Fara í efni

Samtal við eigendur Sjávarborgar

Málsnúmer 2404052

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 92. fundur - 10.04.2024

Lögð fram tillaga frá VG og óháðum:
"VG og óháð leggja fram þá tillögu að taka samtal við eigendur lands Sjávarborgar með það markmið að ganga til samninga um kaup Sjávarborgarlands sem framtíðarbyggingarlands sveitarfélagsins.
Ásókn í lóðir á Sauðárkróki hefur verið umtalsverð og er full ástæða til að horfa bjartsýn til framtíðar hvað varðar fólksfjölgun og áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Þó standi til að setja Nafirnar aftur inn á Aðalskipulag Skagafjarðar til ársins 2040 sem framtíðarbyggingarsvæði þarf að horfa enn lengra fram í tímann og vera tilbúin með annað landsvæði til uppbyggingar.
Sjávarborgarland býður upp á margskonar skipulag til uppbyggingar en mjög hefur færst í aukana að íbúar vilji byggja utan hins raunverulega þéttbýlis og hafa bæði meira landsvæði og næði í kringum sig. Gæti skipulag á Sjávarborgarlandi komið vel á móts við slíkt.
Að auki myndu kaup á Sjávarborgarlandi greiða götuna í áframhaldandi leit af auknu heitu vatni fyrir sveitarfélagið."
Tillaga VG og óháðra felld með 2 atkvæðum meirihluta fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem leggja fram eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar meirihluta Byggðarráðs, Einar E. Einarsson og Sólborg S. Borgarsdóttir, vilja árétta að gott samstarf hefur verið lengi við eigendur Sjávarborgar um nýtingu heita vatnsins sem er á sameiginlegu upptökusvæði í /undir landi Sjávarborgar og landi sveitarfélagsins. Um nýtingu á heitu vatni í landi Sjávarborgar var gerður samningur á milli eigenda Sjávarborgar og Sauðárkrókskaupstaðar árið 1951. Viðræður eru í gangi á milli aðila um endurskoðun á samningnum og gengur sú vinna vel og miðar vel áfram.
Jafnframt er í gangi vinna af hálfu sömu aðila til að koma á hreint landamerkjum frá Fornósi að Héraðsvötnum. Hefur sú vinna einnig gengið vel og er von á niðurstöðu innan skamms.
Um hugsanleg kaup á (öðru) landi og þá með stækkun þéttbýlisins í huga eða þess að fara að bjóða upp á stærri lóðir, hefur ekki verið rætt og er það ekki stefna núverandi meirihluta að sveitarfélagið bjóði upp á slíkar lóðir. Einnig er rétt að hafa í huga að stór hluti þess lands sem tilheyrir jörðinni Sjávarborg er friðlýst og nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum vegna sérstöðu fuglalífs. Þessi sérstaða takmarkar mjög möguleikana á að nýta landið til annarra hluta og er t.d. umferð um það að stórum hluta óheimil frá 15. maí til 1. júlí ár hvert. Einnig má benda á að bæði þetta landsvæði og það landsvæði sem sveitarfélagið á í kringum Tjarnartjörnina, er erfitt byggingarland.
Við höfnum því tillögu VG og leggjum til að áfram verði unnið með eigendum Sjávarborgar að farsælli niðurstöðu í þeim málaflokkum sem verið er að leiða til lykta í dag."