Kolbeinn ungi

Kolbeinn ungi var einn glæsilegasti hershöfðingi Sturlungaaldar. Hann er talinn fæddur árið 1208 og skírður rótgrónu ættarnafni, sama ár og Kolbeinn Tumason frændi hans féll í Víðinesbardaga. Kolbeinn ungi er fyrst nefndur til sögu þegar sagt er frá andláti Arnórs föður hans í Noregi árið 1221. Sumarið 1224 kom Kolbeinn frá Noregi og fékk viðurnefnið ungi til aðgreiningar frá frænda sínum Kolbeini kaldaljósi Arnórssyni á Reynistað.

Vorið 1225 tók Kolbeinn ungi við ríki föður síns í Skagafirði. Sighvatur Sturluson, sem var giftur Halldóru Tumadóttur, föðursystur hans, var honum til ráðuneytis um héraðsstjórn fyrstu árin. Settist Kolbeinn að í Ási í Hegranesi og þótti fljótlega efnilegur höfðingi og sýndi að hann hafði sjálfstæðar skoðanir og bauð flestum birginn. Ekki leið á löngu þar til að hann lenti upp á kant við Guðmund biskup á Hólum, sem bannfærði hann.

Árið 1227 reið Kolbeinn suður í Reykholt, sennilega að undirlagi Sighvatar, og bað um hönd Hallberu dóttur Snorra Sturlusonar og kvæntist henni. Tveimur árum síðar (1229) fluttu þau í Víðimýri, að því er segir í Íslendinga sögu. Þangað kom frændi hans Sturla Sighvatsson og urðu þeir mestu mátar að því er virðist og voru tíðum að reyna þrek og þor hvors annars. Báðir voru kappsamir og eitt sinn þegar þeir kepptu um hvor gæti stokkið hærra upp í virkisvegginn á Víðimýri, sem Snorri Sturluson hafði reist þar nokkru fyrr, sleit Sturla sin í fæti. Sagan sýnir þar á skemmtilegan hátt manngerðir þessara óforsjálu ungu frænda og að virkisveggir voru sennilega snarbrattur og hátt hlaðinn úr torfi og grjóti fremur en tré. 

Kolbeinn veitti Sturlu lið á Alþingi 1229 gegn tengdaföður sínum, Snorra Sturlusyni út af Sauðafellsför þeirra Vatnsfirðinga þegar þeir rændu og brutu bæ Sturlu og drápu fólk. Snorri studdi Vatnsfirðinga þegar málið kom til þings og mun hafa vitað um aðförina. Kolbeinn og Hallbera Snorradóttir áttu erfiða sambúð og þjáðist hún af heilsuleysi og óhamingju. Á þinginu 1229 fór hún til búðar föður síns og dvaldi þar yfir þingtímann. Fór Kolbeinn heim án hennar en hún fór í Reykholt og var þar um skeið. Hún kom norður en stoppaði stutt og kom ekki í sæng Kolbeins, eins og segir í Íslendinga sögu. Fór hún svo suður til móður sinnar, Herdísar Bessadóttur á Borg á Mýrum. Árið 1231 var hún orðin svo veik að henni var vart hugað líf. Guðmundur biskup kom að Borg af Alþingi og með honum Dálkur prestur, sem talinn var góður læknir og sagðist hann geta gert laug, sem myndi lækna hana, ef hún þyldi. Svo fór að Hallbera þoldi ekki laugina og lést skömmu síðar. Um leið og Kolbeinn frétti lát hennar fór hann suður á land og bað um hönd Helgu dóttur Sæmundar í Odda, og var hún gift honum.

Kolbeinn og Snorri Sturluson deildu út af arfi eftir Hallberu og munaði minnstu að syði upp úr. Reið Snorri til Alþingis með 960 manna lið, en Kolbeinn kom að norðan með 720 menn. Haukdælir og Þórður Sturluson gengu á milli og Snorri og Kolbeinn sættust um að Snorri fengi helming þeirra goðorða sem Kolbeinn átti, en Kolbeinn átti að hafa umsjón með goðorðunum og veita Snorra lið á þingum. Til að treysta sættina var Arnbjörg systir Kolbeins gift Órækju syni Snorra. Það sýnir kænsku Kolbeins að hann galt Snorra í raun aldrei neitt eftir Hallberu, og hélt öllu sínu.

Kolbeinn ungi hélt upp andófi gegn biskupsvaldinu og tók á móti Guðmundi biskupi góða þegar hann kom til Skagafjarðar 1232 með flokk manna. Biskup bannfærði Kolbein. Var Kolbeinn með vopnað lið í Viðvík og tvístraði þar liði biskups og hneppti hann í stofufangelsi þar sem hann mátti einungis hafa félagsskap tveggja presta. Máttu þeir syngja messur, en ekki fara neitt. Endaði sú vist með því að biskup aflétti banninu af Kolbeini.

Um 1234 bjó Kolbeinn ungi á Flugumýri og ríkti yfir Skagfirðingum. Sighvatur Sturluson sat á Grund og var ekki lengur eins vinveittur Kolbeini og fyrrum, en hann var vinsæll höfðingi og átti ítök í skagfirskum bændum sem leituðu hans ráða. Kolbeinn var kappsfullur og náði ekki vináttu eldri manna í Skagafirði, sem höfðu vingast við Sighvat þear hann aðstoðaði Kolbein við að fóta sig í forystuhlutverkinu. Þeirra á meðal voru nokkrir stórbændurnir Kálfur Guttormsson á Miklabæ, Hallur Þorsteinsson í Glaumbæ og fleiri. Kolbeinn þoldi hvorki þeim né öðrum Skagfirðingum nokkra uppivöðslusemi og taldi sig nauðugan til að beita þá vopnum til að beygja þá og  hlýða sér. Í hita leiksins og með liðveislu Órækju Snorrasonar mágs síns hélt hann með her norður til Eyjafjarðar á fund Sighvats, sem  barst njósn af för þeirra og snéru þeir þá við. Á heimleiðinni kom Kolbeinn við á Miklabæ og lét taka Kálf og Guttorm son hans af lífi.

Þetta háttalag Kolbeins olli mikilli spennu bæði í Skagafirði og Eyjafirði og menn voru í hópum undir vopnum. Svo mikið gekk á að bæði Kolbeinn og Sighvatur leituðu liðs Guðmundar biskups, þótt þeir væru svarnir óvinir hans, en þeir Reykholtsfeðgar Snorri Sturluson og Órækja Snorrason, bandamenn Kolbeins er þarna kom sögu, voru mjög vinveittir Guðmundi og ákvað biskup því að fara að Flugumýri og styðja Kolbein, sem bjóst aftir til norðurferðar.

Á sama tíma og Kolbeinn var á leið norður í Eyjafjörð með 720 manna lið kom Sighvatur vestur í Skagafjörð með 480 manna lið. Hittust herirnir í Flatatungu og bjuggust til bardaga. Sighvatur bjó um sig uppi á bæjarhúsunum og hugðist verjast þar. Áður en til bardaga kom reyndi maður úr liði Kolbeins, sem var vinveittur Sighvati, að leita sætta. Kolbeinn brást reiður við en svo fór þó að ekkert varð úr bardaga og Magnús Skálholtsbiskup var fenginn til að sætta málin.

Eftir þetta snérust mál á þann veg um skeið að misklíð óx milli Snorra Sturlusonar og Kolbeins unga en Sighvatur og Kolbeinn vinguðust á ný. Vorið 1235 bjóst Kolbeinn til utanferðar og fékk Sighvati forráð yfir ríki sínu, sem fékk það Þórði kakala syni sínum og sat hann á óðali Kolbeins á Flugumýri og fór vel með. Kolbeinn fór fyrst til Noregs og þaðan til Rómar á fund páfa til að losna undan syndum vegna framferðis síns við Guðmund biskup. Það sýnir kannski best ofurvald kirkjunnar að þeir skyldu báðir, Sturla Sighvatsson og Kolbeinn ungi, verða að fara á fund páfa til syndaaflausnar í deilumálum þeirra gegn biskupi og kirkju. Er Kolbeinn kom aftur til Noregs fór hann á fund Hákonar Noregskonungs, en ekki varð hann handgenginn honum, eins og flestir aðrir íslenskir höfðingjar í þá daga. Það hlýtur að hafa þótt tíðindum sæta þar sem konungur lagði mikið kapp á að gera íslenska höfðingja sér handgengna og ásældist völd í landinu, leynt og ljóst. Heim kominn tók Kolbeinn aftur við ríki sínu í Skagafirði og brátt uxu væringar á ný milli hans og þeirra Grundarfeðga.

Saga Kolbeins unga eftir þetta er nátengd afdrifaríkustu atburðum Sturlungaaldar allt til dauða hans 1245. Árið 1238 leiddi hann her Ásbirninga og Haukdæla ásamt Gissuri Þorvaldssyni, tryggum bandamanni sínum og fyrrum svila, gegn Sturlungum í Örlygsstaðabardaga. Þar unnu þeir glæsilegan sigur, en engan veginn endanlegan. Höfuð andstæðingur Kolbeins eftir það var Þórður kakali, fyrrum vinur hans og bústjóri. Þórður hafði verið með Hákoni konungi er Kolbeinn lét drepa föður hans og bræður á Örlygsstöðum og komst ekki til baka úr konungsgarði fyrr en árið 1242. Áttust þeir Kolbeinn og Þórður við í Flóabardaga, sem sagt er frá annars staðar hér í ritinu.

Árið 1239 var Kolbeinn að leikum í Hörgárdal er hann skaðaði sig á bringunni og opnaðist sár, sem ekki vildi gróa og átti lengi við það mein að stríða. Þetta háði honum mjög síðustu æviárin og hann hefur sennilea verið kvalinn í Flóabardaga í júlí 1244 þegar hann barðis við Þórð kakala í Flóabardaga. Deilum þeirra Kolbeins og Þórðar var skotið til Noregskonungs, því Þórður var hirðmaður hans. Ekki varð úr því að konungur skæri úr um deilumál þeirra því Kolbeinn lést af brjóstmeininu í júlí 1245. Við völdum hans í Skagafirði tók Brandur Kolbeinsson frændi hans á Stað í Reyninesi. Áður en Kolbeinn dó hafði hann ákveðið að afhenda Þórði kakala Norðausturland, til að tryggja friðinn. Og afthenti honum föðurarf sinn, sem Kolbeinn hafði náð undir sig með Örlygsstaðabardaga. Þórður fór einnig með völd vestan lands, og var nú komin upp svipuð staða og fyrir Flóabardaga að Sturlungar réðu Norðausturlandi og Vesturlandi, en Ásbirningar Skagafirði og höfðu stuðning Haukdæla.

 

 

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is