Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

84. fundur 14. febrúar 2024 kl. 14:00 - 15:53 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Ákvarðanir Persónuverndar um notkun Google Workspace for education í grunnskólastarfi

Málsnúmer 2401187Vakta málsnúmer

Málið áður tekið fyrir á 81. fundi byggðarráðs.
Undir þessum dagskrárlið mættu sviðsstjóri fjölskyldusviðs og verkefnastjóri. Einnig lagt fram minnisblað frá persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins, dags. 13.2. 2024.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela viðkomandi starfsmönnum og persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins að vinna málið áfram.

2.Staða á heitu vatni í Skagafirði

Málsnúmer 2402098Vakta málsnúmer

Tekin fyrir fyrirspurn frá sveitarstjórnarfulltrúa VG og óháðra, Álfhildi Leifsdóttur, og veitt svör við henni:
1. Hvar er mesta heitavatnsnotkunin á Sauðárkróki? Vinsamlega leggið fram upplýsingar stærstu notendur og notkun þeirra. Á ég þá við einstaka fyrirtæki, sundlaug, íþróttasvæði (gervigrasvöll, hlaupabraut), aðrar snjóbræðslur og fleira sem tekur mikla notkun.
Svar: Lagt fram yfirlit yfir stærstu notendur og notkun þeirra. Stærstu notendur stofnana sveitarfélagsins eru Sundlaug Sauðárkróks þar sem notkunin var um 105 þúsund rúmmetrar á árinu 2023. Aðrir stórir notendur eru gervigrasvöllur á Sauðárkróki, íþróttavöllurinn, Árskóli, og Faxatorg 1. Mikil notkun er jafnframt hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sé litið til stofnana ríkisins. Ekki er unnt að upplýsa um stærstu kaupendur á heitu vatni af hálfu fyrirtækja þar sem ekki hefur gefist ráðrúm til að bera opinbera birtingu undir viðkomandi.
2. Hvaða fyrirtæki eru að njóta 70% afsláttar á heitu vatni á liðnu ári og yfirstandandi ári?
Svar: Sundlaugar Skagafjarðar njóta afsláttar sem er 90% og önnur íþróttamannvirki 50%. Að svo stöddu þykir ekki rétt að upplýsa í bókun um fyrirtæki sem njóta 70% afsláttar af heitu vatni á liðnu ári og yfirstandandi ári, þar sem ekki hefur gefist ráðrúm til að bera opinbera birtingu undir viðkomandi.
3. Hafa þau afsláttarkjör fallið niður nú í vatnsskorti samanber 8. gr. í gjaldskrá Skagafjarðarveitna?
Svar: Í 8. grein gildandi gjaldskrár fyrir hitaveitu í Skagafirði er miðað við að stærri notendur, þar sem notkun er að lágmarki 100 þúsund rúmmetrar á ári og þar sem heitt vatn er notað sem beinn framleiðsluþáttur geti sótt um að kaupa vatn með 70% afslætti. Afsláttarkjörin eiga við þar sem nægilegt vatn er til staðar og fullnægjandi flutningsgeta í veitukerfinu að mati Skagafjarðarveitna. Sprotafyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki sem vilja nýta heita vatnið sem beinan framleiðsluþátt geta einnig sótt um tímabundinn 70% afslátt af verði á heitu vatni.
Skerðingar á heitu vatni hafa verið tímabundnar og ekki leitt til þess að ársnotkun stærsta notanda hafi farið undir 100 þúsund rúmmetra á ári. Afsláttarkjörin eru því í gildi á meðan ársnotkunin er svona mikil og á meðan ekki eru gerðar breytingar á gjaldskrá Skagafjarðarveitna.
Í fjárhagsáætlun ársins 2024 er gert ráð fyrir framkvæmdum við nýja borholu á Borgarmýrum við Sauðárkrók.

3.Viðbragðsáætlun Skagafjarðarveitna í frostaköflum

Málsnúmer 2402099Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið mætti verkefnisstjóri Skagafjarðarveitna og fór yfir viðbrögð Skagafjarðarveitna þegar upp koma frostakaflar sem hafa áhrif á notkun heits vatns í Skagafirði.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela verkefnisstjóra að uppfæra skriflega viðbragðsáætlun hitaveitunnar sem unnið er eftir í frostaköflum og birta á heimasíðu Skagafjarðar.

4.Skoðanakönnun um gerð vega um svonefnda Húnavallaleið í A- Húnavatnssýslu og Vindheimaleið í Skagafirði

Málsnúmer 2402038Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Samgöngufélaginu, dags. 5.5. 2024, stílað á Húnabyggð og sveitarfélagið Skagafjörð, þar sem óskað er eftir afstöðu sveitarfélaganna við hugmyndum Samgöngufélagsins um styttingu þjóðvegar 1 um svonefnda Húnavallaleið í Austur-Húnavatnssýslu og Vindheimaleið í Skagafirði. Sérstaklega er kallað eftir afstöðu til þess að gerð veganna verði fjármögnuð með veggjöldum þannig að hún taki ekki til sín fjármuni til annarra brýnna vegframkvæmda.
Byggðarráð hafnar hugmyndum um styttingu þjóðvegar 1 framhjá Varmahlíð og samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.

5.Fyrirspurn um stöðu nokkurra verkefna

Málsnúmer 2402100Vakta málsnúmer

Lagt fram ódagsett bréf frá stjórn íbúa- og átthagafélags Fljóta, þar sem spurst er fyrir um stöðu mála varðandi áform sveitarfélagsins um að breyta Sólgarðaskóla í 5 leigubúðir og einnig hvort einhver fylgist með reglulegu ástandi hússins. Jafnframt hvort sveitarfélagið hafi áform um að selja félagsheimilið Ketilás í Fljótum.
Byggðarráð felur sveitarstjóra samhljóða að svara erindinu með formlegum hætti. Í stuttu máli sagt er vinna við útboðsgögn og kostnaðaráætlun vegna breytinga á Sólgarðaskóla á lokametrunum hjá Verkís verkfræðistofu en málið hefur dregist þar vegna mannabreytinga. Stofnframlög hafa verið samþykkt af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. 48. fund byggðarráðs.
Starfsmaður eignasjóðs fylgist reglulega með húsnæðinu.
Byggðarráð hefur áform um sölu einhverra af þeim 10 félagsheimilum sem eru í Skagafirði en ekki liggur ennþá fyrir hversu mörg né hver þeirra að undanskildu því að hafin er vinna við að skoða söluferli félagsheimilanna í Rípurhreppi, Ljósheima og Skagasels.

6.Samþykktir um stjórn og fundasköp - breyting

Málsnúmer 2402102Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur að breytingum á samþykktum sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem varða annars vegar sameiningu landbúnaðarnefndar, umhverfis- og samgöngunefndar og veitunefndar í eina nefnd, landbúnaðar- og innviðanefnd, í samræmi við tillögur HLH ehf., og hins vegar um breytingu sem felst í að fundargerðabækur verða aflagðar samhliða því sem rafrænar undirritanir fundargerða eru teknar upp.
Byggðarráð samþykkir samhljóða tillögur að breytingum á samþykktum sveitarfélagsins Skagafjarðar og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

7.Skipurit og stjórnskipurit Skagafjarðar

Málsnúmer 2402101Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur að breytingum á skipuriti og stjórnskipuriti fyrir sveitarfélagið Skagafjörð, í samræmi við tillögur að breytingum á samþykktum sveitarfélagsins og tillögur sem fram koma í skýrslu HLH ehf.
Byggðarráð samþykkir skipuritin samhljóða með áorðnum breytingum og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Samráð; Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu

Málsnúmer 2401213Vakta málsnúmer

Málið áður tekið fyrir á 81. fundi byggðarráðs Skagafjarðar.
Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 3/2024, "Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu". Umsagnarfrestur hefur verið framlengdur og er til og með 20.02. 2024.
Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða eftirfarandi umsögn:
Í reglugerðinni eru gerðar kröfur til bænda umfram aðra landnotendur, m.a. um að hætta að nýta landið í ákveðnu ástandi og bæta land langt umfram það sem þeir hugsanlega raska með sinni nýtingu.
Byggðarráð fagnar því að ekki sé ætlunin að gengið sé á auðlindir landsins en undrast um leið hvað þau viðmið sem byggt er á eru óljós. Í 2. gr. 18. lið reglugerðarinnar segir: „Vistgeta ræðst af loftslagi, landslagi og þeim jarðvegi sem þar ætti að ríkja og endurspeglar hvert ástand lands ætti að vera væri hnignun ekki til staðar.“ Ekki eru færð rök fyrir hvers vegna hugtakið vistgeta er notað en það virðist vera tilgáta um hvað vistkerfið ætti að geta. Gengið er út frá að hnignun sé til staðar og má spyrja hvort það sé eðlilegur útgangspunktur? Ekki kemur fram frá hvaða tímapunkti hnignunin varð eða við hvað er miðað. Það væri mjög til bóta ef nýtt kerfi myndi byggjast á rannsóknum um áhrif beitar á Íslandi en því miður virðast þær ekki hafa verið framkvæmdar í tugi ára. Upplýsingar um nýtingu beitarlanda samhliða ástandsmati væru ákjósanlegur grunnur til að byggja á skilvirkari aðferðafræði til beitarstjórnunar. Slík aðferðafræði hefur verið notuð í Noregi um árabil og gefist vel. Bændur hafa bent á mikilvægi þess að samhliða ástandsmati sé horft til beitarframboðs og beitarnýtingar. Engir mælikvarðar eru settir fram sem lýsa því hvort land sé í jafnvægi eða framför.
Í 6. gr. er fjallað um beitiland og hverjir kostir þess eiga að vera. Þar er vísað í töflu 2 í viðauka I. Í henni er fjallað um mælivísa sem eru að mestu huglægir og erfitt að festa fingur á hvað er átt við og hvernig eigi að mæla eða vakta þessa þætti. Í viðauka I með reglugerðinni er sett fram krafa um að land með minna en 20% æðplöntuþekju, yfir 600 m hæð og yfir 30° halla skuli ekki nýtt til beitar. Ekki verður séð að nokkur skynsamleg rök séu fyrir þessu en land sem þetta má finna víðsvegar inn til fjalla og á svæðum sem geta verið mjög vel gróinn í dölum eða öðrum fjallshlíðum í kring. Algjörlega óraunhæft er að gera kröfu um að áðurnefnd svæði verði girt af vegna kostnaðar og aðstæðna á allan hátt. Slíkar kröfur koma til með að hafa miklar afleiðingar og m.a. á starfsskilyrði sauðfjárbænda í Skagafirði. Byggðarráð telur að leggja þurfi meiri vinnu í útfærslu á mæliaðferðum við mat á framvindu gróðurs og jarðvegs á hverju svæði fyrir sig. Allar verklagsreglur um slíkt þurfa að vera skýrar svo auðvelt sé að meta raunverulegar breytingar í gróðurþekju og samsetningu gróðurtegunda á svæðunum.
Í íslenskri stjórnsýslu er skilið á milli löggjafavalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Í þessari reglugerð og í þeim lögum sem hún byggir á er Land og skógur í öllum þessum hlutverkum. Þetta verður að teljast óeðlilegt stjórnsýsla og ekki síst í ljósi þess að mjög óljóst er við hvaða land á að miða þegar talað er um breytingar á landi til hnignunar eða bætingar.
Eins vill Byggðarráð benda á að mjög umfangsmiklir og efnismiklir viðaukar fylgja frumvarpinu þar sem mjög margar takmarkanir og kröfur eru gerðar um ýmsa hluti. Stórt spurningarmerki er sett um að hafa viðaukana jafn umfangsmikla og gert er en í þeim eru allskonar kröfur lagðar fram, eins og t.d. að skylt verði að plægja niður hálm í akra, sem bændur geta ekki sætt sig við og fleira mætti nefna.
Byggðarráð Skagafjarðar lýsir áhyggjum sínum að því að reglugerðin hafði áhrif á hinar dreifðu byggðir landsins og áhrif hennar hafi ekki verið metin út frá þeim þætti. Landbúnaður og störf honum tengd eru mörg og mikilvæg í Skagafirði. Það er alveg ljóst að grundvöllur sauðfjárbúskapar á stórum svæðum í Skagafirði er brostinn nái drögin fram að ganga, þar sem ekki er hægt að uppfylla skilyrði um sjálfbæra landnýtingu eins og þau eru lögð fram.
Á sama tíma og rætt er um mikilvægi fjölbreyttra starfa og byggðastefnu er undarlegt að þessi reglugerð sé lögð fram.
Byggðarráð Skagafjarðar leggur áherslu á að ná þarf betri skilningi og sátt um málið í heild sinni eigi það fram að ganga með farsælum hætti. Byggðarráð leggur því til að reglugerðin verði tekin til gagngerrar endurskoðunar og áhrif hennar greind betur áður en lengra er haldið og ný drög unnin með aðkomu allra þeirra sem nýta landið í dag.
Byggðarráð vekur einnig athygli á að gerð er krafa til nýrra laga og reglugerða um að kostnaður við innleiðingu þeirra sé metinn og að það liggi fyrir hver myndi bera þann kostnað. Innleiðing reglugerðarinnar liggur heldur ekki ljós fyrir.

9.Samráð; Gullhúðun EES-reglna

Málsnúmer 2402032Vakta málsnúmer

Utanríkisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 27/2024, „Gullhúðun EES-reglna“. Umsagnarfrestur er til og með 26.02. 2024.

10.Skipurit sviða sveitarfélagsins

Málsnúmer 2402103Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ný skipurit fyrir svið sveitarfélagsins Skagafjarðar. Skipuritin eru í samræmi við tillögur sem lagðar voru fram í skýrslu HLH ehf. og verða innleidd á næstu mánuðum í samræmi við tillögur úr skýrslunni sem kynntar hafa verið.

Fundi slitið - kl. 15:53.