Fara í efni

Atvinnu- og ferðamálanefnd

75. fundur 22. september 2011 kl. 13:00 í Ráðhúsi, Skr.
Nefndarmenn
  • Bjarni Jónsson formaður
  • Viggó Jónsson varaform.
  • Ingvar Björn Ingimundarson ritari
  • Arnljótur Bjarki Bergsson varam. áheyrnarftr.
  • Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs
  • Árni Gísli Brynleifsson áheyrnarftr.
Fundargerð ritaði: Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs
Dagskrá

1.Efling loðdýraeldis í Skagafirði-átaksverkefni

Málsnúmer 1101134Vakta málsnúmer

Áskell Heiðar og Sigfús Ingi kynntu framgang verkefnisins, en nú á síðustu vikum hefur sveitarfélagið í samvinnu við Íslandsstofu og Samband íslenskra loðdýrabænda m.a. tekið á móti hópum danskra minkabænda.

Nefndin fagnar því hversu vel verkefnið hefur gengið.

2.Samningur um upplýsingam. í Varmahlíð

Málsnúmer 1104152Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samningi milli Ferðamálastofu og Sveitarfélagsins um rekstur landshlutaupplýsingamiðstöðvar fyrir Norðurland vestra á árinu 2011. Nefndin samþykkir fyrirliggjandi drög að samingi.

3.Skotta kvikmyndafelag - Aðalgata 24

Málsnúmer 1105211Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Skottu kvikmyndarfélagi, f.h. Klasahóps í Aðalgötu 24 þar sem óskað er eftir styrks er samsvarar fasteignagjöldum. Erindinu var vísað til nefndarinnar af Byggðarráði.

Nefndin fagnar því frumkvöðlastarfi sem fram fer innan klasans. Nefndin telur þó ekki hægt að verða við erindinu, þar sem óheimilt er að veita afslætti af fasteignagjöldum. Hins vegar bendir nefndin á að hægt er að sækja um stuðning við nýsköpunarstarfsemi á borð við þá sem klasinn vinnur að.

4.Þátttaka Skagafjarðar í sýningunni Matur-inn á Akureyri 1.-2. okt.

Málsnúmer 1109242Vakta málsnúmer

Áskell Heiðar kynnti þátttöku Matarkistunnar Skagafjarðar í sýningunni Matur-inn sem fram fer 1.-2. okt. n.k.

5.Atvinnulífsýning í Skagafirði 2012

Málsnúmer 1109259Vakta málsnúmer

Rætt um Atvinnulífsýningu sem haldin var í íþróttahúsinu á Sauðárkróki vorið 2009.

Nefndin ákveður að stefna að Atvinnulífssýningu vorið 2012, tekið verður sérstakt tillit til þess við gerð næstu fjárhagsáætlunar. Nefndin felur starfsmönnum Markaðs- og þróunarsviðs að vinna áfram að málinu.

6.Trefja- og plastnám

Málsnúmer 1101135Vakta málsnúmer

Sigfús Ingi kynnti samstarfsverkefni um nám í plast- og trefjasmíði við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Þátttakendur í verkefninu finnski skólinn Salpaus Further Education í Lahti, Den Jydske Haandværkerskole í Hadsten í Danmörku og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, auk stoðtækjaframleiðandans Össurar, bátaframleiðandans Siglufjarðar Seigs og Sigurjóns Magnússonar ehf. í Ólafsfirði sem vinnur með plast og trefjaplast í smíði á yfirbyggingum og innréttingum í sjúkra- og slökkvibifreiðar. Þá hefur Sveitarfélagið Skagafjörður stutt dyggilega við bakið á verkefninu með m.a. vinnuframlagi starfsmanns markaðs- og þróunarsviðs. Verkefnið hefur nú fengið styrk frá Leonardo-hluta menntaáætlunar Evrópusambandsins upp á ríflega 35 milljónir króna. Samstarfsfundur áðurnefndra aðila til að fylgja verkefninu úr hlaði verður haldinn hér á landi 3.-5. október nk., en stærsti hluti hans mun fara fram hér í Skagafirði.

Nefndin fagnar því að verkefnið hafi hlotið þennan veglega styrk sem er mikil viðurkenning fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í undirbúning þess.

7.Starfsemi dómstóla á landsbyggðinni

Málsnúmer 1109258Vakta málsnúmer

Rætt um leiðir til hagræðingar og aukinnar hagkvæmni í dómskerfinu og þá þjónustu sem kerfið bíður upp á.

Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar fagnar fréttum af því að aðstaða og starfskraftar héraðsdómstóla á landsbyggðinni verði betur nýttir í stað þess að ráðast í kostnaðarsama uppbyggingu við stækkun embætta á höfuðborgarsvæðinu, bæði hvað varðar mannafla og húsnæði. Nefndin leggur áherslu á að ekki einungis verði um tímabundna ráðstöfun að ræða heldur verði horft til framtíðar í þessum efnum. Með því má spara umtalsverða fjármuni úr vösum skattgreiðenda en um leið styrkja umgjörð dómskerfisins í landinu og auka skilvirkni dómstóla.
Dómstólaráð hefur á undanförnum misserum beitt sér fyrir niðurskurði og niðurlagningu héraðsdómstóla á landsbyggðinni og tilflutningi starfa og verkefna til höfuðborgarsvæðisins. Á sama tíma hefur kostnaður vegna ráðsins sjálfs einnig vaxið jafnt og þétt. Þessi viðsnúningur í afstöðu ráðsins er því ánægjulegur og er innanríkisráðherra hvattur til að sjá til þess að því verði fylgt eftir í verki í ákvörðunum stjórnvalda um skipan dómstóla í landinu og fjárveitingum til þeirra til lengri tíma litið.

8.Framtíð áætlunarflugs til Sauðárkróks

Málsnúmer 1109260Vakta málsnúmer

Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir þungum áhyggjum vegna áforma um að áætlunarflug til og frá Skagafirði stöðvist um næstkomandi áramót.
Flugfélagið Ernir hefur sinnt þessari þjónustu undanfarin ár með ágætum og hefur lýst yfir vilja til að gera það áfram ef ríkisvaldið endurskoðar áform sín um að hætta stuðningi við áætlunarflug til Skagafjarðar.
Fyrir ári lá fyrir að flug myndi leggjast af að óbreyttu þegar samningur um ríkisstyrk rann út. Engu að síður tókst þá að tryggja flug til Skagafjarðar til eins árs, m.a fyrir milligöngu innanríkisráðuneytisins. Nú er sama staða kominn upp aftur varðandi framtíð innanlandsflugs til Skagafjarðar.
Sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands til eflingar atvinnulífs og samfélags um land allt (20/20 ? sóknaráætlun fyrir Ísland) hefur það markmið að efla atvinnulíf og samfélag um allt land með fjárfestingu í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins og stefnu um hvernig megi styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun, umhverfismál og samfélagslega innviði. Í því skyni skal samþætta lögbundnar áætlanir á borð við samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, byggðaáætlun, áætlanir í ferðamálum og ýmsar áætlanir í atvinnu- og menntamálum, svo nokkuð sé nefnt. Þá skal sóknaráætlun fela í sér áætlun um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
Í greinargerð faghóps Háskólans á Akureyri vegna samgönguáætlunar 2011-2022 er bent á að reglubundið flug til Skagafjarðar styrki þjónustuna á svæðinu og að með styrkingu slíkra þjónustukjarna á jaðri vaxtarsvæða megi teygja slík svæði lengra og ná þannig til byggðarlaga sem nú liggja utan þeirra. Með styrkari þjónustu á Sauðárkróki megi þannig koma til móts við þarfir íbúa utan Skagafjarðar, þ.m.t. Austur-Húnavatnssýslu.
Áætlunarflug milli höfuðborgarinnar og Skagafjarðar skiptir almenning og fyrirtæki í Skagafirði og nærsveitum gríðarlega miklu máli enda fjölþætt þjónusta sem íbúar, fyrirtæki og opinberar stofnanir á svæðinu þurfa að sækja til höfuðborgarinnar, auk ýmislegs erindreksturs. Þá þurfa landsmenn allir einnig að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem veitt er að hálfu fyrirtækja og stofnanna í Skagafirði. Sem dæmi um mikilvægi flugs og samgangna á svæðinu við höfuðborgina má nefna að meðal mikilvægustu áhersluatriða Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í sóknaráætlun fyrir landshlutann, þar sem markmið 20/20 sóknaráætlunar fyrir Ísland voru til grundvallar, voru áframhaldandi stuðningur við áætlunarflug til og frá Skagafirði og uppbygging samgöngumiðstöðvar í héraðinu. Því skýtur mjög skökku við ef jafn langur vegur er á milli orðs og æðis hjá ríkisvaldinu eins og útlit er fyrir.
Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á þingmenn og ráðherra að sjá til þess að áætlunarflug til Skagafjarðar verði áfram styrkt um komandi ár þannig að þessi mikilvæga þjónusta leggist ekki af. Brýnt er að sá stuðningur verði staðfestur í nýrri 12 ára samgönguáætlun sem fyrirhugað er að samþykkja á komandi haustþingi. Með slíkum stuðningi yrði sýnt fram á að sóknaráætlun ríkisstjórnarninnar sé raunveruleg áætlun um uppbyggingu og styrkingu samfélagslegra innviða í stað fallegra en meiningarlausra orða á blaði, og gjörða sem færa samfélög á landsbyggðinni áratugi aftur í tímann.

9.Samningur milli Svf. Skagafjarðar og Markaðsskrifstofu Norðurlands 2010-2013

Málsnúmer 0912066Vakta málsnúmer

Rætt um þjónustusamningi milli Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Nefndin samþykkir að segja samningnum upp vegna gerðar fjárhagsáætlunar.

10.Styrkir til samstarfs í rafrænni stjórnsýslu

Málsnúmer 1107039Vakta málsnúmer

Rætt um erindi sem Byggðaráð vísaði til nefndarinnar um styrki til samstarfs í rafrænni stjórnsýslu.

11.Áhugahópur um aðgengi

Málsnúmer 1104084Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar frá Byggðaráði erindi varðandi aðgengismál í sveitarfélaginu.

Fundi slitið.