Skagafjörður hefur eins og önnur blómleg héruð dregið til sín landnema fljótlega eftir að land tók að byggjast. Ef rétt er hermt í Landnámabók, hefur héraðið verið albyggt á fyrri hluta 10. aldar líkt og landið allt. Fornleifar styðja þetta og gefa vísbendingu um þétta byggð í miðhéraðinu og afdölum frá 11. og fram á 14 öld. Hluti þessara byggðaleifa er nafnlaus meðan annarra er getið í heimildum.
Félagar Á Sturlungaslóð hafa gefið út kort (á íslensku, þýsku og ensku) þar sem hægt er að finna bæjarnöfn og örnefni í Skagafirði sem koma fyrir í rituðum heimildum frá því fyrir 1400. Í þessu samhengi má einnig benda á að hægt er að fara inn á vefinn Lifandi landslag til að kynnast staða- og byggðasögu í Skagafirði. Heimildirnar sem lagðar eru til grundvallar eru Íslendingasögurnar einkum Landnámabók og Kristni saga en auk þess Sturlunga og 14. aldar máldagar (þ.e. samningar eða kaupmálar, skrár um eignir kirkju og jarða). Til glöggvunar eru núverandi bæjanöfn höfð innan sviga séu þau frábrugðin þeim gömlu. Örnefni eru hins vegar eins og þau koma fyrir í elstu heimild hverju sinni þótt önnur hafi síðar komið í þeirra stað.
Ljóst er að byggð hefur verið dreifðari og bæirnir fleiri en hér eru nefndir en allt eru þetta staðir og nöfn sem mönnum voru kunn á umbrotatímum Sturlungaaldar.
Verið velkomin á Sturlungaslóð!