Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

65. fundur 10. október 2023 kl. 14:00 - 15:10 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Útsvarshlutfall í Skagafirði 2024

Málsnúmer 2310020Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um að útsvarshlutfall í Skagafirði árið 2024 verði 14,74%, þ.e. óbreytt frá árinu 2023.
Byggðarráð samþykkir tillöguna og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

2.Kvöldopnun í Aðalgötunni

Málsnúmer 2310067Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 3. október 2023 frá Ólínu Björk Hjartardóttur fyrir hönd rekstraraðila við Aðalgötu á Sauðárkróki. Óskar hún eftir því að fá leyfi sveitarfélagsins til þess að loka Aðalgötunni þann 11. október 2023, milli kl. 20:00 og 22:00 vegna kvöldopnunar verslunar-, veitinga- og þjónustuaðila.
Byggðarráð samþykkir að veita leyfi fyrir því að Aðalgatan verði lokuð frá Kirkjutorgi að Villa Nova miðvikudaginn 11. október 2023 á milli kl. 20:00 og 22:00.

3.Römpum upp Ísland

Málsnúmer 2310047Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 2. október 2023 frá Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sjóðurinn hefur haft aðkomu að verkefninu Römpum upp Ísland frá upphafi verkefnisins og hefur heimild til að leggja verkefninu til 200 millj. kr. samkvæmt breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 (framlög úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga). Stjórn RUÍ ákvað á stjórnarfundi þann 19. september s.l. að bjóða hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum samstarf um gerð rampa við húsnæði í þeirra eigu. Einnig lagt fram erindi frá Römpum upp Ísland varðandi framkvæmd verkefnisins. Umsóknarfrestur til RUÍ er til 10. desmeber 2023.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til umfjöllunar og tillögugerðar, til aðgengishóps sveitarfélagsins.

4.Þjónustustefna í byggðum og byggðarlögum sveitarfélaga

Málsnúmer 2310005Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá innviðaráðuneytinu til allra sveitarfélaga, dagsettur 29. september 2023, varðandi þjónustustefnu í byggðum og byggðarlögum sveitarfélaga.
Með lögum nr. 96/2021 sem tóku gildi í júní 2021 samþykkti Alþingi nýtt ákvæði við sveitarstjórnarlög sem fjallar um þjónustustefnu í byggðum og byggðarlögum sveitarfélags. Samkvæmt 130. gr. a sveitarstjórnarlaga, skal sveitarstjórn móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú árin eftir það, um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðakjörnum viðkomandi sveitarfélags. Mótun stefnunnar skal unnin samhliða fjárhagsáætlun og skal málsmeðferðin vera sú sama, þ.e. byggðarráð eða framkvæmdastjóri, eftir því sem kveðið er á um í samþykkt um stjórn sveitarfélags, leggur tillögu um þjónustustefnu í byggðum eða byggðarlögum sveitarfélags fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 1. nóvember ár hvert.
Byggðarráð Skagfjarðar fagnar áhuga löggjafans á mótun þjónustustefnu sem sett var með lögum um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 96/2021 frá Alþingi, en þau fela sveitarstjórn að móta þjónustustefnu í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðakjörnum viðkomandi sveitarfélags, í samráði við íbúa sveitarfélagsins. Fyrir liggur einnig fyrirmynd og leiðbeiningar, unnar af Byggðastofnun um hvernig móta skuli þjónustustefnuna. Þjónustustefnunni er fyrst og fremst ætlað á að ná yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga en þau eru mörg.
Í Skagafirði hefur frá upphafi sameiningar sveitarfélaga verið lagður metnaður í að hafa fast mótaðar stefnur í öllum okkar lögbundnu og ólögbundnu verkefnum. Við setningu þeirra reglna, laga eða stefna er lögð áhersla á að þau nái yfir sveitarfélagið í heild sinni. Á heimasíðu Skagafjarðar má lesa tæplega 100 reglur, samþykktir og lög sem innihalda stefnur sem í gildi eru í Skagafirði og móta þá þjónustu og umgjörð sem við lifum eftir innan laga Alþingis. Í öllum þessum reglum og samþykktum er unnið með hópa, svæði og/eða þéttbýlisstaði eins og þeir eru skilgreindir í Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 og eru öll þessi lög, reglur og samþykktir, samþykkt af sveitarstjórn eða Alþingi og eru öllum íbúum aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins. Aðalskipulagið eitt og sér er til viðbótar þessu eitt og mest stefnumótandi plagg sem sveitarfélagið vinnur eftir. Það er 160 blaðsíður að lengd og fjallar á mjög ítarlegan hátt um þá sýn sem við höfum á þróun samfélagsins 15 ár fram í tímann. Í aðalskipulaginu er t.d. fjallað sérstaklega um hvern og einn byggðakjarna og farið yfir framtíðarsýn á þróun íbúabyggðar, verslun og þjónustu, samfélagsþjónustu og mjög margt fleira, svo ekki sé minnst á stefnu um vatnsveitu, fráveitu, rafveitu, hitaveitu og gagnaveitu og mörgu öðru sem einnig á að nefna í hinni nýju samantekt um þjónustustefnu. Hverri sveitarstjórn er einnig ætlað að endurskoða aðalskipulagið í upphafi hvers kjörtímabils og koma þá með sínar áherslur og breytingar þar inn. Rétt er líka að minna á að breytingar á aðalskipulagi eru alltaf unnar í miklu samráði við íbúa með tilheyrandi íbúafundum og opinberum kynningum.
Byggðarráð vill því benda innviðaráðuneytinu á að mögulega sé óþarfi að vinna enn eitt plaggið sem mun eðli málsins samkvæmt verða mjög langt og yfirgripsmikið þegar því er ætlað að ná yfir og lýsa öllum þeim fjölmörgu reglum, stefnum og markmiðum sem sveitarfélagið hefur nú þegar sett. Byggðarráð Skagafjarðar veltir því upp hvort ekki sé heppilegra að sveitarstjórnir gætu upplýst stjórnvöld með rafrænum hætti um þá þjónustu og þjónustustefnur sem í boði eru fyrir okkar byggðir og byggðakjarna, líkt og gert er t.d. varðandi afmarkaðri þætti eins og húsnæðis- og brunavarnaráætlanir sveitarfélaga. Þannig gæti löggjafinn fylgst með því hvort þjónustustig viðkomandi byggðakjarna sé ásættanlegt.
Það má líka benda á að yfirgripsmiklar stefnur eins og t.d. endurgerð aðalskipulags kostar tugi milljóna króna. Í áðurnefndum breytingum á sveitarstjórnarlögum kemur ekkert fram um aðkomu ríkisins vegna kostnaðar við gerð þjónustustefnunnar og kostnaðarumsögn virðist ekki hafa verið unnin á áhrifum frumvarpsins sem þó er skylt skv. 129. grein sveitarstjórnarlaga. Leggur byggðarráð Skagafjarðar því til að ríkið kosti gerð þjónustustefnunnar að fullu ásamt árlegum uppfærslum.
Að þessu sögðu og með hliðsjón af gildandi lögum samþykkir byggðarráð að fela sveitarstjóra að gera einfalda samantekt samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja um þá þjónustustefnu sem Skagafjörður hefur í byggðum og byggðarlögum fjarri stærsta byggðarkjarna sveitarfélagsins.

5.Heilsuræktarstyrkur 2024

Málsnúmer 2310009Vakta málsnúmer

Lagðar fram núgildandi reglur um heilsueflingarstyrki til starfsmanna sveitarfélagsins.
Byggðarráð samþykkir að framlagðar reglur gildi óbreyttar fyrir árið 2024 og vísar þeim til sveitarstjórnar til afgreiðslu.

6.Umsagnarbeiðni -Breytingar á Blöndulínu 3, mál 0672 2023 í skipulagsgátt

Málsnúmer 2310046Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 2. október 2023 frá Skipulagsstofnun, þar sem stofnunin óskar eftir umsögn frá sveitarfélaginu um mál í skipulagsgáttinni; Breytingar á Blöndulínu 3, nr. 0672/2023: Tilkynning um framkvæmd (Tilkynning til ákvörðunar um matsskyldu). Kynningartími er til 2. nóvember 2023.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til skipulagsnefndar til afgreiðslu.

7.Minningardagur um fórnarlömb umferðaslysa 2023

Málsnúmer 2310054Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 29. september 2023 frá innviðaráðuneytinu varðandi minningardag um fórnarlömb umferðarslysa 2023. Árlegur alþjóðlegur minningardagur Sameinuðu þjóðanna um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn sunnudaginn 19. nóvember 2023. Dagurinn er haldinn þriðja sunnudag í nóvember ár hvert og er fyrst og fremst tileinkaður minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni. Að þessu sinni verður dagurinn helgaður fyrstu viðbrögðum og neyðarhjálp á slysstað. Þá verða táknrænar minningarstundir haldnar víða um landið sem félög og sveitir í Slysavarnafélaginu Landsbjörgu skipuleggja. Streymt verður frá viðburðum í beinni vefútsendingu á Facebook eftir því sem kostur er.

8.Umsóknir um styrki úr Aski - mannvirkjasjóði

Málsnúmer 2310058Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar auglýsing frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun varðandi umsóknir um styrki úr Aski - mannvirkjasjóði. Sjóðurinn er í eigu innviðaráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Hann veitir styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar. Umsóknarfrestur er til og með 31. október 2023.

9.Ráðstefna um fíknistefnu - Treading the Path to Human Rights

Málsnúmer 2310097Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 5. október 2023 frá Rótinni, félagi um velferð og líf, varðandi þverfaglega ráðstefnu um mannréttindamiðaða nálgun í mótun fíknistefnu í velferðarríkjum. Ráðstefnan er skipulögð af Rótinni og RIKK - Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og fer fram þann 17. og 18. október á Hótel Reykjavík Grand.

10.Motus lykiltölur sveitarfélaga 2023

Málsnúmer 2310057Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla frá Motus um Lykiltölur sveitarfélaga - greiðsluhraði 2023.

11.Skagfirskar leiguíbúðir hses - fulltrúaráðsfundur 2023

Málsnúmer 2308054Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 3. fulltrúaráðsfundar Skagfirskra leiguíbúða hses. þann 28. september 2023.

Fundi slitið - kl. 15:10.