Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

47. fundur 10. maí 2023 kl. 14:00 - 15:40 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Byggðarráð samþykkti samhljóða í upphafi fundar að taka mál 2304146 Reglur um skólaakstur í dreifbýli Skagafjarðar, á dagskrá með afbrigðum.

1.Aðalskipulag Skagafjarðar - Endurskoðun - Aðalskipulagsbreytingar

Málsnúmer 2211029Vakta málsnúmer

Erindinu vísað frá 12. fundi sveitarstjórnar þann 19. apríl 2023, þar sem eftirfarandi var bókað:
"Vísað frá 20. fundi Skipulagsnefndar frá 9. mars 2023 þannig bókað.
Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi Vinstri grænna og óháðra leggur fram eftirfarandi fyrirspurn: "Hver eru framtíðarplön hvað varðar skipulag íbúðabyggðar á Sauðárkróki. Er ætlunin að þétta byggð frekar þegar framkvæmdum á Sveinstúni líkur, færa sig upp á Nafir eða kanna með kaup á landi?". Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skoða mögulega valkosti til framtíðaruppbyggingar Sauðárkróks.
Forseti gerir það að tillögu sinni að vísa málinu til byggðarráðs.
Borið upp til afgreiðslu og samþykkt með níu atkvæðum."
Fulltrúar meirihluta byggðarráðs óska bókað: Með endurskoðuðu Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum í sveitarstjórn 9. mars 2022 var samþykkt stefna og framtíðaráætlun um þróun íbúðabyggðar í öllum þéttbýlisstöðum Skagafjarðar. Í kafla 4 í greinargerð er fjallað með ítarlegum hætti um áætlaða þéttingu á Sauðárkróki og er þar gert ráð fyrir að á núverandi svæðum sem ýmist er búið að deilliskipulegga eða verið að deiliskipuleggja megi fjölga íbúðum um 241. Í töflu 4.1 á blaðsíðu 17 kemur fram dreifingin milli svæða og síðan er fjallað um hvert svæði fyrir sig með ítarlegum hætti. Í Aðalskipulaginu stendur einnig eftirfarandi setning í kafla 4.3.5 á bls 22, “Með hliðsjón af íbúaspá og markmiðum um íbúafjölgun er ljóst að til næstu ára litið er ekki þörf fyrir uppbyggingu heildstæðs íbúðahverfis upp á Nöfum. Engu að síður er gert ráð fyrir að Nafirnar geti byggst upp sem íbúðarbyggð síðar ef forsendur um byggðarþróun breytast?. Því má svo bæta við að í uppfærslum sem skipulagsnefnd vinnur að á þéttbýlisuppdrætti Sauðárkróks verður áætlað íbúðarsvæði á Nöfum merkt sem slíkt en svæðið er í dag frátekið undir íbúðabyggð framtíðarinnar.
Meirihluti byggðarráðs getur því fullvissað fulltrúa VG og óháðra um að nægt rými er áætlað til íbúðabygginga á Sauðárkróki til langs tíma en það er sama niðurstaða og skipulags- og byggingarnefnd sem umræddur fulltrúi átti sæti í á síðasta kjörtímabili komst að og sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar staðfesti svo með samþykkt á endurskoðuðu aðalskipulagi.
Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi VG og óháðra þakkar svörin og er mjög meðvitaður um þau plön sem liggja fyrir í Aðalskipulagi Skagafjarðar. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hugsað sé lengra en til ársins 2035 hvað varðar íbúðabyggð og framtíðarplön uppbyggingar byggðar á Sauðárkróki en fyrirspurnin varðar einmitt framhaldið. Mikil eftirspurn hefur verið undanfarin ár eftir lóðum á Sauðárkróki og haldi sú eftirspurn áfram með sama hætti má reikna með að sá fjöldi lóða sem til boða stendur samkvæmt aðalskipulagi verði uppurinn og því ágætt að huga að framtíðarsýn til lengri tíma.

2.Lóð 25 á Nöfum

Málsnúmer 2304033Vakta málsnúmer

Lagðar fram umsóknir um Lóð 25 á Nöfum frá annars vegar Jóni Geirmundssyni, sem ætlar að heyja landið og halda hross tímabundið. Hins vegar frá Sigurði Steingrímssyni sem sækir um landið til slægna og beitar. Einnig liggur fyrir umsögn stjórnar Fjáreigendafélags Sauðárkróks frá 2. maí 2023.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir frekari upplýsingum og rökstuðningi frá Fjáreigandafélagi Sauðárkróks í samræmi við umræður á fundinum.

3.Styrkbeiðni vegna fasteignaskatts

Málsnúmer 2305011Vakta málsnúmer

Sjá trúnaðarbók.

4.Reglur um skólaakstur í dreifbýli Skagafjarðar

Málsnúmer 2304146Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun frá 14. fundi fræðslunefndar þann 9. maí 2023: "Reglur þessar eru lagðar fram að nýju í tengslum við útboð á skólaakstri sem nú er í gangi. Efnislegar breytingar eru engar en texti uppfærður með tilliti til m.a. vísana í eldra útboð.
Nefndin samþykkir reglurnar."
Reglur um skólaakstur í dreifbýli lagðar fram.
Byggðarráð samþykkir reglurnar og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

5.Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð

Málsnúmer 2304165Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 46. fundar byggðarráðs þann 3. maí 2023. Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 27. apríl 2023 frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis, þar sem umhverfis- og samgöngunefnd sendir til umsagnar frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð, 941. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 11. maí nk.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkomnu frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð á Íslandi. Frumvarpið skiptist í fimm hluta en í fjórða hlutanum er farið yfir hvernig sérstakt varaflugvallagjald verður lagt á alla komu- og brottfararfarþega jafnt í innanlands- sem og millilandaflugi. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði hóflegt, en margt smátt gerir eitt stórt og því ljóst að þessi gjaldtaka mun í heildina skila umtalsvert miklum viðbótarpeningum til viðhalds og nauðsynlegrar uppbyggingar á innanlandsflugvöllum á Íslandi. Byggðarráð vill leggja áherslu á að þessum peningunum verði með sanngjörnum hætti skipt milli allra núverandi flugvalla Íslands og þannig tryggð nauðsynleg uppbygging þeirra og þeirrar aðstöðu sem þar er, en hún er víða orðin mjög léleg eftir áralangt viðhaldsleysi. Byggðarráð leggur líka áherslu á að Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki er einn besti valkostur Norðurlands sem millilandaflugvöllur, hvort sem horft er til aðflugs, veðurfars eða möguleika til stækkunar og telur því að hann ætti að njóta forgangs í fyrirhuguðum uppbyggingaráformum.

6.Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu)

Málsnúmer 2305006Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 28. apríl 2023 frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis. Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu), 976. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 11. maí nk.
Lagður fram tölvupóstur dagsettur 28. apríl 2023 þar sem atvinnuveganefnd sendir til umsagnar frumvarp til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu), 976. mál. Umsagnarfrestur er til og með 11. maí 2023.
Meirihluti byggðarráðs tekur undir umsögn Drangeyjar smábátafélags frá 22. janúar 2023, þegar málið var í samráðsferli í gegnum samráðsgátt, þar sem segir í niðurlagi afstöðu félagsins: "Vitað er að meirhluti þeirra sjómanna sem stundað hafa grásleppuveiðar á Skagafirði um alllangt skeið eru nú hlynntir kvótasetningu enda liggi ljóst fyrir á hvaða forsendum það verði gert og hvernig hún verði útfærð."
Álfhildur Leifsdóttir VG og óháð óskar bókað að hún taki undir ályktun Aðalfundar Svæðisfélags VG í Skagafirði sem var haldinn þann 14. janúar 2023, sem tók undir mikilvægi þess að svæðaskipta veiðum á grásleppu. Þær rannsóknir og sú þekking sem aflað hefur verið undanfarin ár hafa undirstrikað mikilvægi þess að taka upp svæðaskipta veiðistjórn á hrognkelsum til að tryggja sjálfbæra nýtingu stofna, en einnig tryggja hagsmuni viðkomandi byggðarlaga og fjölskyldna sem byggja lífsviðurværi sitt á grásleppuveiðum. Með því að beita svæðaskiptingu og sóknarstýringu eftir stöðu veiðistofna hrognkelsa innan svæða og hagnýta betur þá nýju þekkingu sem aflað hefur verið, verður best stuðlað að farsælli nýtingu og verndun þeirra.
Fundurinn lýsti yfir áhyggjum sínum yfir hugmyndum um kvótasetningu grásleppu vegna hættu á samþjöppun veiðiheimilda og neikvæðra byggðaáhrifa. Margvíslegar áskoranir fylgja mögulegri kvótasetningu hrognkelsaveiða sem ekki verður séð á þessari stundu hvernig verða leystar með fullnægjandi hætti

7.Samráð; Tillögur vinnuhóps um stefnumótun um lengri gönguleiðir

Málsnúmer 2304164Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 46. fundar byggðarráðs þann 3. maí 2023. Lagður fram tölvupóstur dagsettur 27. apríl 2023 þar sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 88/2023, "Tillögur vinnuhóps um stefnumótun um lengri gönguleiðir".
Umsagnarfrestur er til og með 18.05.2023.
Byggðarráð Skagafjarðar tekur jákvætt í hugmyndir vinnuhópsins um stefnumótun lengri gönguleiða en bendir á að fylgja þurfi verkefnum eftir til lengri tíma og til þess þarf bæði fjármagn og mannskap.
Ágangur á landið eykst með fjölgun ferðamanna og því mikilvægt að skýrar reglur séu til staðar til að fara eftir á landsvísu og að innviðir séu til staðar til að viðhalda verkefni til lengri tíma.

8.Samráð; Drög að reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands

Málsnúmer 2305031Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 4. maí 2023 þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 92/2023, „Drög að reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands“. Umsagnarfrestur er til og með 26. maí 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar áformum um að skýra betur ákvörðun tjónabóta og afmörkun tjóns sem Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir. Byggðarráð bendir þó á að útvíkka þyrfti grundvöll bóta úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands þannig að bætur nái ekki eingöngu yfir húsnæði og innbú þeirra sem eru með sérstakar innbústryggingar hjá tryggingarfélögum, heldur einnig tjón sem t.d. aurskriður eða snjóflóð geta valdið á t.a.m. görðum og eigum fólks utan þess húsnæðis sem verður fyrir tjóninu, bílum sem ekki eru kaskótryggðir o.s.frv. Hafa ber í huga að verði fólk fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara þarf það sjálft að bera fyrstu 600 þúsund krónurnar af tjóninu og 2% af tjóni umfram það. Í mörgum tilfellum getur fólk átt í erfiðleikum með að glíma við slíkt fjárhagslegt högg, í kjölfar enn stærra áfalls vegna sjálfs tjónsins af völdum náttúruhamfara.

9.Skipulag skógræktar - Vinir íslenskrar náttúru

Málsnúmer 2305032Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá stjórn Vina íslenskrar náttúru (VÍN), dagsett 14. apríl 2023, varðandi skipulag skógræktar - ábyrgð sveitarstjórna.

10.Ársfundur - Náttúruhamfaratrygging Íslands

Málsnúmer 2305026Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 3. maí 2023 frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Boðað er til ársfundar Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) fimmtudaginn 25. maí frá kl. 11.30 til 13.00 á Grand hótel, Reykjavík. Óskað er eftir því að fundarboð þetta sé áframsent á sveitarstjórnarfulltrúa með hvatningu um að þeir skrái sig á fundinn, því það er mjög mikilvægt að kjörnir fulltrúar þekki til starfsemi Náttúruhamfaratryggingar þegar á reynir. Hægt er að mæta á fundinn í persónu eða horfa á hann í streymi.

Fundi slitið - kl. 15:40.