Fornleifar í Fljótum - Gimbur gistiheimili

Í tilefni af evrópsku menningarminjadögunum mun Minjastofnun Íslands standa fyrir dagskrá laugardaginn 14. október nk. á Gimbur gistiheimili í Fljótum. Þema menningarminjadaganna að þessu sinni er minjar og náttúra og munu af því tilefni verða flutt þrjú stutt erindi sem endurspegla áhrif náttúru á staðsetningu minja og mótun menningarlandslags og varðveislu þess. Guðmundur St. Sigurðarson Minjavörður Norðurlands vestra mun fjalla um menningarminjar og loftlagsbreytingar. Guðný Zoëga fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga gerir grein fyrir fornleifarannsóknum sumarsins í Fljótum og Hjalti Pálsson ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar veltir fyrir sér landnámi í Fljótum. Í framhaldinu verður heimsóttur einn af þeim fjölmörgu minjastöðum sem nýlega hefur fundist eða nýjar upplýsingar fengist um.

 

Dagskrá hefst kl. 13:00, að erindum loknum verður farið á einkabílum á minjastað í nágrenninu, áætlað er að dagskrá ljúki eigi síðar en kl. 16.