Hvers vegna er Sturlungaslóð í Skagafirði?

Margir staðir í Skagafirði tengjast sögusviði í Sturlungasögu og margir Skagfirðingar velta sögunni fyrir sér við ótal tækifæri. Í upphafi þess tíma sem sagan fjallar um, á 13. öld, naut fólk í Skagafirði styrkrar stjórnar goðorðsmanna af ætt Ásbirninga. Valdamestur þeirra var skáldið Kolbeinn Tumason á Víðimýri.

Árið 2008, 800 árum eftir að Kolbeinn skáld féll í valinn, var kallaður saman hópur fólks sem setti á fót félagið Á Sturlungaslóð. Ásetningur þess var og er að skoða hvort og hvernig hægt er að minnast þeirra dramatísku og afdrifaríku átaka sem urðu á Sturlungaöld í Skagafirði á þeim stöðum þar sem þeir gerðust. Úr varð að flétta þá sama í slóð sem fólk getur farið að vild. Við höfum sett upp einskonar lifandi landakort sem tekur mið af sögunni. Ástæða þess að valið varð að kenna slóðina við Sturlungaættina fremur en ætt Ásbirninga var sú að það voru yfirleitt Sturlungar sem fóru hamförum í Skagafirði. Ásbirningar reyndu að verjast þeim en urðu undir á endanum. Slóð Sturlunga um Skagafjörð var blóði drifin og hræðileg upplifun þess samferðafólks sem þá lifði. Þeir réðust inn í ríki Ásbirninganna með það að markmiði að ná Skagafirði á sitt vald og margir þeir sem mest létu voru tengdir Ásbirningum blóð- og fjölskylduböndum. Frændur reyndust frændum verstir. 

Þrátt fyrir það hefur Sturlungaöld yfir sér ákveðinn ljóma og oft er vitnað til þeirra sem þá voru uppi og þess sem gerðist. Af því má enn læra margt. Á vefsíðunni Lifandi landslag er hægt er að rekja sig eftir þessari slóð - Á Sturlungaslóð - og hlusta á hvað gerðist á hverjum stað. Velja þarf undirsíðuna Íslendingasögur til að komast inn á slóðina.

Svo sem sést á skiltum sem félagið Á Sturlungaslóð hefur látið setja upp við akstursleiðir inn í Skagafjörð bjóðum við, félagar á Sturlungaslóð, alla gesti Skagafjarðar velkomna á magnaðar söguslóðir. Hönnuður merkisins er Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

Sturlungaslóð   |   sturlungaslod@sturlungaslod.is