Baksvið sögunnar

Á miðöldum skipuðu Íslendingar sér undir 36 og síðar 39 goðorð. Bændur, þeir menn er stóðu fyrir búi, völdu sér goðorð til að vera í og þar með að fylgja þeim sem því réði. Goði var sá sem réði goðorði. Goðar gátu neitað að taka við bónda sem þeim leist ekki á, og bóndi gat valið sér hvaða goða sem var og skipt um ef vera vildi. Goðorðin voru þess vegna ekki landfræðilega afmörkuð svæði heldur tengsl milli manna, þess sem hafði forystu og þeirra er fylgdu.

Á Norðurlandi voru 12 goðorð en níu í hverjum hinna fjórðunganna. Meginreglan var sú að goðorð gengu í arf, en það var líka hægt að kaupa þau eða fá þau gefins. Einn maður gat ráðið goðorði og menn gátu líka skipt þeim með sér. Eins gat einn maður ráðið yfir fleiri en einu goðorði og þróunin var orðin sú á 12. og 13. öld. Einn goðanna í hverjum fjórðungi varð valdameiri en hinir. Einskonar oddviti þeirra. Vinsælir goðar höfðu marga stuðningsmenn og bændur fylktu sér um þá. Þá gátu ríkir og valdamiklir goðar kúgað þá valdaminni til að selja sér eða gefa goðorð þeirra sem minna máttu sín. Þannig söfnuðust goðorðin til fárra ætta. Í byrjun 13. aldar var mest öllu Íslandi skipt upp í valdasvæði fimm ætta.

 Á 13. öld voru þrjú goðorð í Skagafirði. Eitt var vestan Vatna, eitt austan Vatna og eitt var í Skagafjarðardölum. Þegar þar var komið sögu lutu öll sömu ætt, Ásbirningum.

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is