Reynistaður

Bærinn hét áður Staður í Reyninesi og var höfðingjasetur frá landnámi. Á fyrri hluta 10. aldar bjó þar landkönnuðurinn Þorfinnur karlsefni með konu sinni Guðríði Þorbjarnardóttur, eftir að þau komu heim frá Vínlandi (N-Ameríku).

Á 13. öld var Reynistaður eitt af höfuðbólum Ásbirninga. Guðmundur góði Arason var prestur þar árið 1198. Frá Reynistað fór hann í Víðimýri til Kolbeins Tumasonar. Brandur Kolbeinsson tók við búinu á Reynistað af föður sínum, Kolbeini kaldaljósi. Brandur var felldur í Haugsnesbardaga 1246. Árið 1259 keypti Gissur Þorvaldsson Reynistað og eftir að hann fékk jarlsnafnbót varð Reynistaður jarlssetur. Gissur dó árið 1268 en hafði gefið staðinn til nunnuklausturs áður. Klaustrið var stofnað 1295 og var lagt niður 1552. Sagt er að Gissur jarl sé grafinn undir gólfi kirkjunnar.

Félagið á Sturlungaslóð fékk að setja upp skilti um veldi og ættarhöfðingja Ásbirninga sem sannarlega tengist sögu Reynistaðar.

Kirkja hefur sennilega verið á Reynistað frá 11. öld. Núverandi ­kirkja á Reynistað er reist 1868-1870 og er friðuð samkvæmt aldursákvæði laga um menningarminjar.

Þegar gamli bærinn á Reynistað var rifinn 1935 var bæjardyrahúsið látið standa, en það er með stafverksgrind af þeirri gerð sem tíðkaðist á 18. öld og á rætur að rekja aftur í miðaldir.  

Segja má að bæjardyrahúsið sýni þá byggingargerð sem Ásbirningar og aðrir 13. aldar menn byggðu. Húsið var flutt til árið 1999, gert við viðina og það endurreist nálægt upphaflegum stað. Í kirkjugarðinn skammt frá kirkjunni. Það er í Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is