Ásbirningar

Ásbirningar röktu ættir sínar til Öndótts sem keypti land af landnámsmanninum Sleitu-Birni og bjó í Viðvík. Afkomandi Öndótts var Ásbjörn Arnórsson, sem ættin var kennd við. Um 1118 höfðu synir Ásbjörns héraðsvöld í Skagafirði, en þeir hétu Böðvar, Arnór og Þorsteinn. Þeir áttu og fóru með goðorð í Skagafirði og eitt í Húnavatnssýslu að auki. Ásbirningar héldu völdum í Skagafirði óslitið fram til 1246 er þeim var steypt af valdastóli í Haugsnesbardaga. Ættin skiptist í tvo ættleggi frá sonum Kolbeins Arnórssonar, sem var elsti sonur Arnórs Ásbjörnssonar. Skilgetinn sonur Kolbeins hét Arnór og óskilgetinn sonur hans var Tumi.

Skagafjörður og austurhluti Húnavatnssýslu var lengst af á valdasvæði Ásbirninga og eftir Örlygsstaðabardaga 1238 jók Kolbeinn ungi veldi þeirra, er hann náði stórum hluta Norðurlands. Árið 1241 náði hann Vestfjörðum til viðbótar og hélt því þar til Þórður kakali Sighvatsson hóf baráttu gegn veldi hans. Brandur Kolbeinsson, sonur Kolbeins kaldaljóss af skilgetna ættleggnum féll fyrir Þórði kakala í Haugsnessbardaga og eftir það færðust völdin í Skagafirði, eins og á mest öllu landinu, í hendur Sturlunga.

Í átökunum voru Ásbirningar löngum í bandalagi við Haukdæli gegn valdasöfnun Sturlunga. Ásbirningar og Haukdælir voru „gamlar“ og ráðsettar valdaættir, en Sturlungar voru „ný“ ætt sem reyndi að sameina undir eina stjórn héruð sem ekki höfðu áður lotið neinum einum herra. Eftir 1235 fóru þeir að sýna tilhneigingu í þá átt að ná undir sig öllu landinu og hefðu þeir borið sigur úr býtum í Örlygsstaðabardaga er líklegt að það hefði tekist. Lengst náðu Sturlungar eftir Haugsnesbardaga 1246. Næstu fjögur ár ríkti Þórður kakali yfir nær öllu landinu, þótt völd hans væru víða ótraust, einkum í Skagafirði.

Í Sturlungu virðast Ásbirningar einna herskáastir. Þeir voru miklir hershöfðingjar og stjórnmálamenn. Í framkomu þeirra birtist aldarháttur, sem ekki var bundinn við 12. eða 13. öld, heldur einkenndi allar miðaldir og eimdi enn eftir af á 17. öld. Hugarfar þessa tíma var afar ólíkt því sem nú þekkist. Grundvallaratriði í mannlegum samskiptum var persónuleg tryggð og trúnaður undirmanna við yfirmenn og öfugt. Slíkur trúnaður batt samfélagið saman í stað hlýðni nútímamanna við lög og reglur. Þá voru kurteisi og hæverska, hinir svokölluðu mannasiðir, öðruvísi en nú og mannslíf voru ekki heilög á sama hátt og í nútímanum. Opinber víg voru einfaldlega liður í stjórnmálabaráttu þessa tíma á sama hátt og atburðir í kosningabaráttu nútímans. Mannvíg voru því að sumu leyti „eðlilegur“ liður í samfélagsmynstrinu, á sama hátt og styrjaldir töldust til skamms tíma, í samskiptum ríkja á síðari öldum. Í Sturlungu er haldið utan um nokkurs konar viðskiptareikning, þar sem tíundaður er nákvæmlega hver áverki og sár sem veitt voru því samkvæmt Grágás urðu menn að gjalda fyrir í því sama eða meta til fjár. Þá var fólk mjög upptekið af því sem við köllum hjátrú eða hindurvitni, jafnt í trúarlegu lífi sem daglegu. Á þessum og fleiri forsendum verður að vega  og meta aðstæður og atburði. Lítið þýðir t.d. að fordæma Kolbein unga eða aðra Ásbirninga fyrir gjörðir þeirra út frá sjónarhóli nútímamanna né heldur er hægt að byggja mat á atburðum fyrri alda á hugmyndum okkar um nútíma­samfélag.

Hvernig samfélagi stjórnuðu þá Ásbirningar? Ímynd okkar af miðaldasamfélagi Evrópu er ef til vill óljós, en margir munu þó hafa hugmynd um aðalsstétt í köstulum, munkaklaustur, risastórar dómkirkjur og ánauðuga bláfátæka bændur, sem stóðu undir allri dýrðinni. Ferðalög um vatnaleiðir voru greiðastar. Kaupmenn bjuggu í víggirtum borgum og sigldu um Miðjarðarhaf, Eystrasalt og Norðursjó, en samgöngur á landi voru erfiðar. Sú mynd sem gefin hefur verið af íslenskum miðöldum hefur sjaldnast verið tengd hinni evrópsku. Ímynd íslenska miðaldasamfélagsins hefur mikið til mótast af frásögnum í Íslendingasögum, Landnámu og öðrum ritum, og menn hafa litið svo á að hér hafi verið samfélag bjargálna eða fátækra sjálfseignarbænda. Menn hafi verið frjálsir, en fremur fátækir.

Sé hins vegar litið til annarra heimilda en Íslendingasagna, sérstaklega Sturlungu og fornbréfa, kemur í ljós samfélagsmynd sem er ekki svo ólík hinni evrópsku, en mjög fjarri áðurnefndri mynd af fátæku jafnræðissamfélagi. Það blasa við risastórar dómkirkjur, klaustur, höfðingjasetur, jafnvel með virkjum og köstulum, fátækir leiguliðar á leigujörðum kirkju og höfðingja. Mikill ójöfnuður í eignum og samfélagsstöðu einkenndi íslenska samfélagið ekki síður en það evrópska. Engin merki eru um að helstu höfðingjar hafi þjáðst af fátækt, þvert á móti.

Ásbirningar áttu sjálfir fjögur af helstu höfuðbólum Skagafjarðar, Ás í Hegranesi, Reynistað, Víðimýri og Flugumýri. Líklega áttu þeir umtalsverðan fjölda leigujarða um allan Skagafjörð sem þeir gátu veitt stuðningsmönnum sínum og skjólstæðingum. Einnig hafa þeir ráðið miklu um hvaða bændur keyptu eða hverjir fengu að setjast að á stórbýlum héraðsins, þótt þau væru ekki formleg eign þeirra. Helstu bændur í Skagafirði voru þingmenn Ásbirninga, en Ásbirn­ingar áttu líka þingmenn í fjarlægum héruðum, eins og í Lundarreykjadal í Borgarfirði.

Íslendingar og kannski sérstaklega Skagfirðingar, geta vel verið stoltir af Ásbirningum, á sama hátt og Danir eru stoltir af Kristjáni 4. eða Englendingar af Elísabetu meydrottningu, og Norðmenn af Hákoni konungi gamla. Menn geta speglað sig í mismunandi persónuleikum af Ásbirningaætt. Frægustu höfðingarnir voru Kolbeinn Tumason og Kolbeinn ungi Arnórsson og er fjallað sérstaklega um þá báða í þessu yfirliti.

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is