Útideild
Vinnureglur Útideildar í Skagafirði
Starfsemi Útideildar fer að mestu fram á föstudags og/eða laugardagskvöldum (eftir hvað er í gangi í bænum) frá kl. 23.30 og fram eftir nóttu svo lengi sem þurfa þykir. Ekið er um bæinn og farið á þá staði sem unglingar safnast saman. Einnig er fylgst vel með veitingahúsum bæjarins og lögreglustöð heimsótt.
Þegar Útideild hefst er það tilkynnt um leið til lögreglu með upplýsingum hver sé á vaktinni og símanúmer Útideildar. Útideild beitir þrýstingi til að leysa upp óæskilega hópamyndun eftir að útivistartíma lýkur og spornar gegn óæskilegri hegðun. Beitt er úrtölum og afskiptum og setur útideild sig í samband við forráðamenn ef þarf.
Ef grunur leikur á að unglingur sé undir áhrifum áfengis skal honum fyrst boðið að afsanna það með því að blása í áfengismæli, ef hann neitar því er haft samband við foreldra og þeir látnir vita um grunsemdir. Ef grunur er staðfestur er að sjálfsögðu haft samband við foreldra og lögreglu. Ef unglingar undir 16 ára eru inni á skemmtistöðum, er skylda að hringja foreldra og láta vita og tilkynningarbréf verður sent til þeirra frá félagsþjónustu.
Æskilegt er að ná sambandi við foreldra á heimili unglinga sem eru keyrð heim eftir að útivistartíma lýkur. Ef unglingar virða ekki útivistarreglurnar ítrekað, þó svo að þeir haldi góðri samvinnu við útideild (fara heim með útideildarbílum), er málið tilkynnt til félagsþjónustu. Vakt lýkur með símtali við lögreglu. Skýrsla útideildarinnar frá helginni er lesin upp á starfsmannafundi frístundadeildar á mánudegi. Útideild starfar á vettvangi er varðar aldurstakmarkanir á vínveitingastöðum. Skylda er að tala fyrst við dyraverði og ef þeir vilja ekki gera neitt er hringt í lögregluna.
Ef Útideild verður vitni að því að foreldrar gefi börnunum að drekka þá er það tilkynning til barnaverndar. Ef unglingur undir lögaldri er inni á skemmtistað, þá lætur útideild dyraverði vita, þeir sækja unglinginn og koma honum til okkar. Við tölum við unglinginn og látum hann blása í áfengismæli, látum foreldra vita og biðjum þá að sækja barnið. Ef unglingur í 10. bekk er inni á 16 ára balli (eftir áramót, þegar hann hefur heimild til að vera) og er drukkinn, hringja starfsmenn útideildar í foreldra og láta vita. Ef foreldri er með læti og segir að það skipti ekki máli, þá verður tilkynnt að máli muni fara lengra ef þetta gerist aftur.
Útideild bendir lögreglu á eftirlitslaus samkvæmi og kalla til barnaverndaryfirvöld ef þurfa þykir. Náið samstarf er milli lögreglu og Útideildar.
Ef Útideild verður vör við eftirlitslaus partý:
Starfsmenn Útideildar tilkynna lögreglu og bíða eftir að hún komi á staðinn. Lögregla fer inn og finnur húsráðanda og hringir í foreldra hans. Passa verður á meðan að engin yfirgefi staðinn. Þegar því er lokið hringir lögreglan í starfsmenn Útideildar sem koma þá inn og aðstoða lögreglu við að finna unglinga undir 16 ára aldri. Þeir sem við finnum koma með Útideild inn í bíl og blása í áfengismæli. Ef fleiri unglingar eru á staðnum en bíllinn tekur, skal lögregla passa unglingana inni í húsinu á meðan starfsmenn Útideildar hringja í foreldra unglinganna. Lögregla yfirgefur ekki húsið fyrr en ábyrgur einstaklingur yfir 18 ára aldur er kominn inn í húsið.
Útideildin heldur skýrslur yfir helstu atriði meðan á eftirliti stendur. Til er staðlað form þar sem eftirfarandi þættir koma fram. Skýrsla er geymd á skrifstofu frístundadeildar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og samantekt verður skilað til lögreglu.
Þeir sem geta náð í skýrsluna eru starfsmenn Útideildar, lögregla og barnaverndaryfiröld ef þörf krefur. Útideildin miðlar upplýsingum til lögreglu og vekur athygli á málum er varðar unglinga og nýtist þeim í starfi. Félagsmálastjóri fær mánaðarlega ábendingar um þau málefni sem Útideild telur rétt að vekja athygli á.
Nánari upplýsingar um Útideildina má fá hjá Húsi Frítímans í síma: 455 6109