgerð mun ekki lækka heildarskuldir sveitarfélagsins, heldur er einungis verið að færa fjármuni úr einum vasa í annan.  Með þessari aðgerð munu möguleikar til lagningar hitaveitu annars staðar í sveitarfélaginu minnka, þar sem hið nýja fyrirtæki verður talsvert skuldsett.
Á komandi hausti verður lagt fram frumvarp á Alþingi, sem kveður á um miklar breytingar á raforkmarkaði, þar sem m.a. sala á raforku verður gefin frjáls.  Verði það frumvarp samþykkt sem lög er ljóst að þau hafa miklar breytingar í för með sér fyrir lítil raforkufyrirtæki eins og Rafveitu Sauðárkróks og er hætt við að hlutur þess fyrirtækis í samkeppni við önnur stærri og öflugri verði rýr.
Loks skal það ítrekað að sala á raforku er ekki eitt af skylduverkefnum sveitarfélaga og því má spyrja hvort ekki sé ástæða til að selja Rafveitu Sauðárkróks í ljósi þeirrar litlu arðsemi sem er af fyrirtækinu.
Með ofangreint í huga teljum við undirritaðar það vera skylda okkar að skoða til hlítar hagkvæmni þess að selja Rafveitu Sauðárkróks.”
Byggðarráð samþykkir tillöguna með þremur atkvæðum gegn atkvæðum Gísla Gunnarssonar og Árna Egilssonar.
Eftirfarandi bókun frá Gísla Gunnarssyni og Árna Egilssyni lögð fram:
“Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í byggðarráði telja ekki ástæðu til þess að fresta enn frekar sameiningu veitna í Skagafirði.  Við lýsum undrun okkar og vonbrigðum með vinnubrögð fulltrúa Framsóknar og S-lista í byggðarráði.  Tillaga framsóknarmanna í byggðarráði stangast á við yfirlýsta stefnu sveitarstjórnar Skagafjarðar og gengur þvert á niðurstöðu verkefnishóps, sem skipaður var fulltrúum allra flokka, og vann að undirbúningi að sameiningu veitnanna.  Við teljum nauðsynlegt að sameina Rafveitu Sauðárkróks, Hita- og Vatnsveitu Skagafjarðar í hlutafélag, til þess að hagræða í rekstri og lækka skuldir sveitarsjóðs verulega.”
Herdís Á. Sæmundardóttir og Elinborg Hilmarsdóttir leggja fram svohljóðandi bókun:
“Með því að greiða atkvæði gegn tillögu til að kanna möguleika á sölu Rafveitu Sauðárkróks lítum við svo á, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi hafnað frekara samstarfi við Framsóknarflokkinn í sveitarstjórn Skagafjarðar. Fulltrúar Framsóknarflokksins harma að viljaleysi sjálfstæðismanna til könnunar allra leiða til lækkunar skulda sveitarsjóðs, hafi orðið til að rjúfa samstarfið.”
6.      Þriggja ára áætlun 2002-2004.
Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu þessa liðar.
Fleira ekki gert. Fundargerð upplesin og samþykkt og fundi slitið kl. 1125
                                                Fundarritari:  Margeir Friðriksson.