Barnavernd

Barnaverndarnefnd Skagafjarðar er sameiginleg fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og Akrahrepp. Nefndin fer með málefni sem unnin eru á grundvelli Barnaverndarlaga.

Félagsmálastjóri, félagsráðgjafi og eftir atvikum fleiri starfsmenn Fjölskyldusviðs vinna barnaverndarmál í umboði nefndarinnar skv. reglum sem nefndin hefur sett sér þar um.

Hvað er barnavernd?

Börn eiga rétt á vernd og umönnun. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og annast þau eins og best hentar hag og þörfum þeirra, búa þeim viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra. Öllum ber okkur að sýna börnum virðingu og umhyggju.

Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þetta er einkum gert með því að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu. Öllum foreldrum og þeim sem hafa samskipti við börn stendur til boða almenn ráðgjöf hjá félagsráðgjafa. Ef nauðsyn þykir er unnt að bjóða upp á ýmis önnur stuðningsúrræði sem Fjölskylduþjónustan hefur yfir að ráða.

Hlutverk Barnaverndar Skagafjarðar

Ef barn býr við óviðunandi aðstæður vegna:

  •   vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra
  •   áreitni eða ofbeldis af hálfu annarra
  •   eða barn stefnir heilsu og þroska í hættu með hegðun sinni

kemur í hlut barnaverndar að tryggja að barnið og fjölskyldan fái nauðsynlega aðstoð. Taka þarf eftir atvikum formlega ákvörðun um að hefja könnun á málinu. Síðan eru málefni barnsins unnin á grundvelli laga um barnavernd.

Börn og foreldrar njóta skýrra réttinda við vinnslu slíkra mála.
Heimildir barnaverndarnefndar/starfsmanna eru skilgreindar í lögum og tilteknar skyldur lagðar á nefndina og starfsmenn hennar. Alltaf er leitast við að tryggja réttaröryggi fjölskyldna og áhersla lögð á góða samvinnu foreldra og starfsfólks.  

Tilkynningaskylda

Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:

    a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
    b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
    c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Sérstök tilkynningaskylda er lögð á fólk sem starfar með börnum, t.d. starfsmenn skóla og heilsugæslu, að ógleymdri lögreglunni.

 Á dagvinnutíma getur fólk snúið sér beint til starfsmanna barnaverndar í ráðhúsinu með tilkynningar, spurningar eða vangaveltur varðandi barnaverndarmál með því að hringja í 455 6000.

Neyðarlínan 112 tekur við tilkynningum

Fólk getur hringt í Neyðarlínuna 112 og tilkynnt um óviðunandi aðstæður barna. Neyðarlínan er opin allan sólarhringinn. Starfsmenn 112 meta hvort henni verði komið strax á framfæri til starfsmanns barnaverndarnefndar eða hvort beðið verði til næsta virka dags. Sá sem hringir gefur upp nafn sitt, nafn og dvalarstað barnsins, ástæður tilkynningarinnar og aðrar upplýsingar sem starfsmenn neyðarlínu spyrja um. Þeir hafa fengið sérstaka þjálfun hjá Barnaverndarstofu til að sinna þessu verkefni.


Hvað á að tilkynna?

Nokkur atriði sem foreldrar, afar og ömmur, frændur og frænkur eða nágrannar, skyldu hafa í huga þegar þau velta fyrir sér hvort tilkynna skuli um aðstæður barns eða unglings: Eru vísbendingar um:

  •   líkamlega og andlega vanrækslu eða ofbeldi  gegn börnum
  •   kynferðislega misnotkun
  •   að ung börn séu skilin eftir gæslulaus
  •   eru foreldrar í fíkniefnaneyslu
  •   er hegðun barnsins mjög ábótavant, t.d. afbrot, árásargirni og ofbeldishegðun
  •   er um að ræða áfengis-og vímuefnaneysla unglinga eða barna ?

Flestir vita út frá brjóstviti sínu hvort barn býr við óviðunandi aðstæður vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, eða hvort ástæða sé til að óttast að barn stefni heilsu sinni eða þroska í hættu með hegðun sinni.
Ef maður telur svo vera ber að hafa samband við barnavernd sem hefur það hlutverk að meta hvort ástæða sé til að blanda sér í málið og tryggja að barnið og foreldrarnir fái nauðsynlega aðstoð.

Trúnaður og nafnleynd

Starfsmenn Neyðarlínu 112 og starfsmenn barnaverndarnefndar eru bundnir trúnaðarskyldu. Í barnaverndarlögunum er einnig fjallað um nafnleynd þess sem tilkynnir. Almenningur, ættingjar eða aðrir nákomnir, geta óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd. Þá er slík beiðni virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Opinberir aðilar t.d. skóli, leikskóli, sjúkarhús eða heilbrigðisstofnun, tilkynna í embættis nafni og njóta því ekki nafnleyndar.

Tenglar:

Barnaverndarstofa
Lög og reglugerðir um barnaverndarmál   (sjá Barnaverndarstofu) 

Umsjónaraðili barnaverndarmála:

 

greta sjofn

  Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir
  Félagsmálastjóri
  Netfang: gretasjofn(hja)skagafjordur.is