Glaumbær

Glaumbær var landgóð jörð og höfuðból frá fyrstu tíð. Elsta sögn um kirkju þar er í Grænlendinga sögu. Þar segir að Snorri Þorfinnsson hafi látið reisa kirkju á meðan móðir hans, Guðríður Þorbjarnardóttir, gekk suður til Rómar á fyrri hluta 11. aldar. Sú kirkja sem nú stendur var vígð 1926.

Afkomendur Guðríðar, Þorfinns karlesefnis og Snorra bjuggu í Glaumbæ fram á 13. öld. Hallur Þorsteinsson, sem bjó þar þá er talinn hafa verið afkomandi þeirra. Hallur fylgdi Sighvati Sturlusyni að málum á meðan Sighvatur stýrði ríki Ásbirninga fyrir Kolbein unga Arnórsson, fyrstu árin eftir að sá síðarnefndi tók við ríki þeirra en snerist á sveif með Kolbeini þegar hann sá hvernig fór fyrir Kálfi á Miklabæ. Hann studdi Kolbein eftir það og barðis með honum á Örlygsstöðum 1238. Hallur var einnig liðsmaður Brands Kolbeinssonar á Reynistað, ættarhöfðingja Ásbirninga, í Haugsnesbardaga 1246.

Hallur seldi Hrafni Oddssyni riddara og síðar hirðstjóra Glaum­bæ árið 1254 og þar með var staðurinn farinn úr eigu afkomenda Vínlandsfaranna. Sonarsonur Hrafns, kallaður Glaumbæjar-Hrafn og var Jónsson, var talinn mesti höfðingi Skagafjarðar á sínum tíma. 

Í Glaumbæ hafa verið höfuðstöðvar Byggðasafns Skagfirðinga. Elsta sýning safnsins er í gamla torfbænum í Glaumbæ. Opnuð 1952. Í Glaumbæ eru tvö 19. aldar timburhús sem þjóna safni og safngestum. Annað er elsti sýslukontór Skagfirðinga, kallað Gilsstofa og er hún endurgerð húss frá 1849. Hitt er íbúðarhús frá Ási í Hegranesi, sem var byggt þar á árunum 1883-1887. Í húsum þessum eru sýningar, minjagripasala, skrifstofur og kaffistofa.

 

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is