Örlygsstaðir

Stöðugur ófriður var í landinu eftir að Sturla Sighvatsson kom frá Noregi 1235 með þann ásetning að leggja landið undir sig. Dró enn til ófriðar árið 1238 er Örlygsstaðabardagi var háður, fjölmennasta orrusta Íslandssögunnar. Snemma í ágúst safnaði Sturla miklu liði um Vestfirði og Vesturland. Njósnamenn Kolbeins unga komust að liðssafnaðinum og létu hann vita, þar sem hann var að skemmtun á hestaþingi að Hestaþingshamri. Kolbeinn fór þegar úr héraði og reið suður um Kjöl að leita liðsinnis Haukdæla. Hann hafði með sér 180 manna lið Skagfirðinga. Her Sturlu hætti ekki við herförina og hélt norður og töldu Kolbein flúinn úr Skagafirði.

Þann 10. ágúst árið 1238 kom Sturla Sighvatsson með fjölmennt lið í Skagafjörð. Foringi Ásbirninga, Kolbeinn ungi, reið suður Kjöl eftir liðsauka til Gissurar Þorvaldssonar. Á meðan dreifðu Sturlungar sér á bæina og biðu komu hinna. Lið Ásbirninga og bandamenn þeirra, 1700 manns, söfnuðust saman við Reykjalaug kvöldið fyrir bardagann. Um morguninn var liðum fylkt til árásar. Liðsmenn Sturlunga, 12-1300 manns, vöknuðu við vonan draum þegar lið Ásbirninga reið yfir Vötnin með miklu herópi. Flestir voru óviðbúnir, ekkert ráðrúm gafst til að hervæðast og hörfuðu menn upp í gerðið á Örlygsstöðum. Þar voru þeir króaðir af. Bardaginn stóð stutt, Sturla Sighvatson og aðrir höfðingjar voru drepnir. Þar létust 49 menn úr liði Sturlunga og 7 úr liði Ásbirninga og Haukdæla sem voru bandamenn þeirra. Þessi atburður markaði endalok þjóðveldistímans á Íslandi.  

Söguritari Sturla Þórðarson lýsir atburðarásinni á Örlygsstöðum nákvæmlega og dregur ekkert undan. Hann gerir jafnvel grín að aðstæðunum þótt náfrændur falli. Sighvatur var veginn og norðar í gerðinu stóð Sturla sonur hans og varði líf sitt. Hann hafði spjótið Grásíðu, sem Gísli Súrsson hafði eitt sinn átt, að því er sagt var. Það var allt rúnum rist. Spjótið þoldi illa átökin og bognaði, er Sturla lagði ótt og títt svo menn féllu fyrir. Brá Sturla spjótinu undir fót sér nokkrum sinnum og rétti af. Snorri Þórðarson liðsmaður Sturlu varði hann, því ekki hugsaði hann um að hlífa sér. Sóttu menn Gissurar að og náðu að leggja Sturlu svöðusári, svo hann féll við. Kom þar að Gissur Þorvaldsson og tók af honum stálhúfu sem hann hafði og hjó í höfuð Sturlu með exi. Það varð hans bani. Markús var einnig felldur í gerðinu. Þannig lauk Örlygsstaðabardaga því Kolbeinn Sighvatsson og Þórður krókur, sem bjuggust til varnar með mikið lið, sennilega utan við gerðið, á svokallaðri Miklabæjarborg og í bænum, flúðu til kirkju og leituðu griða er þeir fréttu af falli bræðra sinna og föður. Unglingurinn Tumi Sighvatsson flúði hins vegar til fjalls með margt manna og komst þannig undan um Miðsitjuskarð til Eyjafjarðar.

Árið 1988 var reist minnismerki á staðnum um bardagann, þar sem gangur hans er rakinn. Gerðið á Örlygsstöðum er enn sjánalegt vor og haust sem þúfnakrans, sem er grasivaxinn og nær ósýnilegur yfir sumartímann. 

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is