Hreinlætismál og sorpflokkun
Sveitarfélagið Skagafjörður annast meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu. Undir þetta ákvæði fellur ábyrgð á móttöku spilliefna og meðferð úrgangs til vinnslu t.d. lífræns úrgangs, landbúnaðarplasts, brotamálma og annars flokkaðs úrgangs í samráði við og undir eftirliti Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra.
Veitu- og framkvæmdasvið sveitarfélagsins hefur umsjón með hreinlætismálum, s.s. sorphirðu, fráveitu, losun rotþróa o.fl.
Sorpflokkun
Flokka ehf. á Sauðárkróki rekur móttökustöð sorps að Borgarteigi 12. Þar er tekið á mótið öllum úrgangi nema lífrænum úrgangi. Flokka ehf. er dótturfyrirtæki Ó.K. gámaþjónustu sem er með samning um sorphirðu í Skagafirði við sveitarfélagið en í þéttbýlisstöðum fjarðarins er sorp flokkað í þriggja tunnu flokkunarkerfi. Tilgangurinn er að minnka það magn sem fer til urðunar og stuðla að endurnýtingu svo íbúar geti lagt sitt af mörkum til verndar náttúru og umhverfis. Á hverjum stað er grá urðunartunna tæmd einu sinni í mánuði og græna endurvinnslutunnan einu sinni í mánuði. Skipulag þessarar losunar má kynna sér nánar á heimasíðu Flokku, auk þess hvernig standa skal að flokkun sorps sem fer í grænu endurvinnslutunnunar.
Dagskrá sorplosunar í Skagafirði
Sorplosun á gámasvæðum
Ó.K. gámaþjónusta sér auk þess um sorplosun á gámasvæðum sem er að finna víðs vegar í dreifbýlinu. Mikilvægt er að íbúar sameinist um að ganga vel um þessi svæði og flokki sorp rétt í gámana. Ef gámar eru fullir þarf að láta starfsmenn Ó.K. gámaþjónustu vita af því í síma 453 5000.
Söfnun dýrahræja og rúlluplasts
Að auki sækja bílar á vegum fyrirtækisins dýrahræ heim á sveitabæi alla miðvikudaga og rúlluplast heim á sveitabæi einu sinni í mánuði eftir þessari áætlun:
- Fyrsta mánudag í hverjum mánuði er sótt plast í Sléttuhlíð, Óslandshlíð, Hjaltadal, Viðvíkursveit og Hegranes.
- Fyrsta mánudag í nóvember, janúar, mars og maí er einnig farið í Fljótin.
- Annan mánudag í hverjum mánuði er farið í Lýtingsstaðahrepp, Seyluhrepp, Staðarhrepp og Skarðshrepp.
- 3x á ári er sótt plast út á Skaga og Reykjaströnd og eru þær dagsetningar í samráði við heimamenn í hvert skipti.
Losun garðaúrgangs
Sauðárkrókur: Í iðnaðarhverfi við enda Borgarteigs
Hofsós: sunnan við Pardus
Varmahlíð: sunnan við afleggjara Hringvegar og Skagafjarðarvegar
Steinsstaðir: við Héraðsdalsveg austan við Steinsstaði
Staðsetning losunarsvæða á korti
Tæming rotþróa
Rotþrær eru tæmdar á þriggja ára fresti í Skagafirði. Fer tæmingin fram seinnipart sumars og fram undir haust. Í tæmingaráætlun er Skagafirði skipt í þrjú svæði:
- Skaginn og Fljótin
- Skagafjörður vestan Vatna að Sauðárkróki
- Skagafjörður austan Vatna að Fljótum
Tæming verður sem hér segir:
- 2017 – tæming á Skaga og í Fljótum
- 2018 – tæming vestan Vatna
- 2019 – tæming austan Vatna
Urðunarstaðir
Urðunarstaðurinn í Stekkjarvík er rekinn af Norðurá bs. sem er byggðasamlag sveitarfélaga í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu. Þjónustusvæði urðunarstaðarins er þó mest allt Norðurland.
Flöskumóttaka
Flöskumóttaka er staðsett við Verslunina Eyri á Sauðárkróki. Opið alla virka daga frá 10-12 og 13-14.