Sundlaugar í Skagafirði

 

Sundlaug Sauðárkróks við Skagfirðingabraut

Sími: 453 5226

Netfang: sundlaug(hja)skagafjordur.is

Fésbókarsíða                                                                              

Sjá opnunartíma hér

 

Á laugarsvæði er að finna 25x8 metra sundlaug sem er frá 0,9 - 2,7 metrar á dýpt. Auk sundlaugar er að finna tvo heita potta, annan 39°C og hinn 41°C. Í báðum pottum er loftnudd. Sundlaugarbakkinn er lagður stömu tartan efni sem hitað er upp með snjóbræðslukerfi.

Á 6. áratug síðustu aldar var ákveðið að reisa sundlaug á Sauðrákróki við bæjarmörkin til suðurs. Í teikningum frá 1955 er gert ráð fyrir að sundlaugin yrði yfirbyggð innilaug með tveggja hæða aðstöðuhúsi með búningsklefum austan við sundlaugarkar. Sú bygging reis ekki fyrir vígslu laugar né var byggt yfr laugina. Sundlaugin var formlega vígð þann 11. júní árið 1957 við hátíðleg athöfn, sjá nánar hér. Það var ekki fyrr en árið 1971, á 100 ára kaupstaðarafmæli Sauðárkróks og fyrir Landsmót UMFÍ, sem lokið var við aðstöðuhús austan og norðan við laugarkar. Fram að þessu eða í 14 ár höfðu klefar verið undir laugarkari að vestanverðu þar sem ganga þurfti dimma og þrönga ganga til að komast til laugar. Árið 1988 voru tveir pottar byggðir við laugina sem margir hafa lýst sem þeim bestu á landinu. Þrjátíu árum seinna eða árið 2018 hófust svo framkvæmdir við endurbætur á lauginni sem fyrirhugað er ljúki síðla sumars 2019. Fyrsta áfanga endurbóta lauk á vormánuðum 2020 þar sem búningsklefar, sturtur og afgreiðsla voru endurgerð. Næsti áfangi, þar sem bæta á við laugarkari með ýmisskonar afþreyingu fyrir börn og ungmenni, hófst síðvetrar 2022. Frekari lýsingar á þeim framkvæmdum má finna hér.

 

 

 

Sundlaugin á Hofsósi

Sími: 455-6070

Netfang: sundhofsos(hja)skagafjordur.is

Fésbókarsíða                                                                         

Sjá opnunartíma hér

 

Á laugarsvæði er að finna 25x10,5 metra sundlaug sem er frá 0,9-1,8 metrar á dýpt. Auk sundlaugar er einn heitur pottur 39°C og lítið vaðlaug 35°C. Sundlaugarbakkinn er hellulagður með snjóbræðslu sem liggur frá búningsklefum að sundlaug og heitum potti.

Sundlaugin var vígð 31. mars 2010 og hefur síðan þá verið einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Skagafirði. Auk þess hefur laugin hlotið fjölda viðurkenninga sem einn besti sundstaður landsins. Mesta lofið fær laugin fyrir hönnun og sér í lagi fyrir einstaka staðsetningu.

 

 

Sundlaugin í Varmahlíð

Sími: 453-8824

Netfang: sundvhl(hja)skagafjordur.is

Fésbókarsíða

Sjá opnunartíma hér

                                                                                                                                                                                                                                                                                                 Sundlaugin er tvískipt útilaug. Annars vegar er 12,5 x 25 metra laug og hins vegar 12,5 m x 8 m „barnalaug“. Í þeirri síðarnefndu er vatnið haft heitara en í stærri lauginni og þar er lítil rennibraut. Nýtur hún mikilla vinsælda meðal fjölskyldufólks. Einnig er heitur pottur við laugarnar. Í nóvember 2018 var tekin í notkun ný og glæsileg rennibraut sem er 7 metra há og 47 metra löng. Þá er einnig minni rennibraut fyrir þau yngstu.

Fara má aftur til ársins 1912 til að finna heimildir um sundiðkunn í Varmahlíð þegar Ungmennafélagið Fram reisti sundlaug úr torfi. Í þeirri laug var kennt flest sumur fram til ársins 1928. Það var svo á árunum fyrir seinni heimstyrjöld sem hugmyndir um héraðsskóla í Varmahlíð kviknuðu og var fyrsti liðurinn í því, bygging sundlaugar í Varmahlíð á árunum 1938-39. Þann 27. ágúst 1939 var ný 33x12.5 metra laug vígð og gegnir hún enn í dag sínu hlutverki þó hún hafi fengið verulega „andlitslyftingu“ frá þeim tíma. Frá þeim tíma til vígslu laugarinnar á Sauðárkróki 1957 var laugin í Varmahlíð megin sundkennslustaður héraðsins. Árið 1989 var laugin tekin til viðgerða og endurbóta þar sem milliveggur var byggður sem skilur að djúpu og grunnu laugina. Um svipað leiti voru byggðir nýjir búningsklefar norðan við laugina sem jafnframt gátu þjónað íþróttahúsi sem tekið var í notkun árið 1995.     

  

 

Sundlaugin Sólgörðum, Fljótum (Barðslaug)

Sími: 467 1033

Fésbókarsíða

Sjá opnunartíma hér

 

Á laugasvæðinu er að finna 8x16,5 metra sundlaug sem er frá 0,9-2,4 metra djúp. Laugin er ákaflega barnvæn þar sem reynt er að halda henni í 34°C. Auk sundlaugarinnar er að finna einn heitan pott.

Rekja má sundiðkunn á Sólgörðum aftur til 1895 þegar ákveðið var að nýta laugaruppsprettu á svæðinu og hlaða í litla laug sem notuð var til sundiðkunnar og kennslu. Árið 1932 var hún svo endurbyggð þegar laugin var grafin niður, hlaðin grjóti að innan og grjótgarður settur utan með svo hún héldi sæmilega vatni. Þessi laug var svo notuð fram til 1975 þegar núverandi sundlaug var tekin í notkun. 

 

ATH! Hætt er að selja í laugarnar 30 mín fyrir auglýstan lokunartíma

Gjaldskrá sundlauga

Reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum

Starfsleyfisskilyrði fyrir sund- og baðstaði