Fara í efni

Frumvarp um kerfisáætlun

Málsnúmer 1408040

Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarnefnd - 261. fundur - 05.09.2014

Um leið og Skipulags- og byggingarnefnd þakkar fyrir framtak atvinnuvegaráðuneytisins að gefa áhugasömum tækifæri til að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri við drög að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, með síðari breytingum. (Lagt fyrir á Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014-2015) eru eftirfarandi athugasemdir sendar og óskað eftir að tekið verði tillit til þeirra við frekari vinnslu frumvarpsins áður en það verður lagt fram til afgreiðslu Alþingis.

1. Samkvæmt drögunum er vegið að skipulagsvaldi sveitarfélaganna í landinu sem er með öllu ólíðandi. Skipulagsvaldið er einn af hornsteinum sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga og kveðið á um þann rétt í skipulagslögum.

2. Samkvæmt drögunum skal Landsnet leggja fram kerfisáætlun sem ýmsir aðilar geta gert athugasemdir við enda skal hafa samráð við þá aðila. Mjög skortir á hvernig samráðsferli við þessa aðila á að vera en eingöngu vísað til þess að nánar verði kveðið á um samráðsferlið í reglugerð. Því miður verður að viðurkennast að allt tal um samráð af hálfu ríkisvaldsins, fyrirtækja þess og stofnana vekur ugg með undirrituðum enda hræða sporin í þeim efnum sbr. t.d. túlkun sumra ráðherra á samráði við sveitarfélögin í landinu. Brýnt er að samráðsferli Landsnets við hagsmunaaðila verði skýrt í lögunum sjálfum.

3. Orkustofnun fær úrskurðarvald um niðurstöður samráðsferlis og skal staðfesta kerfisáætlun Landsnets. Í kjölfarið ber sveitarfélögum að samræma skipulagsáætlanir sínar vegna verkefna í kerfisáætlun og tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra. Þarna er gróflega vegið að skipulagsvaldi sveitarfélaganna og ekki tryggt hvort eða hvert þau geti skotið úrskurði Orkustofnunar ef þau telja á sér brotið.

4. Vakin er athygli á orðalagi í 9. gr. draganna (c-lið) en þar segir m.a.: "Ef flutningslínu er valinn annar staður, eða önnur útfærsla, en sá sem flutningsfyrirtækið telur réttast með tilliti til kostnaðar, opinberra viðmiða og tæknilegrar útfærslu, og viðkomandi umbeðin útfærsla er umfram það sem samræmist opinberri stefnu stjórnvalda og viðmiðum, er heimilt að krefja þann sem óskar slíkrar breytingar um kostnaðarmuninn leiði sú útfærsla eða staðsetningarval til aukins kostnaðar." Ekkert liggur fyrir um opinbera stefnu stjórnvalda í þessum efnum og hætt er við að sú stefna breytist ótt og títt í takt við ólíka afstöðu stjórnmálaflokkanna til þessara mála hverju sinni. Því mun mjög ólík afstaða geta ráðið för og valdið mjög ólíkri niðurstöðu til flutningsleiða og -máta raforku, en í þessum efnum geta verið verulegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.

5. Hvað varðar fjárhagslega hagsmuni er tiltekið í drögum að 9. gr. b að Orkustofnun skuli staðfesta kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af m.a. markmiðum um hagkvæmni. Ekki er skýrt hvort átt er við hagkvæmni fyrir rekstur Landsnets eða þjóðhagslega hagkvæmni kerfisáætlunar. Í núgildandi raforkulögum er kveðið á um að markmið þeirra sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og því ljóst að þar er átt við hagkvæmni fyrir sveitarfélögin einnig sem og fólkið í landinu. Hagkvæmni getur haft mjög ólíka birtingarmynd eftir því hver á í hlut hverju sinni.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 319. fundur - 01.10.2014

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir kvaddi sér hljóðs.
Afgreiðsla 261. fundar skipulags- og byggingarnefndar staðfest á 319. fundi sveitarstjórnar 1. október 2014 með níu atkvæðum.