Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

83. fundur 07. febrúar 2024 kl. 14:00 - 15:30 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Endurnýjun girðingar við Mælifellskirkjugarð

Málsnúmer 2312187Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið er komu fulltrúar frá sóknarnefnd Mælifellskirkju, þau Helga Rós Indriðadóttir og Sigurður Jóhannsson.
Málið var áður tekið fyrir á 78. fundi byggðarráðs þar sem minnt var á gildandi viðmiðunarreglur Kirkjugarðaráðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 1. júlí 2015 en um leið óskað eftir ítarlegri upplýsingum frá sóknarnefnd.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að vinna málið áfram og afla frekari upplýsinga.

2.Fasteignagjöld - Auðunarstofa

Málsnúmer 2401320Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá vígslubiskupnum á Hólum, dags. 29. janúar 2024, þar sem óskað er eftir lækkun á fasteignagjöldum vegna Auðunarstofu á Hólum. Í erindinu kemur fram að Auðunarstofa sé fyrst og fremst safngripur, tilgátuhús byggt var til þess að vitna um sögu Hóla. Í kjallara hússins er merkasta safn bóka Hólaprents varðveitt og á jarðhæð er skrifstofa og salur, sem fyrst og fremst er notaður undir sýningar og sem safnaðarheimili. Rishæð hússins er ónotuð. Fjölmargir ferðamenn skoða húsið á hverju ári og síðastliðið sumar var það að mestu leiti á vegum kirkjunnar að taka á móti ferðamönnum á þessum merka sögustað sem fjölmargir ferðamenn sækja.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að hafna erindinu og telur eðlilegt að Ríkissjóður greiði þau gjöld sem honum ber af fasteignum sínum.

3.Kynning - Miðstöð héraðsskjalasafna um rafræna skjalavörslu

Málsnúmer 2402014Vakta málsnúmer

Lagt fram ódagsett bréf frá héraðsskjalavörðum Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, Árnesinga, Austfirðinga og Akraness, þar sem kynnt eru áform um móttöku rafrænna gagna á vegum héraðsskjalasafna og stofnun Miðstöðvar héraðsskjalasafna (MHR) um rafræna skjalavörslu. Meginmarkmiðið með stofnun miðstöðvarinnar er að styðja við stafræna umbreytingu hjá sveitarfélögum ásamt því að byggja upp þekkingu á málaflokknum innan héraðsskjalasafna, finna hentugar lausnir á hýsingu og ekki síst að lækka kostnað við móttöku og langtímavörslu rafrænna og stafrænna gagna. Stýrihópur héraðsskjalavarða sem unnið hefur að verkefninu boðar nú til formlegs stofnfundar MHR. Fundurinn verður haldinn á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga, Borgartúni 30 í Reykjavík, föstudaginn 9. febrúar kl. 13:00. Kostnaði við grunnrekstur miðstöðvarinnar verður skipt niður á héraðsskjalasöfnin með tilliti til íbúafjölda sveitafélaganna sem þau reka. Þetta gefur héraðsskjalasöfnunum aðgang að viðeigandi eyðublöðum, aðstoð við kortlagningu gagnasafna, ráðgjöf varðandi skipulag gagna og aðgang að hugbúnaði til að afgreiða úr og halda utan um vörsluútgáfur. Aftur á móti þarf hver skjalamyndari fyrir sig (sveitarfélag, stofnun sveitarfélags eða aðrir aðilar sem ber að skila gögnum sínum á héraðsskjalasafn) að greiða fyrir þjónustu varðandi tilkynningar um gagnasöfn og afhendingu á vörsluútgáfum.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að Héraðsskjalasafn Skagfirðinga gerist stofnaðili að Miðstöð héraðsskjalasafna um rafræna skjalavörslu og veitir héraðsskjalaverði umboð til að staðfesta stofnaðild safnsins að miðstöðinni.

4.Auglýsingar og nafngiftir íþróttamannvirkja og íþróttasvæða

Málsnúmer 2401250Vakta málsnúmer

Erindinu var vísað til byggðarráðs frá 20. fundi félagsmála- og tómstundanefndar 1. febrúar sl. þannig bókað:
Lagðar fram uppfærðar reglur um auglýsingar á íþróttamannvirkjum. Í reglunum kemur fram hvers konar auglýsingar eru heimilar innan og utan á íþróttamannvirkjum og íþróttasvæðum í Skagafirði. Auk þess fjalla reglurnar um nafngiftir á íþróttamannvirkjum í auglýsingaskyni. Nefndin samþykkir reglurnar fyrir sitt leyti og vísar þeim til afgreiðslu í byggðarráði.
Byggðarráð samþykkir reglurnar samhljóða og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

5.Reglur Skagafjarðar um akstursþjónustu við fatlað fólk

Málsnúmer 2307143Vakta málsnúmer

Erindinu var vísað til byggðarráðs frá 20. fundi félagsmála- og tómstundanefndar 1. febrúar sl. þannig bókað:
Lagðar fram nýjar ósamþykktar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Reglurnar eru unnar með tilvísun í 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Einnig er stuðst við leiðbeiningar félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk. Reglunum er ætlað að koma í stað núverandi reglna um ferðaþjónustu fatlaðra í Sveitarfélaginu Skagafirði frá árinu 2012. Nefndin samþykkir fyrirliggjandi drög og vísar þeim til afgreiðslu í byggðarráði.
Byggðarráð samþykkir reglurnar samhljóða og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

6.Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna

Málsnúmer 2402016Vakta málsnúmer

Lögð fram umsagnarbeiðni frá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, dags. 1. febrúar 2024, þar sem sent er til umsagnar 13. mál, frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna (fæðingarorlof, atvinnuleysistryggingar og námslán). Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 15. febrúar nk. Ef engar athugasemdir eru þarf ekki að senda sérstaka tilkynningu þess efnis.

7.Umsagnarbeiðni; Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórnun fiskveiða (veiðistjórn grásleppu)

Málsnúmer 2402017Vakta málsnúmer

Lögð fram umsagnarbeiðni frá atvinnuveganefnd Alþingis, dags. 1. febrúar 2024, þar sem sent er til umsagnar 521. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu). Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 15. febrúar nk. Ef engar athugasemdir eru þarf ekki að senda sérstaka tilkynningu þess efnis.

8.Auglýsing eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga

Málsnúmer 2401337Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dags. 30. janúar 2024, frá kjörnefnd Lánasjóðs sveitarfélaga þar sem auglýst er eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga. Frestur til að senda inn tilnefningar er til kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 21. febrúar nk. til formanns kjörnefndar en kjörnefnd mun gera tillögu að nýrri stjórn og aðalstjórn til aðalfundar sem haldinn verður 14. mars nk.
Um framboð og kjör til stjórnar gilda hlutafélagalög nr. 2/1995 og lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Jafnframt er farið að leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja að eins miklu leyti og unnt er.

Fundi slitið - kl. 15:30.