Geldingaholt

Bærinn Geldingaholt er á lágu samnefndu holti vestan Héraðsvatna. Meðfram Geldingaholti að austan rennur Húseyjarkvísl og kallast þar Holtskvísl. Geldingaholt var höfuðból og kirkjustaður á miðöldum og var kirkjan helguð Pétri postula en hún var aflögð árið 1765.

Árið 1252 bjó Þórður kakali þar, áður en hann var kallaður út á fund Noregskonungs. Þegar Gissur Þorvaldsson var kallaður á konungsfund 1254 setti hann Odd Þórarinsson Svínfelling, yfir ríki sitt í Skagafirði og bjó Oddur um sig í Geldingaholti. Oddur hafði mannaforráð á Austfjörðum ásamt Þorvarði bróður sínum, á Hofi í Vopnafirði.

Þótt Oddur væri rétt liðlega tvítugur, tóku bændur í Skagafirði honum vel, enda mikill atgerfismaður. Honum er svo lýst í sögunni: „Oddur var mikill maður vexti. Eigi mátti hann sterkan kalla að afli, en þó var hann hinn knásti og manna mjúkastur og bezt að íþróttum búinn með Þorvarði, bróður sínum og Kolbeini (unga). Oddur var ljósjarpur á hár og vel andlitsfarinn, bláeygur og manna best á sig kominn, blíður og góður við alþýðu, ör af fé. Manna var hann vopnfimastur, og svo sagði Þorvarður, bróðir hans, að það væri einskis manns færi eins á Íslandi að skipta vopnum við Odd.“ 

Framan af gekk Oddi vel að fást við brennumenn. Hann elti Hrana Koðránsson út í Grímsey og felldi, en Eyjólfur ofsi og Hrafn Oddsson voru honum erfiðari. Fór Oddur vestur í Vatnsdal til Þorsteins Jónssonar í Hvammi, sem hafði verið dæmdur sekur á Alþingi ásamt með öðrum brennumönnum og lét Oddur reka þaðan sauðfé og nautgripi, án þess að láta fara fram löglegan féránsdóm, er svo var kallaður. Mæltist það almennt illa fyrir. Heinrekur biskup á Hólum, sem var andstæðingur Gissurar og þar með Odds, nýtti sér þessi mistök hans og krafðist þess að hann skilaði fénu. Oddur neitaði því, og lýsti Heinrekur hann í bann. Var ránið í Hvammi raunar ekki eina sakarefni Odds. Nokkrum dögum eftir bannfæringuna var Heinrekur biskup á Fagranesi á Reykjaströnd að vígja kirkju. Oddur frétti af því og reið þangað með rúmlega 20 manns. Kom hann þar að er biskup var að hefja máltíð og mæltist til sætta við hann og bauðst til að ríða brott úr Skagafirði, ef biskup vildi ábyrgjast að brennumenn kæmu ekki í héraðið. Biskup kvaðst ekki geta ábyrgst það, en bað Odd að ríða á brott til síns heima á Austfjörðum og bæta Þorsteini í Hvammi ránið. Oddur hafnaði því. Lauk fundum þeirra svo, að Oddur og félagar hans lögðu hendur á biskup og treystist enginn veislugesta á Fagranesi til að verja hann er Oddsmenn tóku hann nauðugan með sér og færðu að Flugumýri. Sat biskup þar í haldi í húsum í virkinu, þar sem Kolbeinn ungi hafði látið gera fyrir ofan bæinn. Þetta framferði ofbauð mönnum og safnaðist brátt mannfjöldi heim að Flugumýri sem vildi fá biskup lausan. Lét Oddur undan á endanum. Á meðan biskup var í haldi voru hvergi sungnar tíðir og hvergi hringt klukkum í biskupsdæminu, sem sýnir vald og helgi biskupsembættisins þrátt fyrir hin veraldlegu áflog.

Eftir þetta reið Oddur austur að Valþjófsstað með mönnum sínum og settist að um hríð en fór brátt af stað, fyrst suður á land og um jólin norður í Skagafjörð og hertók bæinn Geldingaholt. Þar bjó Kolfinna Þorsteinsdóttir, systir Eyjólfs ofsa og góð vinkona Þórðar kakala. Settist Oddur og lið hans í búið og „var höggvið bú Kolfinnu húsfreyju margt og etið, meðan það entist.“

Eyjólfur ofsi og Hrafn Oddsson söfnuðu liði úr Eyjafirði og Svarfaðardal. Fóru um 80 manns um Hörgárdal yfir Hjaltadalsheiði og höfðu hraðann á eftir að komið var ofan Hjaltadal. Þetta var 13. janúar og sléttur ís lá yfir öllu og hefur verið sjón að sjá hersinguna ríða alvopnaða út dalinn. Í Ási í Hegranesi fréttu Eyfirðingar að Oddur sæti í Geldingaholti.

Er þeir Eyjólfur og Hrafn komu að Geldingaholti var einn manna Odds að gá að hestum, en engir verðir og var maðurinn drepinn samstundis. Þeir komu að bænum og voru þrjár dyr á. Skipaði liðið sér á allar dyr, Hrafn og Eyjólfur á aðaldyrnar, Ásgrímur bróðir Eyjólfs og menn hans á eldhússdyrnar, og Svarthöfði Dufgusson og menn hans á suðurdyr.

Kona að nafni Öngul-Þóra varð ófriðarins fyrst vör. Voru menn þá einmitt að ræða hversu langt þyrfti að sækja norður til að ná þeim Hrafni og Eyjólfi, en hlupu nú upp og tóku vopn sín. Oddur fór í aðaldyrnar og varði þær. Vörðust menn hans vel, en menn Eyjólfs fóru upp á þak og rifu  það af. Lögðu þeir spjótum inn og grýttu.

Þórir tottur, einn manna Odds, varði suðurdyrnar og í fyrstu vel, en hljóp svo út og í kirkju og Þórir grautarnefur með honum. Tottur slapp en grautarnefur, sem hljóp þegar aðrir hlupu, gat ekki á sér setið að hæðast að innrásarliðinu, er hann taldi sig óhultan í skjóli kirkjugarðsins og æpti að þeim hæðnisorð. Hann var felldur þar. Voru nú eldhúsdyrnar varnarlausar og hlupu árásarmennirnir þar inn. Hrafn Oddsson var í forystu, og sótti liðið inn í skálann og komust aftan að Oddi. Margir voru til varnar í skálanum, og var hart barist, en Hrafn og menn hans brutust í gegn um allar varnir. Sóttu þeir að Oddi úr þremur áttum þar sem hann og menn hans voru í anddyrinu, utan frá, ofan frá og úr skálanum.

Oddur lagði til að þeir gerðu útrás svo hægara yrði að berjast. Hljóp hann við svo búið út, í grænum kyrtli og bar sverð, skjöld og stálhúfu. Hann komst langt niður á völl enda var hann „manna fimastur við skjöld og sverð þeirra allra, er þá voru á Íslandi,“ segir í Sturlungu. Már Eyjólfsson fylgdi honum einn og voru þeir algjörlega ofurliði bornir þótt Oddur verðist af fádæma hreysti. Enginn gat komið á hann sárum á meðan hann hafði krafta. „Hlífði hann sér með skildinum, en vá með sverðinu eða sveiflaði því í kring um sig. Hann varðist svo fræknilega, að varla finnast dæmi til á þeim tímum, að einn maður hafi betur varizt svo lengi á rúmlendi fyrir jafn margra manna aðsókn úti á víðum velli“(Sturlunga saga I, 1946. Bls. 515). Eftir harða hríð fleygði maður sér aftan á fætur Odds, sem þá var orðinn mjög móður og felldi hann. Óskaði Oddur prestsfundar en fékk ekki, og unnu margir á honum.

Átta menn féllu með Oddi í Geldingaholti. Eftir fall hans fengu flestir grið. Oddur var grafinn utan kirkjugarðs í Seylu, en þó inn undir garðinn. Var þetta gert af því að hann var í banni er hann dó. Eftir dráp Odds var komið að Þorvarði að hefna bróður síns á þeim Eyjólfi og Hrafni, en það er önnur saga.

Gissur Þorvaldsson kom ekki til baka úr Noregsförinni fyrr en 1259 og hafði þá jarlsnafnbót upp á vasann. Páll sonur Kolbeins kaldaljóss, bróðir Brands sem drepinn var í Haugsnesbardaga, bjó þá á Reynistað. Hann seldi Gissuri ættaróðalið og fór sjálfur byggðum að Úlfsstöðum í Blönduhlíð. Hafði sama ættin þá setið Stað í Reyninesi (Reynistað) frá landnámstíma. Afkomendur og ættingjar Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur. Gissur gaf Reynistað undir nunnuklaustur, sem hóf starfsemi þar árið 1298. Gissur jarl bjó á Stað til dánardags 1268 og sagt er að hann sé grafinn þar innan kirkju.

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is