Kolbeinn Tumason

Kolbeinn Tumason fæddist 1171 eða 1173 og féll í Víðinesbardaga 8. september 1208. Kolbeinn var landsþekkt skáld og goðorðsmaður. Faðir hans Tumi Kolbeinsson dó 1186 og Kolbeinn erfði Goðdælagoðorð eftir hann. Önnur goðorð í héraðinu voru í höndum frænda hans Kolbeins Arnórssonar og Þorgeirs Brandssonar. Kolbeinn fór til Noregs sumarið 1187 og árið 1191 er hans getið þannig að ljóst er að um tvítugt var hann orðinn mikils háttar maður. Sennilega var hann þá orðinn oddviti þeirra Ásbirninganna.

Árið 1191 var hann staddur á kaupstefnu á Gásum í Eyjafirði og Brandur Örnólfsson frá Tjörn í Svarfaðardal flýði á náðir hans og bað hann að bjarga sér en Brandur hafði sært mann til ólífis á kaupstefnunni. Kolbeinn kom Brandi úr landi án þess að spyrja kóng né prest og án þess að skeyta nokkuð um ættir eða mægðir.

Aðdragandinn var sá að Brandur þessi, sem var Svarfdælingur, reið ótömdu hrossi til Vallakirkju og batt á meðan Guðmundur Arason, þá prestur, söng þar messu. Ótemjan slapp og varð milkill eltingaleikur við hana og spilltust tún hjá Sumarliða Ásmundssyni bónda, sem brást mjög illa við. Barði hann bæði Brand og hrossið til óbóta þegar hann náði til þeirra. Brandur og Sumarliði voru seinna staddir á kaupstefnu á Gásum. Dulbjóst þá Brandur og lét eins og trúður, klæddi sig í kufl og hafði grímu fyrir andliti og reið á folaldi til að komast sem næst Sumarliða, sem uggði ekki að sér og kom Brandur á hann höggi sem dró Sumarliða til dauða. Sumarliði þessi var náfrændi Guðmundar prests og var þetta leiðindamál fyrir hann.

Kolbeinn kvæntist frænku Guðmundar, Gyðríði Þorvarðardóttur, nokkrum árum seinna, sennilega 1196. Hún var bróðurdóttir Guðmundar prests og fékk hann til að þjóna kirkjunni á Víðimýri um aldamótin 1200.

Framgangur Kolbeins á tíunda áratug 12. aldar sýnir að hann tók fast á málu. Árið 1197 leiddu deilumál milli hans og Þórðar Sturlusonar af ætt Sturlunga til bardaga og mannfalls á Alþingi. Ástæðan var sú að þingmaður Kolbeins, Þórður rauður á Oddsstöðum Í Lundarreykjadal, deildi við Hámund Gilsson í Lundi, þingmann Þórðar. Sturla faðir Þórðar var ættfaðir Sturlunga. Synir hans auk Þórðar voru Snorri í Reykholti og Sighvatur á Sauðafelli fyrir vestan, seinna á Grund í Eyjafirði og víðar. Deilurnar komu til kasta Alþingis þar sem Kolbeinn og Þórður fluttu mál þingmanna sinna, mjög á öndverðum meiði. Klofnaði þingheimur í tvennt. Þá sem studdu Kolbein og þá sem studdu Þórð. Slógust menn og nokkrir féllu áður en Páll Jónsson Skálholtsbiskup gekk á milli og sætti fylkingarnar. Kolbeinn stóð í fleiri deilumálum á þessum tíma, svo sem Lönguhlíðarbrennu 1197, þar sem hann veitti Guðmundi dýra stuðning gegn Önundi Þorkelssyni og var Kolbeinn dæmdur í sektir fyrir aðild sína að brennunni.

Guðmundur Arason hafði verið prestur í tvo vetur hjá Kolbeini og Gyðríði á Víðimýri þegar Brandur Sæmundsson Hólabiskup dó 1201. Kolbeinn kallaði þá saman fund á Völlum í Svarfaðardal. Þar mættu helstu höfðingjar Norðlendinga og Gissur Hallsson Haukdælingur, sem bauð fyrir biskupsefni Magnús son sinn. Úr varð að Guðmundur var kjörinn biskup, enda vinsæll og hógvær maður og hefur Kolbeinn, að líkindum, talið að hann yrði auðvelt verkfæri sitt. Fór Kolbeinn til Hóla eftir biskupskjörið, tók búið í sínar hendur og fékk Guðmundur litlu ráðið, þótt hann sætti sig ekki við það ráðslag. Var ákveðið að Sigurður Ormsson tæki við umsjón Hólastaðar og Kolbeinn fór heim aftur, en vinskapur þeirra Guðmundar var orðinn lítill.

Um 1205 skarst alvarlega í odda milli þeirra tveggja út af dómsmáli yfir Ásbirni presti, sem kallaður var pungur. Dæmdi Kolbeinn prestinn sekan skóggangsmann. Biskup hafnaði niðurstöðu dómsins, enda taldi hann að kirkjan ætti að dæma í málinu, tók prestinn til sín og bannaði að nokkur prestur veitti Kolbeini kirkjulega þjónustu, né nokkrum sem í dómnum sat eða bar vitni. Mótspil Kolbeins var að fara til Hóla með skóggangsstefnu á húskarla vegna samneytis við prestinn. Þá bannfærði biskup Kolbein. Sættir tókust í málinu í það sinn fyrir tilstilli Páls Jónssonar Skálholtsbiskups, en áfram deildu þeir. Sagt er frá afleiðingum óvináttu þeirra á öðrum stað í heftinu, þar sem fjallað er um Víðnesbardaga, en þar féll Kolbeinn í valinn, ekki orðinn fertugur. Það urðu örlög fleiri Ásbirninga, t.d. Kolbeins unga og Brands Kolbeinssonar.

Flettu upp á Víðimýri, sem er undir Sturlungaslóð, sem er undir Íslendingasögur á vefsíðinni Lifandi landslag, til að staðsetja Víðimýri og fá meira að heyra um staðinn.

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is