Fosslaug

Árið 2011 var hreinsað upp úr Fosslaug í landi Reykja, sem er heit laug á árbakka Svartár, skammt frá Reykjafossi. Helgi Sigurðsson, torf- og grjóthleðslumeistari hlóð upp veggi laugarinnar og gekk frá henni þannig að hægt er að setjast í hana. Margar heitar laugar eru í landi Reykja og þar áðu og sameinuðust fylkingar Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar daginn fyrir Örlygsstaðabardaga. Vafalaust hafa menn gengið til lauga, í einhverri Reykjalauginni eða Steinsstaðalaug og baðað sig eftir langt ferðalag, hresst sig við og lagt á ráðin.

Gengið er að Fosslaug frá Vindheimamelum eftir götum sem liggja á bakkanum á móti Reykjafossi, yfir brú á affalla, og meðfram ánni þar til laugin blasir við. Hún er um 40°C heit og góð til baða en hún er ekki hreinsuð og þar er engin aðstaða önnur en náttúran sjálf. Allir eru velkomnir að taka sér bað en þeir gera það á eigin ábyrgð.   

Nafnþekktar heitar laugar í Skagafirði, sem voru í notkun á miðöldum voru t.d.: Vindheimalaug, Steinsstaðalaug og Reykjalaug sem allar eru í Reykjatungunni austan Svartár. Vestan Svartár á sama svæði voru Skíðastaðalaug og Reykjavallalaug. Nokkru norðar var Vallnalaug, þar sem var áningarstaður í miðhéraðinu á miðöldum og seinna þingstaður. Norðar var Reykjarhólslaug, sem sér sundlauginni í Varmahlíð fyrir vatni. Í Hjaltadal var Reykjalaug, betur er þekkt nú sem Biskupslaug (á Reykjum var líka Vinnufólkslaug sem nú er horfin).

Úti á Reykjaströnd var Reykjalaug. Hún var með öllu horfin á seinni hluta 20. aldar. Árið 1992 var heit uppsrettan beisluð aftur og laug hlaðin upp að nýju og kallast nú Grettislaug til heiðurs sögupersónunni Gretti Ásmundarsyni og er hún orðin vinsæll ferðamannastaður. Út að austan, úti í Fljótum, voru Reykjarhólslaug, Barðslaug og fleiri laugar. Miklu fleiri heitar og volgar laugar í Skagafirði voru notaðar, bæði til þvotta og baða.

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is