Maríta-fræðsla

Kæru foreldrar og forráðamenn !

Opinber vímuvarnastefna  er sú að enginn skuli láta afskiptalausa vímuefnaneyslu barna og unglinga og til að það takist þurfi allir að taka höndum saman. 

Hús Frítímans og grunnskólarnir  í samvinnu við stýrihóp forvarna í Skagafirði hafa sett upp áætlun til þess að sporna við þessu vaxandi vandamáli og kalla foreldra til liðs við sig  því engir eru öflugri og hafa meiri áhrif  í forvörnum  en  foreldrar.

Við hófum átakið með skoðanakönnun á neyslu unglinga í 8. 9. og 10.bekkjum  til þess að geta kortlagt með sem öruggustum hætti hver hún er. Niðurstöður þeirrar könnunar er að finna hér á heimasíðunni.

Þá hafa allir unglingar í 8. 9. og 10.bekkjum og foreldrar þeirra fengið Marita-fræðslu.  Marita á Íslandi hefur verið með fræðslu , “Hættu áður en þú byrjar”, um skaðsemi fíkniefna frá árinu 1998.  Fræðslufulltrúi Maríta, Magnús Stefánsson, er aðalfyrirlesari en auk hans eru fulltrúar lögreglunnar og Æskulýðs-og tómstundayfirvalda með erindi. 

Hættu áður en þú byrjar, er verkefni fyrir nemendur í 8. 9. og 10. bekkjum og foreldra þeirra. Sýnd er íslensk mynd þar sem reynt er að sýna veruleika fíkniefnaheimsins hér á landi. Fræðslufulltrúinn, sem er óvirkur fíkill, ræðir við nemendur um fíknina og afleiðingar hennar m.a. á sitt eigið líf. Lögreglumaður ræðir um afleiðingar fíkniefnaneyslunnar m.a. út frá sakaskrá. Fulltrúi félagsþjónustunnar ræðir m.a. um hvert foreldrar geta snúið sér til að fá aðstoð vegna barna sinna. Fundirnir taka tvær klukkustundir.

Markmið með fræðslunni er að reyna fá unglinga til að taka afstöðu gegn fíkniefnum og notkun þeirra. Reynt er að leiða þeim fyrir sjónir hverjar afleiðingarnar eru. Unglingar og foreldrar þeirra eru hvattir til að ræða um þessi mál sín á milli. Því er nauðsynlegt að þau fái sömu fræðslu, þó nálgun efnisins sé ólík á fundunum.