Hólar í Hjaltadal

Á Hólum í Hjaltadal var settur biskupsstóll árið 1106. Einn þekktasti biskupinn þar var Guðmundur Arason, sem  hafði viðurnefni góði og gegndi embætti biskups í rúma tvo áratugi á fyrri hluta 13. aldar. Guðmundur var vinsæll meðal alþýðu manna en þurfti oft að hrökklast frá staðnum vegna deilna við veraldlega valdamenn landsins. Árið 1208 leiddu deilur milli hans og skáldsins Kolbeins Tumasonar, goðorðsmanns af ætt Ásbirninga, til átaka við Víðines, skammt neðan við Hóla, þar sem Kolbeinn beið bana.

Veturinn eftir Víðinesbardaga hafði biskup tögl og hagldir í Skagafirði og krafðist sekta af mönnum sem höfðu ráðist að honum með Kolbeini. Sendi hann menn í yfirreiðir um héruð til þess að innheimta sektirnar með góðu eða illu. Það mæltist ekki vel fyrir og með vorinu fóru orð milli norðanmanna um að jafna reikningana við biskup og menn hans. Höfðingar landsins gátu heldur ekki með nokkru móti liðið það að biskupsmenn kæmust upp með að fella einn úr þeirra röðum án afskipta og bundust sjö ættarhöfðingjar samtökum gegn Hólabiskupi. Þetta voru: Haukdælingurinn Þorvaldur Gissurarson, Ásbirningurinn Arnór Tumason bróðir Kolbeins, Svínfellingurinn Jón Sigmundarson, þeir bræður Sturlungarnir Sighvatur og Snorri Sturlusynir, Þorvaldur Snorrason, Vatnsfirðingur og Magnús Guðmundarson gríss af Þingvöllum, sem síðar var kjörinn til biskupsembættis en andaðist áður en hann fékk vígslu. Þórður Sturluson var vinur Guðmundar biskups og var ekki hrifinn af þessu herhlaupi á hendur Guðmundi biskupi og sneri Sighvat af sér er hann bað hann liðveislu. 

Eftir páskana vorið 1209 drógu höfðingjar lið sín saman og fóru að biskupi með 840 manna liðsveit. Biskup hafði á hinn bóginn heldur fátt manna heima. Þrátt fyrir það snérust ýmsir biskupsmenn til varnar. Aðrir flúðu í kirkju. Höfðingjar gáfu biskupi tvo kosti. Var annar sá að hann leysti alla úr banni sem hann hafði bannfært og færi sjálfur burtu af staðnum og kæmi þangað aldrei aftur. Í staðinn myndu þeir gefa sumum manna hans grið. Hinn kosturinn var að ef hann ekki færi burt dræpu þeir alla sem í kirkju höfðu flúið og hefðu biskup sjálfan á brott svívirðilega. Biskup kvaðst hvorugt kjósa, en söng „Miserere“ yfir þeim sem lífsvon höfðu, þ.e. hann leysti þá úr banni.

Málslok urðu þau að Snorri Sturluson bauð biskupi til sín suður í Reykholt og dvaldist biskup þar um veturinn. Þrír menn biskups voru teknir af lífi. Þeirra á meðal Skæringur prestur, sem hafði brotið skírlífsheit og átt barn með konu sem hann átti ekkert með og var einn þeirra manna sem hafði valdið ágreiningi milli biskups og Kolbeins Tumasonar. En Kolbeinn hafði dæmt prest fyrir legorð sem biskup sagði að væri ekki á hans könnu heldur kirkjunnar. Í deilum Kolbeins Tumasonar og Guðmundar góða birtist sú togstreyta sem var að verða á milli veraldlegs og kirkjulegs valds og átti eftir að umbylta valdakerfi landsins.

Dómkirkjur á Hólum
Alls voru fimm dómkirkjur reistar á Hólum eftir 1106. Hin fimmta og síðasta stendur enn. Fjórar fyrstu kirkjurnar voru risastórar glæsilegar timburkirkjur. Sú fyrsta reis1106, önnur 1266, þriðja 1395 og fjórða 1625-1627. Fimmta dómkirkjan er sú sem enn stendur byggð 1757-63, úr rauðum sandsteini úr Hólabyrðu, sem er fjallið sem rís upp af staðnum. Hún er elsta steinkirkja landsins, einföld, tignarleg í síðbarokkstíl og geymir forna helgigripi frá eldri kirkjunum. Þar er enn altarisbrík sú er Jón Arason gaf til sinnar kirkju um árið 1530, alabastursbrík frá Nottingham í Englandi frá því um 1470, legsteinar og grafir biskupa, róðukross með Kristlíkneski í fullri líkamsstærð frá því fyrir 1550, frumprentun Guðbrandsbiblíu frá 1584, og fleira merkilegt.

Frá 1106-1801 var lengstum rekinn skóli við biskupsstólinn. Skólahald var endurvakið 1882 þegar Bændaskólinn var stofnaður, sem var viðleitni til að mennta bændasyni og sporna við vesturferðum Íslendinga. Þar er nú kennd hestamennska, fiskeldi og ferðamálafræði á háskólastigi. 

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is